Alræmd próf – 9 ástæður fyrir því að samræmd próf eigi að leggja niður

Ingvi Hrannar Ómarsson skrifar.

Ingvi Hrannar Ómarsson er grunnskólakennari, frumkvöðlafræðingur og áhugamaður um framtíð menntunar. Greinin birtist upphaflega á ingvihrannar.com.

Ég vil byrja á því að segja að þessi hugleiðing snýr ekki að klúðurslegri fyrirlögn samræmdra prófa í vikunni sem leið. Það voru mistök í framkvæmd. Að leggja samræmd próf fyrir er hins vegar ákvörðun…. ákvörðun sem þarf að endurskoða nú þegar við viljum þróa menntakerfi okkar áfram í takt við kröfur samfélags og atvinnulífs.

Samræmd próf á að leggja niður frá og með föstudeginum síðasta. Þessi framkvæmd var viðeigandi jarðarför þeirra. 

Hér eru nokkrar ástæður fyrir því.

Ástæða 1: Samræmd próf eru fyrir skólastarf eins og armbeygjukeppni er fyrir íþróttir.

Ef Menntamálastofnun gæfi út samræmt próf í íþróttum er líklegt (miðað við þröngar áherslur samræmdra prófa í öðrum greinum) að prófið gengi út á það eitt hversu margar armbeygjur nemandi gæti tekið.

Ekkert væri athugað hvað þau gætu hoppað hátt, hlaupið langt, kastað fast, búið til marga skapandi nýja leiki eða unnið vel með öðrum.

Ekki myndi líða að löngu þangað til íþróttatímar líktust heræfingum sem snérust um einhæfar endurtekningar á efri hluta líkamans.

Ástæða 2: Prófin eru hamlandi þáttur fyrir skólaþróun.

Samræmd próf eru í engu takti við Aðalnámskrá grunnskóla. Þau meta ekki hluti sem skipta raunverulegu máli og valda því að skólar, sem það vilja, hafa afsökun til þess að kenna börnum eins og árið sé 1950, þar sem samvinna er svindl, og ekki sé búið að finna upp internetið.

Það að vera lærður þýðir EKKI að geta munað sem mest af hlutum sem engu máli skipta og auðvelt er að fletta upp.

Það að vera lærður þýðir frekar að geta komið auga á vandamál, prófað mismunandi lausnir, með öðrum, þora að mistakast, að geta leitað nýrra leiða og vita hvenær er rétt að halda áfram og hvenær á að hætta.

Ástæða 3: Prófin þrengja námskrá.

Prófin gera það að verkum að námskráin er þrengd, fögin sem fá mesta vægi eru fögin sem eru mæld á prófum því skólar eru metnir og bornir saman á gamaldags prófi sem metur aðeins brot af því námi sem á að fara fram í grunnskólum. Önnur fög verða á jaðrinum, auka, ómerkileg…

Sir Ken Robinson bendir á að þegar námskráin er þrengd verður útkoman sú að fullt af ungu fólki útskrifast úr skóla með lítið sem ekkert sjálfstraust því það sem þau voru góð í í skóla var ekki metið.

Ástæða 4: Próf með einu réttu svari draga úr skapandi hugsun og auka hræðslu við að mistakast.

Það er ljóst að fjórða iðnbyltingin er hafin og í henni leikur nýsköpun og skapandi hugsun lykilhlutverk.

 „Mörg­um hætt­ir til að líta fram hjá því að menn­ing­in, hinar skap­andi grein­ar og fram­leiðsla þeim tengd er nú meðal öfl­ug­ustu at­vinnu­greina Evrópu.”

-Androulla Vassili­ou

Nú þurfum við að leysa fleiri og stærri vandamál sem við höfum ekki séð áður. Pablo Picasso sagði eitt sinn:

Every child is an artist. The problem is how to remain an artist once we grow up.

Rannsóknir hafa ítrekað bent á að fólk sem alið er upp í umhverfi staðlaðra prófa og staðlaðs skólastarfs er líklegra að vera hrætt við að gera mistök, líklegra til þess að missa áhuga á námi og líklegra til þess að velja auðveldasta verkefnið sem minnstar líkur eru á að þeim mistakist í.

„As for the research studies: Collectively, they make it clear that students who are graded tend to differ from those who aren’t in three basic ways. They’re more likely to lose interest in the learning itself. They’re more likely to prefer the easiest possible task. And they’re more likely to think in a superficial fashion as well as to forget what they were taught.”

-Alfie Kohn

Rannsóknir hafa bent á að próf, einkunnir, og sú hugmynd að aðeins eitt rétt svar sé við spurningum, dragi úr skapandi hugsun. Í skólastarfi krossaprófa og stöðlunar eru mistök það versta sem þú getur gert…. í samfélagi og atvinnulífi eru tilraunir og mistök nauðsynlegur hluti af því að prófa og þróa.

Ef við viljum efla sköpun og frumkvöðlastarf í samfélaginu er skapandi skólastarf og faglegt frelsi kennara lykilþáttur í því, ekki stöðlun. Því þurfum við að gefa skapandi greinum eins og tónlist, myndlist, leiklist og dans sem jafn mikið vægi og greinum eins og náttúrufræði, stærðfræði og tungumálum. Til þess þurfum við að losa okkur við stöðlun og laða að listamenn og listgreinakennara inn í skólana með því að borga þeim betri laun en annars staðar og gefa þeim faglegt frelsi og traust, rétt eins og öðrum kennurum.

Ástæða 5: Prófin ýta ekki undir áhuga á verknámi og iðngreinum.

Lilja Alfreðsdóttir Mennta-og menningamálaráðherra sagði í ávarpi sínu um daginn að aðeins 12% grunnskóla­nem­um inn­rit­ist í verk- og starfs­nám á Íslandi en hlut­fallið er tals­vert hærra á hinum Norður­lönd­un­um. Það sé gríðarleg eft­ir­spurn eft­ir iðnmenntuðu fólki á Íslandi og því ætti það að vera mjög eft­ir­sókn­ar­vert að velja þá leið.

Samræmdar mælingar minnka rýmið sem iðnnám og verkgreinar hafa innan skólanna. Ef við viljum iðnmenntað fólk þurfum við að vekja áhuga barna á verkgreinum í grunnskóla. Það gerum við m.a. með því að:

  1. Auka hlut verknáms og iðngreina í viðmiðunarstundarskrá.
  2. Fá hæft fólk til þess að starfa í grunnskólum við kennslu í þessum greinum og til þess þurfum við að greiða þeim hærri laun sem kennarar heldur en þau fengju t.a.m. sem smiðir á almennum vinnumarkaði.
  3. Styðja skóla sem vilja nútímavæða smíðastofuna með svokölluðu “MakerSpace” þar sem notaðir eru m.a.  þrívíddaprentarar, vínylskerar og tölvustýrðir fræsarar við nám og kennslu.

Ástæða 6: Samræmd próf líta á samvinnu sem svindl og draga úr samvinnu á milli skóla og á milli kennara

Í nútímasamfélagi er hæfnin að geta unnið með öðrum talin ein sú allra mikilvægasta. Samræmd próf telja þá hæfni engu skipta og beinlínis ýta námi og kennslu frá því að sú færni sé þjálfuð.

Margir þekkja samkeppni úr fyrirtækjarekstri og halda að með því að setja skóla og bekkjardeildir í árlega keppni um þrönga færni munu þeir gera betur. Reyndin er samt sú að þessi keppni verður til þess að kennarar og skólar deila síður því sem vel gengur vegna þess að þeir eru í samkeppni. Aðeins tæpur helmingur getur verið fyrir ofan meðaltal (sjá ástæðu 8).

Í skólastarfi er það hins vegar hagur allra ef allir standa sig vel og því verðum við að fá kennara og skóla til þess að vinna saman í stað þess að halda einhverju árangursríku hver frá öðrum eins og hætta er þegar þú ert að keppa við nágranna þinn.

Ástæða 7: Samræmd próf draga úr faglegu frelsi og trausti við kennara.

Kennarar eru sérfræðingar í menntun, rétt eins og lögfræðingar eru sérfræðingar í lögum og læknar í læknisfræði. Kennsla er skapandi starf og kennarar eiga að fá frelsi og traust til þess að gera það sem þeir vita að er nemendum og framtíð þeirra fyrir bestu. Samræmd próf draga úr því faglega frelsi og fagmennsku kennara í starfi.

Ástæða 8: Röðunin gerir það sjálfkrafa að verkum að 49% skóla og nemenda er undir meðaltali…. sama hvað.

Þegar þú lætur 100 manns taka próf og raðar þeim svo í röð eftir einkunnum segir þú ekkert um þeirra hæfni. Jafnvel þó allir væru með 80% + af svörunum réttum (sem ætti að teljast nokkuð gott) þá væri samt einhver neðstur. Vandamálið er því heimatilbúið. Við búum til meðalkúrvu sem gengur út á að búa til 49 tapara af hverjum 100. Vandamálið er innbyggt í niðurstöðurnar, sama hver niðurstaðan er.

Af hverju er ekki bara eitthvað lágmarks viðmið sem gerir öllum kleift að ná í stað þess að draga línu í miðjunni? Ég ákvað að teikna einfalda mynd til þess að útskýra muninn á þessu tvennu:

Ástæða 9: Það að vita hefur breyst úr því að muna og endurtaka í það að finna og nota upplýsingar.

Dr. Herbert Simon sagði eitt sinn:

„Það að vita hefur breyst úr því að muna og endurtaka í það að finna og nota upplýsingar.”

Samræmd próf mæla einmitt þekkingu sem þú getur munað og endurtekið en ekki þá sem þú getur fundið og notað þegar þú þarft. Ef prófin væru að meta raunverulega hæfni, þá mættir þú nota símann þinn, leitað að upplýsingum í þeim… meira að segja hringt í vin. Markmiðið hlýtur að vera að athuga hversu vel þú getur leyst verkefni..

Hvenær leystir þú síðast mikilvægt verkefni í raunveruleikanum þar sem þú máttir ekki nota nein hjálpargögn? … var það kannski í samræmdu prófi?

Af ofantöldum ástæðum tel ég rétt að leggja samræmd próf alfarið niður í núverandi mynd og treysta kennurum til þess að þróa kennsluhætti til framtíðar en ekki fortíðar.

 

Andreas Schleicher (2010) sagði eitt sinn að skólar verði að undirbúa nemendur undir störf sem er ekki er búið að finna upp, að nota tækni sem hefur ekki verið uppgötvuð og leysa vandamál sem hafa ekki komið upp.

Samræmd próf eru hins vegar að undirbúa nemendur undir störf sem löngu er búið að leggja niður og leysa vandamál þar sem svarið er löngu vitað.

Menntun er raunverulega metin þegar þú hættir í formlegu námi. Þá er að sjá hvort þú hafir færni til þess að læra það sem þú þarft, þegar þú þarft, jafnvel þó enginn segi þér að gera það.

Það er mín trú að tæknin hafi ekki brugðist nemendum við fyrirlögn samræmdra prófa, heldur bjargað þeim. Fyrirlögnin á miðvikudag var dauði samræmdra prófa og föstudagurinn var viðeigandi jarðarför.

Horfum til framtíðar í þróun skólastarfs, börnin okkar og framtíð þeirra veltur á því.

Ingvi Hrannar Ómarsson,
grunnskólakennari, frumkvöðlafræðingur og áhugamaður um framtíð menntunar.

Sambíó

UMMÆLI

Sambíó