Almenningssamgöngur á Akureyri liggja niðri í dag vegna ófærðar. Enn er mjög blindað, töluverð úrkoma og lítið skyggni. Þetta kemur fram í tilkynningu á heimasíðu Akureyrarbæjar. Hér að neðan má lesa tilkynninguna í heild sinni:
Í þessum aðstæðum miðar snjómoksturinn fyrst og fremst að því að halda helstu stofnbrautum opnum og tengja hverfin. Byrjað er að keyra snjó af stofnbrautum og stærstu götum í þeirri viðleitni að vinna í haginn eins og hægt er í morgundaginn. Stefnt er að því að ryðja inni í hverfum á morgun. Ófært er í bænum fyrir fólksbíla og er vonast til að fólk sé ekki á ferli á götunum að óþörfu. Strætisvagnar Akureyrar ganga ekki í dag og sama gildir um ferliþjónustuna.
Í dag verður lokað í Ráðhúsi, Glerárgötu 26, Rósenborg og Víðilundi. Því miður er færðin þannig að ekki verður mögulegt að koma heimsendum mat til viðskiptavina í dag og einnig er ljóst að röskun verður á heimaþjónustu.
Þá eru eftirfarandi íþróttamannvirki Akureyrarbæjar lokuð í dag: Sundlaug Akureyrar, Íþróttamiðstöð Glerárskóla, Íþróttamiðstöð Giljaskóla, Íþróttahús Síðuskóla, Íþróttahús Lundarskóla, Íþróttahús Naustaskóla, Íþróttahöllin, Boginn og Íþróttamiðstöðin í Hrísey.
Eins og áður hafði verið tilkynnt liggur allt skólahald niðri.
Vonast er til að öll þjónusta verði komin í eðlilegt horf á morgun.
UMMÆLI