NTC

Allt starfsfólk Akureyrarbæjar fær fræðslu um eldvarnir

aaa-slokkvulid
Eldvarnir eru í brennidepli hjá Akureyrarbæ og starfsfólki hans um þessar mundir. Í samræmi við samkomulag Akureyrar og Eldvarnabandalagsins um eflingu eldvarna fær allt starfsfólk bæjarins fræðslu um eldvarnir bæði á vinnustað og heima. Fyrir dyrum stendur jafnframt innleiðing eigin eldvarnaeftirlits hjá öllum stofnunum Akureyrarbæjar. Þar gegna eldvarnafulltrúar lykilhlutverki. Vaskur hópur karla og kvenna hefur þegar tekið að sér hlutverk eldvarnafulltrúa og munu Eldvarnabandalagið og Slökkvilið Akureyrar veita þeim nauðsynlega fræðslu og þjálfun.

Aukið öryggi

Akureyrarbær hefur fullan hug á að standa mun betur að eldvörnum og öryggismálum en gert hefur verið til þessa. Í innleiðingu eigin eldvarnaeftirlits felst einmitt skýr yfirlýsing um að efla eldvarnir með reglulegu eftirliti og viðhaldi. Markmiðið er að auka öryggi starfsfólks, nemenda og viðskiptavina og draga úr líkum á tjóni á rekstri og eignum.

Innleiðing eigin eldvarnaeftirlits hjá fyrirtækjum og stofnunum er eitt af áhersluverkefnum Eldvarnabandalagsins en það er samstarfsvettvangur tíu fyrirtækja, félagasamtaka og stofnana um að auka eldvarnir á heimilum og í fyrirtækjum og stofnunum. Eldvarnabandalagið hefur útbúið fræðsluefni um eldvarnir heimilisins og eigið eldvarnaeftirlit og er stuðst við það í samstarfinu við Akureyrarbæ.

Samstillt átak

Eldvarnir hjá Akureyrarbæ verða ekki óaðfinnanlegar á einni nóttu. Við bindum hins vegar miklar vonir við að með réttu hugarfari og samstilltu átaki stjórnenda og starfsmanna bæjarins, Eldvarnabandalagsins og slökkviliðsins megi efla eldvarnir til muna á næstu mánuðum og misserum. Jafnframt væntum við þess að reynslan af samstarfinu geti nýst öðrum sveitarfélögum og fyrirtækjum við innleiðingu eigin eldvarnaeftirlits og í því skyni að auka vitund starfsmanna og annarra um mikilvægi eldvarna á heimilum og vinnustöðum.

Ólafur Stefánsson, slökkviliðsstjóri á Akureyri Garðar H. Guðjónsson, verkefnastjóri Eldvarnabandalagsins

Sambíó

UMMÆLI