Allt sem þú þarft að vita um Iceland Airwaves á Akureyri

Emmsjé Gauti kemur fram á Græna Hattinum og í jarðböðunum við Mývatn. Mynd: Daníel Starrason

Iceland Airwaves hátíðin fer að hluta til fram á Akureyri í fyrsta skipti í vikunni. Tónleikar verða í Hofi, Græna Hattinum og Pósthúsbarnum. Þetta er í 19. skipti sem hátíðin fer fram.

Flugfélag Íslands og Iceland Airwaves hafi í sameiningu ákveðið að bjóða upp á ferðapakka með beinu flugi frá Keflavík til Akureyrar á hátíðina sem gerir ferðamönnum auðveldara fyrir að komast á hátíðina á Akureyri.

Eitt af markmiðum hátíðarinnar er að fjölga ferðamönnum utan háannatíma á Íslandi. Einnig er stefnt að því að upplifunin verði ógleymanleg fyrir gesti hátíðarinnar. Þess vegna þótti rökrétt að næsta skref væri að bæta Akureyri við hátíðina.

Hátíðin hefst á morgun, miðvikudaginn 1. nóvember, en fyrstu tónleikar á Akureyri eru ekki fyrr en á fimmtudag, 2. október.

Á fimmtudag hefjast tónleikar klukkan 20:00 í Hofi og á Pósthúsbarnum en klukkan 20:30 á Græna Hattinum. Tónlistarkonan Hildur stígur á svið klukkan 20:00 í Hofi. Á eftir henni spila 200.000 Naglbítar klukkan 21:00. Klukkan 22:00 spila Mammút áður en að Ásgeir Trausti lokar kvöldinu klukkan 23:10.

Á Græna Hattinum byrjar Young Nazareth klukkan 20:30. Milkywhale spilar klukkan 22:00 áður en vinsælustu rapparar landsins um þessar mundir JóiPé og Króli  stíga á svið klukkan 23:00. Það er svo Mura Masa sem er síðastur á Græna Hattinum en tónleikar hans hefjast að miðnætti. Mura Masa er stórt nafn í rapp heiminum en hann hefur unnið með heimsfrægum einstaklingum eins og A$AP Rocky og XCX.

Á Pósthúsbarnum hefst dagskráin klukkan 20:00 með DJ Snorra Ástráðs. Okkar eigin KÁ-AKÁ mætir næstur á svið klukkan 22:30 og á eftir honum spilar Flóni klukkan 23:10 áður en Joey Christ stígur á svið tíu mínútur eftir miðnætti.

Á föstudag heldur veislan svo áfram. Í Hofi spilar Ösp klukkan 20:00, JFDR klukkan 21:00 og Vök klukkan 22:00. Eitt stærsta atriði hátíðarinnar hefst svo klukkan 23:00 þegar Emiliana Torrini stígur á svið ásamt hljómsveitinni The Colorist frá Belgíu.

Á Græna Hattinum byrjar DJ Sura klukkan 20:00, Cyber og Daniel OG  stíga næst á svið klukkan 21:10 og 22:10. Glowie heldur svo veislunni áfram klukkan 23:10 áður en Emmsjé Gauti og Aron Can loka kvöldinu.

Á Pósthúsbarnum verður einnig mikið um Hip-Hop. DJ Spegill byrjar kvöldið klukkan 21:00.  Chase stígur á svið klukkan 23:20 og GKR og Birnir spila á eftir honum áður en Alexander Jarl lokar hátíðinni á Akureyri klukkan 01:30.

Einnig verða rútuferðir á tónleika Emmsjé Gauta og Young Nazareth í Jarðböðunum við Mývatn föstudaginn 3. nóvember sem hluta af hátíðinni. Allir armbandshafar á Iceland Airwaves fá frítt á viðburðin og í lónið svo framarlega að pláss sé fyrir hendi. Armbandshafar munu þó þurfa að borga fyrir rútuferðir til Mývatns eða keyra sjálfir. Boðið verður upp á staferðir frá Akureyri kl. 11 og lagt af stað frá Icelandair hótelinu Þingvallastræi 23. Komið verður til baka til Akureyrar um 17:30 . Tónleikarnir munu hefjast klukkan 13:00.

Sambíó

UMMÆLI

Sambíó