Akureyrarbær hefur kynnt tillögu að deiliskipulagi fyrir Holtahverfi norður. Í tillögunni er kynnt nýtt uppbyggingarsvæði í kringum Krossanesbraut, fyrir ofan og norðan við smábátahöfnina í Sandgerðisbót. Þetta kemur fram á vef bæjarins í dag.
Þar segir að markmiðið með nýju deiliskipulagi sé meðal annars að bjóða nýjar íbúðir á einu fallegasta svæði Akureyrar, bæta umferðarskipulag á svæðinu og huga að nýjum gönguleiðum og útivistarsvæðum.
Í stuttu máli:
- Ný íbúðabyggð norðaustan við Krossanesbraut – allt að 280 íbúðir í blandaðri byggð fjölbýlishúsa, raðhúsa, parhúsa og einbýlishúsa.
- Ónotuð svæði innan núverandi byggðar skipulögð.
- Umferðarskipulag bætt með með áherslu á gönguleiðir í skóla- og íþróttastarf.
- Útivistarsvæði og nýir stígar um hverfið.
- Áhersla á vistvænt skipulag, umhverfisvænar samgöngur, lýðheilsu, græn svæði, sjálfbærni, fjölbreyttar þarfir mismunandi hópa og vel skipulögð atvinnusvæði í tengslum við íbúðabyggð.