Krabbameinsfélag Íslands tileinkar marsmánuði körlum með krabbamein í Mottumars, sem er árvekni- og fjáröflunarátak félagsins.
Í ár er lögð áhersla á gildi hreyfingar sem forvarnar gegn krabbameinum hjá körlum en um leið aflar félagið fjár fyrir starfsemi félagsins, meðal annars með sölu Mottumarssokka.
Allir karlar sem starfa hjá Samherja fá afhenta Mottumarssokka.
Starfsemi Krabbameinsfélagsins byggir á sjálfsaflafé, stuðningur almennings og fyrirtækja er því grundvöllur þess að félagið geti haldið úti öflugri starfsemi.
Karlmenn og krabbamein
Þriðji hver karlmaður greinist með krabbamein einhvern tímann á lífsleiðinni. Samkvæmt tölfræðilegri samantekt frá árunum 2017 til 2022 greindust 937 karlar árlega með krabbamein og á sama tímabili létust 325 karlar árlega úr krabbameinum. Þótt miklar framfarir hafi átt sér stað í meðferð krabbameina á undanförnum árum og fimm ára lífshorfur hafi aukist verulega er staðreyndin sú að fjórðungur dánarmeina er af völdum krabbameina.
Hreyfing skiptir máli
Í fræðsluefni Krabbameinsfélagsins er undirstrikað að reglubundin hreyfing hafi ótvírætt gildi fyrir almenna heilsu og vellíðan. Rannsóknir hafi með afgerandi hætti sýnt fram á að hreyfing dragi úr líkum á ákveðnum krabbameinum og margvíslegum öðrum sjúkdómum.
Krabbamein snertir allar fjölskyldur fyrr eða síðar
Anna María Kristinsdóttir mannauðsstjóri Samherja segir að félagið hafi í gegnum tíðina stutt Mottumars.
„ Við erum afar þakklát Krabbameinsfélaginu fyrir þetta átak. Krabbamein er sjúkdómur sem snertir allar fjölskyldur fyrr eða síðar með einhverjum hætti. Þess vegna er mikilvægt að gera allt sem hægt er til að stemma stigu við sjúkdómnum, meðal annars með Mottumars. Þetta metnaðarfulla árvekni- og fjáröflunarátak Krabbameinsfélagsins er kærkomið tækifæri til að taka höndum saman í vitundarvakningu um krabbamein,“ segir Anna María Kristinsdóttir.
UMMÆLI