Ivan Mendez er 25 ára Akureyringur. Hann er fæddur og uppalinn á Eyrinni þar sem hann gekk í Oddeyrarskóla. Hann er menntaður hársnyrtir en vinnur í augnablikinu í búsetukjarna fyrir fatlaða í Borgargili 1 á Akureyri. Ivan spilaði sem Gringlombian á Iceland Airwaves tónlistarhátíðinni sem fór fram í Reykjavík í upphafi mánaðarins. Hann spjallaði við okkur á Kaffinu um tónlist sína, hátíðina og hvernig það sé að vera tónlistarmaður á Akureyri í dag.
Gringlombian er listamannsnafn Ivans sem er samþyrping af „Gringo de Colombia“ eða „hvíti maðurinn frá Kólumbíu“. „Ég bjó til Gringlombian orðið sjálfur, það varð til við mjög djúpa íhugun hjá mér um áhrif þess að vera komin frá tveimur menningarheimum,“ segir Ivan en faðir hans er frá Kólumbíu. „Það hefur vafist fyrir fólki að bera fram nafnið og muna það og ég verð að viðurkenna að ég hef lúmskt gaman af því. Enda skiptir tónlistin og boðskapur hennar mig meira máli en nafnið á hljómsveitinni.“
Ivan fór af stað með Gringlombian sem einstaklingsverkefni snemma árið 2015 þegar hann skráði sig í Músíktilraunir. Hann segir að árið áður hafi verið afskaplega stormasamt fyrir hann og hann hafi ákveðið að fara í ferðalag um Suður Ameríku eftir að hafa unnið sér inn nægan pening við að landa fisk í Vestmannaeyjum. „Ferðalagið var tilraun til að svala ævintýraþörfinni og sálfræðimeðferð fyrir sjálfan mig í leiðinni. Eftir ferðalagið var mikið af upplifunum, tilfinningum og hugsunum sem mér fannst ég verða að melta og ég fann að það hjálpaði mér að skrifa texta og syngja um þetta allt saman.“ Upp úr þessu ævintýri samdi Ivan tvö lög og ákvað að skrá sig í Músíktilraunir. „Ég fór bara einn með kassagítarinn minn, þrátt fyrir mjög litla reynslu af því að syngja fyrir aðra. Ég vann ekki keppnina en það gekk mjög vel og reynslan opnaði nýjar dyr fyrir mig.“ Í kjölfarið splaði Ivan reglulega út árið 2015.
Ivan fór svo aftur á flakk í lok ársins 2015 og tók sér þá pásu frá spilamennskuni. Í þetta skiptið fór hann til Indlands og suð-austur Asíu. Hann lagði stund á yoga, hugleiðslu og samdi meira efni. „Ég kom heim aftur í maí 2016 fullur af nýjum hugmyndum og tilbúinn að fara að spila aftur.“ Ivan fékk Guðbjörn Hólm með sér í lið sem bassaleikara og bakraddasöngvara fljótlega eftir að hann kom heim. Hörður Tulinius fylgdi svo eftir á trommur og fullkomnaði þríeykið. „Mér var orðið ljóst að ég þyrfti að bæta við mannskap í hljómsveitina ef lengra skildi haldið.“
Ivan segist hafa átt í haltu mér-slepptu mér sambandi við gítarinn í um 20 ár. Hann byrjaði í gítarkennslu um 6 ára aldur. „Þar lærði ég fyrstu gripin og barnalög eins og Litlu andarungarnir. Ég man þó eftir að hafa ekki nennt að æfa mig á þessum aldri og leit meira á þetta eins og verkefni svipað og að laga til í herberginu. Mig langaði frekar út að leika mér.“ Ivan segist hafa dustað rykið aftur af gítarnum stuttu fyrir fermingu, þá með axlasítt hár og stóra drauma um að verða rokkstjarna. Eftir að hafa lært að spila Enter Sandman og Sweet Child Of Mine á rafmagnsgítarinn sem hann fékk í fermingargjöf hafi hann byrjað að reyna að búa til sín eigin lög. „Því miður fengu þessi lög aldrei að lýta dagsins ljós en ég skemmti mér hinsvegar konunglega að spila þau inní herberginu mínu fyrir framan sal af ýminduðum áhorfendur næstu árin. Eftir að rokkstjörnu draumarnir fjöruðu burt fékk hárið að fjúka, gítarinn varð að veggskrauti og aðrir hlutir virtust verða mikilvægari, eins og t.d að keyra rúnthringinn og þykjast vera fullorðinn töffari. Ég áttaði mig svo loksins á því eftir mikla íhugun og naflaskoðun að það er ekkert mikilvægara en að hlusta á hjartað, og mitt hjarta vildi ólmt syngja,semja, dansa og spila. Ég hef svo verið að semja stanslaust síðan ég og gítarinn tókum saman aftur fyrir nokkrum árum.“
Ivan vill ekki festa sig við ákveðna tónlistastefnu og reynir að hugsa sem minnst um það hvernig tónlist það er sem kemur frá honum. „Ég vil reyna að halda öllum möguleikum opnum þegar það kemur að því að semja nýtt efni. Ég vil helst ekki að það sem ég er búinn að gefa út sé mælistika á nýtt efni. Ef ég þyrfti að setja merkimiða á það myndi ég flokka þetta sem einhverskonar acoustic rokk með ambient köflum.“ Ivan er með aðeins skýrari stefnu í textasmíð sinni þar sem hann semur texta um allskonar pælingar sem hann hefur, hvort sem þær eru um eigin tilfinningar, mannleg samskipti eða lífsreynslur og ævintýri. „Það fer eftir því hvernig stuði ég er í hverju sinni. Oftast sest ég niður og byrja að spila á gítarinn og það sem ég er að spila vekur upp tilfinningar eða minningar, síðan byrja ég oft að raula laglínu og orðin detta inn hægt og rólega. Stundum myndast textinn fyrst og ég sem lag við hann. Svo stundum hef ég séð fyrir mér lag í huganum og hlaupið heim og reynt að koma því niður á blað. Sum lög koma um leið en önnur hafa tekið mánuði og ár. Stundum er eins og maður semji lag en oft er eins og tónlistinn komi til manns ef maður stillir sig inn á rétta bylgjulengd, eins og útvarp.“
Ivan segir hóp tónlistamanna sem hafi haft áhrif á hann í gegnum tíðina mjög stórann og fjölbreyttan. „Snemma á táningsárunum heillaðist ég af allskonar 80‘s rokki og syntha poppi. Í kringum fermingaraldur þráði ég fátt heitara en að vera með eyeliner, í leðurbuxum og með túperað hár til að passa við rokkarann sem bjó innra með mér. Seinna meir fór ég að hlusta meira á raftónlist í bland við töluvert þyngra rokk og metal tónlist. Síðan þá hef ég flakkað töluvert á milli allskonar tónlistastefna. Ég held að það sem heilli mig samt mest í seinni tíð sé það þegar manni líður eins og flytjandinn sé einlægur og að það sé verið að segja frá einhverju sem skiptir máli, einhverju frá hjartanu,“ segir Ivan. Hann segir að þó að hann hlusti mikið á acoustic tónlist í augnablikinu sé einlægni óháð tónlistastefnum. „Ég hef takmarkaðan áhuga á að hlusta á einhver ljúga að mér að hann eigi fullt af peningum og sé aðal maðurinn í dag . Ég styð samt alltaf ákvörðun fólks að skapa eitthvað nýtt. En það er mikill kraftur sem fylgir sköpunargáfum og ég hvet alla til að spurja sjálfa sig hvað þeir vilja ávinna með því sem þeir skapa og hvað þeir vilja senda út í kosmósinn, því allt hefur áhrif.“
Ivan lauk nýverið við að spila í líklega hans stærsta verkefni hingað til þegar hann fór á Airwaves tónlistarhátíðina. Hann segir að mikil orka hafi farið í hátíðina. „Ég get ekki sagt annað en að ég sé himinlifandi með þessa fyrstu Airwaves hátíð okkar. Við spiluðum 6 gigg á 4 dögum og fengum rosalega góðar viðtökur. Ég og Guðbjörn spiluðum bara tveir að þessu sinni svo að það var meiri svona intimate og kósý stemming hjá okkur í þetta skiptið en það virkaði bara mjög vel á þessum stöðum sem við spiluðum á. Svo var virkilega gaman að fá að spila á stöðum sem maður fær ekki að spila á venjulega eins og t.d söfnum og minjagripabúðum.“
Hann segist vera ánægður með tækifærið að fá að spila á Airwaves fyrir framan fullt af nýju fólki. „Það var góður hópur af fólki sem var að sjá okkur í fyrsta skipti en kom síðan aftur og aftur svo að það var farin að myndast mjög góð stemming á giggunum okkar. Við fengum allavega alltaf nóg af faðmlögum frá fólki sem vildi þakka fyrir sig eftir gigg, seldum slatta af bolum og allir 70 demo diskarnir sem ég bjó til kláruðust.“ Eftir Airwaves segir Ivan að planið sé að beina athyglinni inn á við og semja nýtt efni. „Það er alltaf eitthvað efni í mótun en maður hefur ekki haft mikinn tíma til að setjast niður og bara spila og semja.“
Sjá einnig: Norðlenskt tónlistarfólk á Airwaves
Ivan stefnir á að fara fljótlega í stúdíó og taka upp efnið sem er nú þegar til. „Allt sem ég hef gefið frá mér hingað til hafa bara verið demo sem ég hef tekið upp, mixað og masterað inní herberginu mínu. Herbergisstúdíóið hefur þjónað mér vel og kennt mér margt en ef við ætlum eitthvað lengra með þetta alltsaman þá held ég að ferð í alvöru stúdíó sé næsta skref.“ En hver eru framtíðaráform Ivans í tónlistarbransanum? „Ég er ekki með neinar skýrar hugmyndir um hvert ég stefni með þetta allt saman en á meðan ég hef gaman af því að semja og spila mun ég halda áfram. Ég stefni ekki á frægð og frama en það væri gaman að geta ferðast og spilað tónlist með vinum mínum í hljómsveitinni, hvort sem það væri hérna heima eða úti. Það veitir mér ólýsanlega ánægju að spila lögin okkar fyrir aðra og koma fram á sviði. Maður gefur mikið af sér en maður fær líka mikið til baka, mér finnst ég aldrei jafn lifandi og akkurat þegar ég stend á sviðinu með gítarinn hangandi framan á mér.“
Margir upprennandi tónlistamenn hafa verið að stíga fram á Akureyri undanfarið og gefa frá sér efni. Ivan segir að það geti verið afskaplega þægilegt að vera tónlistarmaður á Akureyri en segir þó tækifærin til að spila af skornum skammti. „Maður spyr sig hvað maður getur gert þegar maður er búinn að spila á öllum tveimur stöðunum sem eru í boði hérna. Þá þarf maður að fara í langar bílferðir suður með bílinn fullan af hljóðfærum til að spila eitt gigg um helgar, það getur orðið pínu þreytt. Ég elska Akureyri og það er yndislegt að búa hérna en það er ekki mikið af tækifærum til þess að spila. Það er hinsvegar engin skortur á hæfileikaríkum einstaklingum hérna fyrir norðan og ég held að það gætu gerst virkilega góðir hlutir hér í nákominni framtíð.“
UMMÆLI