Í gær voru íþróttakarl og íþróttakona Akureyrar valin við hátíðlega athöfn í Menningarhúsinu Hofi. Þetta er í 41. skipti sem íþróttafólk Akureyrar er heiðrað.
Íþróttakona Akureyrar 2019 er Aldís Kara Bergsdóttir listhlaupakona úr Skautafélagi Akureyrar og Viktor Samúelsson úr Kraftlyftingafélagi Akureyrar er íþróttakarl Akureyrar 2019.
Náði lágmörkum inn á heimsmeistaramót unglinga
Á árinu 2019 varð Aldís Kara Íslandsmeistari listhlaupi í Junior flokki auk þess að tvíbæta Íslandsmetið í Junior flokki og náði lágmörkum inn á heimsmeistaramót unglinga. Aldís Kara var kjörin íþróttakona Skautafélags Akureyrar árið 2019 og Skautakona ársins 2019 af Skautasambandi Íslands. Í öðru sæti í kjörinu um íþróttakonu ársins 2019 varð Sóley Margrét Jónsdóttir úr Kraftlyftingafélagi Akureyrar. Hulda Elma Eysteinsdóttir blakkona úr Knattspyrnufélagi Akureyrar varð í þriðja sæti. Frjálsíþróttakonan Hafdís Sigurðardóttir úr Ungmennafélagi Akureyrar varð í fjórða sæti og í fimmta sæti varð Hulda B. Waage úr Kraftlyftingarfélagi Akureyrar.
Stigahæsti kraflyftingamaður Íslands frá upphafi
Íþróttakarl Akureyrar 2019, Viktor Samúelsson úr Kraftlyftingarfélagi Akureyrar, hlaut nú nafnbótina í fjórða skipti síðan 2015. Viktor varð Íslandsmeistari karla í kraftlyftingum 2019 auk þess að verða í 4. sæti í -120 kg. flokki á Evrópumótinu í kraftlyftingum á sl. ári. Viktor er jafnframt stigahæsti kraftlyftingamaður Íslands frá upphafi. Í öðru sæti í kjörinu um íþróttakarl ársins 2019 varð Miguel Mateo Castrillo blakmaður úr Knattspyrnufélagi Akureyrar. Utanvegarhlauparinn Þorbergur Ingi Jónson úr Ungmennafélagi Akureyrar varð í þriðja sæti. Í fjóðra sæti varð íshokkímaðurinn Hafþór Andri Sigrúnarson úr Skautafélagi Akureyrar og í 5. sæti varð Alexander Heiðarsson júdómaður úr Knattspyrnufélagi Akureyrar.
Komið að uppbyggingu skíðagönguíþróttarinnar í 35 ár
Jóhannes Kárason hlaut heiðursviðurkenningu Frístundaráðs. Jóhannes, sem er gullmerkishafi Skíðasambands Íslands, hefur komið að uppbyggingu og útbreiðslu skíðagönguíþróttarinnar á Akureyri og víðar með ýmsum, miklum og óeigingjönum hætti síðustu 35 ár.
Frístundaráð veitti viðurkenningar vegna 311 Íslandsmeistara til 13 aðildarfélaga Íþróttabandalags Akureyrar á síðasta ári. Afrekssjóður veitti átta afreksefnum úr röðum aðildarfélaga styrk að alls upphæð 1.600.000 kr. í gær en alls veitti Afrekssjóður Akureyrarbæjar styrki að upphæð 7.000.000 kr. árið 2019 til íþróttamanna innan aðildarfélaga ÍBA.
Fréttin var unnin af heimasíðu Akureyrarbæjar.
UMMÆLI