Aldís Kara og Viktor kjörin íþróttafólk Akureyrar 2020Aldís Kara Bergsdóttir og Viktor Samúelsson við athöfnina í dag. Mynd: Þórir Tryggvason / Akureyri.is.

Aldís Kara og Viktor kjörin íþróttafólk Akureyrar 2020

Kjör íþróttakarls og íþróttakonu Akureyrar fór fram í Menningarhúsinu Hofi í dag. Skautakonan Aldís Kara Bergsdóttir, hjá Skautafélagi Akureyrar (SA), var kjörin íþróttakona Akureyrar 2020. Kraftlyftingamaðurinn Viktor Samúelsson, hjá Kraftlyftingafélagi Akureyrar (KFA), var kjörinn íþróttakarl Akureyrar.

Þetta er annað árið í röð sem þau bæði hljóta titilinn íþróttakona- og karl Akureyrar. Viktor hefur verið kjörinn íþróttakarl Akureyrar fjórum sinnum áður og einu sinni kjörinn íþróttamaður Akureyrar, áður en titlunum var breytt og kosið er bæði karl og konu í íþróttamannakjörinu.

Í öðru sæti í kjörinu voru þau Miguel Mateo Castrillo, blakari úr KA og Hafdís Sigurðardóttir, frjálsíþróttakona úr UFA. Í þriðja sæti voru þau Þorbergur Ingi Jónsson, utanvegahlaupari úr UFA og Gígja Guðnadóttir, blakari úr KA.

Kjöri íþróttamanns Akureyrar 2020 var lýst á verðlaunahófi á vegum Íþróttabandalags Akureyrar og frístundaráðs Akureyrarbæjar sem fram fór í Menningarhúsinu Hofi seinnipartinn í dag. 14 aðildarfélög ÍBA tilnefndu alls 35 íþróttamenn úr sínum röðum, 14 íþróttakonur og 21 íþróttakarl. Úr þeim tilnefningum var síðan kosið á milli 10 karla og 10 kvenna sem stjórn Afrekssjóðs hafði stillt upp.

Á athöfninni veitti frístundaráð Akureyrarbæjar viðurkenningar til 8 aðildarfélaga ÍBA vegna 140 Íslandsmeistara á síðasta ári og Afrekssjóður veitti 10 afreksefnum styrki. Samtals hlutu 20 einstaklingar afreksstyrki sem námu samtals rúmum 5 milljónum króna.

Náði besta árangri íslendinga í Listhlaupi á árinu

Aldís Kara Bergsdóttir hefur verið að gera ótrúlega hluti í listhlaupi bæði hérlendis og erlendis undanfarin ár. Síðustu tvö ár hefur hún verið kosin skautakona ársins af Skautasambandi Íslands auk þess að vera kjörin íþróttakona Akureyrar þessi tvö ár.
– Aldís varð fyrst íslendinga á árinu til þess að vinna sér inn keppn­is­rétt og keppa á heims­meist­ara­móti unglinga í ein­stak­lings­skaut­um. Heimsmeistaramótið fór fram í Tallin í Eistlandi þar sem hún endaði í 35. sæti af 48 keppendum.

– Á Reykjavík International Games (RIG2020) keppti hún og fékk 113.54 stig. Með því náði hún lágmörkum á heimsmeistaramót unglinga í stuttu prógrami, þá í annað sinn á keppnistímabilinu.

– Á Norðurlandamótinu í Stavanger í Noregi fékk Aldís Kara 115.39 stig, en það eru hæstu stig sem íslenskur skautari hafði nokkru sinni fengið á Norðurlandamóti. Á mót­inu náði Al­dís Kara lág­marks stig­um fyr­ir heims­meist­ara­mót ung­linga í frjálsu pró­grammi og varð þar af leiðandi fyrsti skaut­ari Íslands sem nær þeim ár­angri.

Sló eina íslandsmetið sem hann átti ekki sjálfur

Viktor Samúelsson á langan afreksferil að baki og hefur verið kjörinn íþróttakarl ársins næst oftast allra, eða alls 5 sinnum. Viktor stóð sig frábærlega í kraftlyftingum á árinu og stigahæsti klassíski kraftlyftingamaður ársins 2020 hjá Kraftlyftingasambandi Íslands.

– Árið 2020 varð Viktor í fyrsta sæti á Reykjavík International Games (RIG) í klassískum kraftlyftingum.

– Á Íslandsmótinu í réttstöðulyftu sló Viktor eina Íslandsmetið sem hann átti ekki sjálfur, í -120 kg flokki, þegar hann lyfti 338kg. Í stigakeppni mótsins lenti Viktor lenti í öðru sæti eftir harða baráttu við ríkjandi heimsmeistara í réttstöðulyftu, Júlían J.K. Jóhannsson.

– Viktor keppti í -105 kg flokki á Íslandsmeistaramótinu í klassískum kraftlyftingum þar sem hann tvíbætti Íslandsmetin í bekkpressu og réttstöðulyftu og þríbætti Íslandsmetin í samanlögðu.

Vel unnin störf í þágu íþrótta á Akureyri

Á athöfninni voru kynntar heiðursviðurkenningar sem frístundaráð Akureyrar veitti þremur einstaklingum fyrr í dag fyrir vel unnin störf í þágu íþrótta á Akureyri. Hreiðar Jónsson fékk viðurkenningu fyrir áratuga starf í þágu íþrótta, m.a. frjálsíþrótta og handbolta á Akureyri. Ívar Sigmundsson fékk viðurkenningu fyrir áratuga starf í þágu skíðaíþrótta á Akureyri og Íslandi. Ingibjörg Anna Sigurðardóttir fékk viðurkenningu fyrir mikið og óeigingjarnt starf að heilsueflingu almennings í vatnsleikfimi.

Heiðursviðurkenningar frístundaráðs voru veittar fyrr í dag. Frá vinstri: Eva Hrund Einarsdóttir formaður frístundaráðs, Hreiðar Jónsson, Ingibjörg Anna Sigurðardóttir, Ívar Sigmundsson og Ásthildur Sturludóttir bæjarstjóri Akureyrar. Mynd: Skapti Hallgrímsson.

Sambíó

UMMÆLI

Sambíó