Akureyringurinn Aldís Kara Bergsdóttir hefur verið valin skautakona ársins árið 2020 af Skautasambandi Íslands. Þetta er annað árið í röð sem að Aldís Kara er valin skautakona ársins.
Aldís Kara æfir með Skautafélagi Akureyrar undir leiðsögn Darja Zajcenko.
Í fréttatilkynningu ÍSS segir:
Stjórn ÍSS telur Aldísi Köru verðugan fulltrúa Skautasambandsins þar sem hún hefur sýnt mikinn dugnað og metnað við iðkun sinnar íþróttar. Hún hefur skarað fram úr meðal jafningja og ber þar helst að nefna þátttöku hennar á heimsmeistaramóti unglinga í Tallin í mars. Var hún þá fyrst Íslendinga til þess að vinna sér inn keppnisrétt og keppa á heimsmeistaramóti í einstaklingsskautum.
Skautarar geta eingöngu unnið sér inn stig sem gilda til þátttöku á ISU meistaramóti á mótum sem skráð eru á keppnislista ISU og viðurkennd af þeim. Það eru svokölluð alþjóðleg mót af ISU lista og eru strangar kröfur sem gilda um samsetningu dómara og lágmarksfjölda skráðra keppenda á mótinu. Íslenskir keppendur þurfa því að fara erlendis til að reyna við lágmarksstigin en eina mótið á Íslandi sem gildir til stiga (sé lágmarks fjölda keppenda náð) er Reykjavík International Games.
Ná þarf lágmarks tæknistigum í bæði stutta og frjálsa prógraminu en ekki þarf að gera það á sama mótinu. Lágmarks tæknistig í Junior Ladies eru 23.00 stig í stuttu prógrami og 38.00 stig í frjálsu prógrami.
Árið 2020 byrjaði hjá Aldísi Köru með keppni á RIG 2020 sem fram fór í Laugardalnum. Þar fékk hún 113.54 stig og náði einnig lágmörkum á heimsmeistaramót unglinga í stuttu prógrami, þá í annað sinn á keppnistímabilinu.
Næsta mót hjá henni var Norðurlandamótið sem fram fór í Stavanger í Noregi. Þar fékk Aldís Kara 115.39 stig en það eru hæstu stig sem íslenskur skautari hefur fengið á Norðurlandamóti. Á mótinu náði Aldís Kara lágmarks stigum fyrir heimsmeistaramót unglinga í frjálsu prógrammi og varð þar af leiðandi fyrsti skautari Íslands sem nær þeim árangri.
Í byrjun mars 2020 keppti hún svo á heimsmeistaramóti Unglinga í Tallin í Eistlandi. Þar stóð hún sig með prýði og endaði í 35. sæti af 48 keppendum. Þetta var frábær byrjun hjá Aldísi Köru á heimsmeistaramóti og gríðarlega stórt skref í íslenskri skautasögu.
Nýtt keppnistímabil hófst svo með því að Aldís Kara keppti á Haustmóti ÍSS og þar fékk hún 117.85 stig.
UMMÆLI