Framsókn

Aldís Ásta til SvíþjóðarAldís Ásta (til hægri) ásamt Rakeli Söru Elvarsdóttur

Aldís Ásta til Svíþjóðar

Handboltakonan Aldís Ásta Heimisdóttir hefur skrifað undir tveggja ára samning við lið Skara HF í Svíþjóð. Aldís sem er 23 ára mun ganga til liðs við Skara eftir sumarfríið og spila með þeim næsta vetur.

„Ég vonast til þess að þróa leik minn í nýju umhverfi í Svíþjóð. Eftir að hafa spilað í sama liði allan minn feril finnst mér eins og núna sé réttur tími til þess að breyta til. Ég held að ég geti þroskast mikið í Skara og hlakka til að fara og spila í svona góðri deild. Ég hef horft á myndbönd af Skara HF að spila og ég veit að ég er að fara í gott lið með fullt af góðum leikmönnum,“ segir Aldís Ásta um félagsskiptin.

Aldís hefur spilað með KA/Þór og hefur unnið alla titla sem eru í boði á Íslandi. Hún steig snemma sín fyrstu skref í meistaraflokki en það var tímabilið 2014-2015 og er hún því þrátt fyrir ungan aldur komin með þó nokkra reynslu. Aldís er uppalin í KA/Þór og hefur verið algjör lykilmaður í liðinu undanfarin ár.

Skara er bær í Götlandi í Svíþjóð þar sem búa um 19 þúsund manns, svipað og á Akureyri. Aldís er spennt fyrir því að upplifa sænska veðrið og læra tungumálið og er sannfærð um að skrefið til Skara sé það rétta fyrir hennar feril á þessum tímapunkti.

„Ég býst við því að verða sterkari leikmaður og læra nýja hluti. Ég held ég hafi núna lært allt sem ég get á Íslandi og það er kominn tími á næsta skref. Ég vill verða betri og gera aðra leikmenn í kringum mig betri. Sænskur handbolti er hraðari en sá á Íslandi og ég er hrifin af því. Ég er einnig spennt að hitta nýju liðsfélaga mína og spila gegn góðum liðum og leikmönnum.“

Aldís lék sína fyrstu A-landsleiki síðasta vetur og skoraði sín fyrstu landsliðsmörk gegn Sviss. Hún hefur einnig leikið ófáa leiki fyrir unglingalandslið Íslands og lék meðal annars á HM í Ungverjalandi með U20 ára landsliðinu sumarið 2018. Árið 2016 hlaut Aldís Böggubikarinn en hann er veittur ungum iðkanda hjá KA sem skarar framúr bæði innan sem utan vallar.

VG

UMMÆLI