NTC

Ákvörðun Air Iceland Connect að fella niður Hoppfargjöld gagnrýnd harðlega

Akureyrarflugvöllur. Mynd: Hörður Geirsson.

Talsvert hávær umræða hefur verið síðustu vikur, þá sérstaklega meðal fólks á landsbyggðinni, vegna ákvörðun Air Iceland Connect að fella niður svo kallað „hopp“ en fargjaldið hefur lengi vel verið þekktur ódýr valkostur fyrir ungt fólk í innanlandsflugi þar til það var fellt niður þann 1. júní sl. Hoppgjaldið var ódýrara en almenn fargjöld fyrir 12-25 ára, eða í kringum 10.000 krónur með innrituðum farangri inniföldum. Hægt var að bóka „hoppið“ með stuttum fyrirvara en þeir sem bókuðu slíkt fargjald mættu alltaf afgangi, þannig að ef fullt var í vélina komust þeir ekki með. Þetta hefur reynst námsmönnum af landsbyggðinni vel í gegnum árin sem nýta sér þetta óspart til að heimsækja fjölskyldur og ættingja utan höfuðborgarsvæðisins t.d.

Hoppið ekki lengur hagkvæmast
Viðskiptavinum er bent á svokölluð ,,Létt fargjöld“ í staðinn og ,,Flugfélaga“. Flugfélagar felst í því að keyptir eru sex flugleggir í einu á 59.400 krónur. Hingað til hefur það aðeins verið í boði fyrir 12-20 ára en nú hefur þessum efri aldurstakmörkum verið breytt í 25 ára. Þar er verðið sambærilegt og á hoppfargjaldi, þar eru sveigjanleg fargjöld og farþegar ekki bundnir óvissu hvort þeir komist í flug. Eina er að þú þarft að kaupa sex flugleggi í einu.

„Þetta var mín trygging að komast heim til Akureyrar með stuttum fyrirvara“
Ungt fólk af landsbyggðinni hefur gagnrýnt þessa ákvörðun í fjölmiðlum og segja þessi úrræði ekki leysa hoppið af. Bára A. Alexandersdóttir, Akureyringur í námi í Reykjavík, skrifaði pistil þar sem hún lýsti óánægju sinni með ákvörðun flugfélagsins.
„Ég er miður mín að hoppið sé hætt enda var það mín trygging að komast heim til Akureyrar með stuttum fyrirvara. Af hverju skiptir það máli fyrir námsmann? Mörg okkar skiljum fjölskylduna eftir heima meðan við stundum nám í Reykjavík. Það er mikil fórn. Við viljum ekki þurfa að bóka flug með viku fyrirvara með „skólakorti“ sem er samt það dýrt að mörg okkar hafa ekki efni á því, með LÍN og öllu sem kostar að lifa skólaárin af,“ segir Alexandra í pistli sínum.

Úrræðin góð en leysa hoppið ekki af
Námsmenn af landsbyggðinni segja það einstaklega óhentugt að í Flugfélagapakkanum þarf að bóka flug með viku fyrirvara og léttu fargjöldin séu ekki hagkvæm nema með góðum fyrirvara. Í léttu fargjöldunum þarf einnig að borga sérstaklega fyrir tösku en í hoppinu var allur farangur innifalinn. Nokkrir fullyrða að þeir hefðu ekki nýtt sér flugið eins oft og raun ber vitni ef hoppfargjald hefði ekki verið í boði.

Almennt ekki þekkt í flugheiminum að bjóða upp á svona fargjöld
Árni Gunnarsson, framkvæmdarstjóri Air Iceland Connect, segir í samtali við Norðurland að viðbrögðin við ákvörðuninni hafi ekki endilega komið þeim á óvart. „Allar breytingar geta verið umdeildar en það er þó töluverður skilningur fyrir því að þetta hafi verið tekið af, enda almennt ekki þekkt í flugheiminum að bjóða upp á svona fargjöld. Það var ekki stór hópur farþega að nýta sér þennan valkost þannig að við höfum ekki séð mikil áhrif en auðvitað höfum við tekið eftir umræðunni,“ segir Árni aðspurður hvort að breytingin hafi haft einhver eftirtektarverð áhrif síðan 1. júní.

Margir valmöguleikar í boði að sögn framkvæmdarstjóra
Rök hafa verið færð fyrir því í umræðunni að námsmenn, sem gjarnan nýttu sér hoppið, hafi ekki efni á því að kaupa flugmiða fyrir 60 þúsund krónur í einni greiðslu. Árni segir marga valmöguleika vera í boði, t.d. með að dreifa greiðslum í gegnum Netgíró eða kredikort. „Einnig er hægt að skrá allt að 3 einstaklinga fyrir hverjum flugfélagspakka, þannig geta þrír einstaklingar keypt sér saman einn pakka. Til viðbótar er rétt að benda á mikinn sveigjanleika flugfélagapakkans en þeir sem bóka þannig geta bæði breytt bókun og afbókað án kostnaðar. Það er ákaflega sjaldgæft að farþegar sem nú bóka flugmiða á afsláttarkjörum njóti slíkra skilmála.“

Ákvörðunin ekki endurskoðuð
En af hverju var þessi ákvörðun tekin? „Við töldum það ekki vera góða þjónustu að láta farþega mæta upp á von og óvon á flugvöllinn með það hvort þeir kæmust með eða ekki,“ segir Árni og telur það ekki líklegt að ákvörðunin verði endurskoðuð. „Við viljum frekar styrkja aðra valkosti þannig að farþegar njóti góðra kjara á staðfestu fargjaldi.“

Greinin birtist upphaflega í fréttablaðinu Norðurlandi 14. júní. 

Sambíó

UMMÆLI