Meistaramót Íslands í frjálsum íþróttum fór fram í Laugardalshöll 24.- 25.febr. undir stjórn ÍR-inga. 11 keppendur frá Akureyri tóku þátt í mótinu, 8 keppendur frá KFA-frjálsar og 3 frá UFA. Akureyringar unnu til fernra verðlauna í mótinu. Tveir Íslandsmeistaratitlar litu dagsins ljós og tvenn silfurverðlaun unnust að auki í keppninni.
Fyrst bera að nefna gleðilega endurkomu Hafdísar Sigurðardóttur langstökkvara úr UFA til keppni á ný eftir fjarveru vegna barneigna. Hún gerði sér lítið fyrir og sigraði langstökkið með 6,04m stökki og náði með því meistaratitli fyrir UFA. Glæsileg endurkoma hjá Hafdísi.
KFA komu sterkir inn í aðalhluta Meistaramótsins. Bjarki Gíslason sigraði í stangarstökkskeppninni með 4,95m stökki og Andri Fannar Gíslason tugþrautarmaður úr KFA fylgdi fast eftir og vann silfur með góðri bætingu og 4,52m stökki
Þá keppti Rakel Ósk Björnsdóttir KFA á ný eftir langa fjarveru vegna meiðsla og náði sifurverðlaunum óvænt með 3,12m stökki. Glæsilegur árangur norðanmanna í frjálsum í meistaraflokki. Tvö gull og tvenn silfurverðlaun að auki til Akureyrar.
Síðasta mót keppnistímabilsins innanhúss er Bikarkeppni FRÍ sem fer fram 10.mars í Kaplakrika. Þar teflir KFA-frjálsar fram liði í hvoru tveggja, karla og kvennakeppni móts.
Á sama tíma tóku fimm keppendur úr íþróttafélaginu Eik þátt í Íslandsmóti Íþróttasambands fatlaðra í frjálsum íþróttum. Þetta voru þau Fannar Logi Jóhannesson, Stefanía Daney Guðmundsdóttir, Helena Ósk Hilmarsdóttir, Héðinn Jónsson og María Dröfn Einarsdóttir.
Öll stóðu þau sig vel og uppskáru eftir því. Stefanía setti tvö ný Íslandsmet í langstökki og 400 m hlaupi. Helena setti þrjú ný Íslandsmet í flokki 38 í langstökki, 400 m hlaupi og 60 m hlaupi.
Eikin fékk 7 gull og 12 silfurverðlaun á mótinu og hlaut að launum Íslandsmeistaratitil.
UMMÆLI