Heilbrigðisstarfsfólk frá Akureyri mun manna vaktir á Heilbrigðisstofnun Norðurlands á Húsavík eftir að 19 starfsmenn þar voru sendir í sóttkví í gær. Þetta kemur fram á vef Mbl.
Alls eru 22 einstaklingar í sóttkví eftir að ungur ferðamaður sem reyndist sýktur af COVID-19 lést á Húsavík í gær. Auk starfsfólk á Heilbrigðisstofnuninni eru meðal annars lögreglu- og sjúkraflutningamenn í sóttkví.
Sjá einnig: Rannsaka andlát ferðamanns á Húsavík sem reyndist smitaður af kórónaveirunni
„Við getum áfram sinnt bráðaþjónustu því við erum áfram með lækna að störfum. Við færum líka til starfsfólk sem hefur verið í öðrum störfum. Á meðan þessir einstaklingar sem eru í sóttkví eru einkennalausir geta þeir áfram sinnt starfi sínu í gegnum síma og tölvu,“ segir Jón Helgi Björnsson, forstjóri stofnunarinnar í samtali við mbl.is.
Enginn af þeim sem eru í sóttkví hefur sýnt einkenni kórónuveirunnar enda skammur tími liðinn frá því fólkið komst í návígi við manninn. Leigt var lítið hótel á Húsavík fyrir þá starfsmenn sem ekki geta verið heima hjá sér í sóttkví enda fjölskylduaðstæður misjafnar, að sögn Jóns.