Fótbolti
Aron Einar Gunnarsson var á sínum stað í byrjunarliði Cardiff sem vann öruggan 3-1 sigur á Ipswich í ensku B-deildinni. Aron Einar lék allan leikinn.
Birkir Bjarnason var ekki með Aston Villa sem vann 2-0 sigur á Wigan Athletic. Birkir er meiddur og leikur líklega ekki meira á þessari leiktíð en hann eyddi helginni á heimaslóðum á Akureyri.
Hallgrímur Jónasson hóf leik á bekknum en kom inná á 4.mínútu þegar lið hans Lyngby, tapaði fyrir stórveldinu Bröndby í lokaumferð dönsku úrvalsdeildarinnar.
Lokatölur 3-2 en úrslit annara leikja voru Hadda og félögum hagstæð. Lyngby endar mótið í 3.sæti.
Íslenska karlalandsliðið kemur nú saman fyrir mikilvægan leik gegn Kosóvó í undankeppni HM. Hópurinn var valinn fyrir helgi og er Aron Einar eini Akureyringurinn í hópnum að þessu sinni.
Handbolti
Sigtryggur Daði Rúnarsson fór mikinn og var markahæsti leikmaður Aue sem vann sjö marka útisigur á Emsdetten. Sigtryggur skoraði átta mörk úr tíu skotum í 23-30 sigri. Árni Þór Sigtryggsson bætti við þrem mörkum úr fjórum skotum en Oddur Gretarsson kom ekki við sögu hjá Emsdetten vegna meiðsla.
Arnór Atlason skoraði eitt mark þegar Álaborg gerði jafntefli við Skjern í dönsku úrvalsdeildinni en Arnór og félagar eru eftir sem áður með gott forskot á toppi deildarinnar.
UMMÆLI