NTC

„Akureyringar ættu að prófa að veðja á Pírata“

„Akureyringar ættu að prófa að veðja á Pírata“

Níu flokkar bjóða fram í bæjarstjórnarkosningum á Akureyri sem fara fram 14. maí næstkomandi. Á næstu dögum munu oddvitar flokkanna segja frá helstu stefnumálum á Kaffið.is ásamt því að svara spurningum um ákveðin hitamál úr bæjarmálaumræðunni undanfarin ár.

Í dag svarar Hrafndís Bára Einarsdóttir, oddviti Pírata á Akureyri spurningalista Kaffið.is.

Sjá einnig:

Snorri Ásmundsson – Kattaframboðið

Hilda Jana Gísladóttir – Samfylkingin


Hver eru ykkar helstu stefnumál fyrir komandi kosningar?

Okkar helsta stefnumál er aukið íbúalýðræði. Og þá meinum við virkt lýðræði sem gefur fólki raunverulega tækifæri til að hafa áhrif. Það er nefnilega ekkert heilbrigt við að setja völdin í hendur 12 einstaklinga til fjögurra ára og vona það besta. Ég vil að öll ráð og nefndir séu skipuð meðal annars af fólki sem hefur áhuga og þekkingu á hverjum málaflokki fyrir sig. Tími einvörðungu pólitískt skipaðra nefnda er löngu liðinn og úr sér genginn. 

Þá er ég mikil jafnaðarmanneskja og brenn fyrir því að allir hafi jöfn tækifæri í samfélaginu sínu. Ég fæ ekki skilið að menn sjái ekki að virði samfélags er fólgið í mannauðnum og þá mannauðnum öllum. Við höfum öll eitthvað fram að færa og hvað svo sem það er þá er það einhvers virði. Aldrei myndum við segja annað um okkur eða aðra og það er því allra síst á höndum stjórnsýslunnar að gera það. 

Hvaða aðgerðir stefnið þið á ef þið komist að í bæjarstjórn?

Við höfum í þessari kosningabaráttu talað fyrir því að við séum heiðarleg. Við viljum heiðarlega stjórnsýslu og gagnsæi og okkur finnst mikilvægt að lenda hlaupandi ef við fáum tækifæri til að komast inn í bæjarstjórn. Við viljum gera breytingar á regluverkinu svo það sé raunverulega fólkið sem ræður. Reglurnar eru nefnilega ekki meitlaðar í stein. Þær voru settar af fólki eins og okkur og við getum breytt þeim. Algert gegnsæi í stjórnsýslu sparar fjármuni. Píratar hafa sýnt fram á það í verki. Það er hið raunverulega verkfæri fyrir almenning til að veita aðhald. 

Hver er stefna ykkar þegar kemur að lausagöngu katta?

Píratar eru eini flokkurinn sem hefur tekist á við það verkefni sem dýrahald í þéttbýli er. Eftir að hafa kynnt sér málin var ljóst að besta leiðin til að hvetja til ábyrgðar í gæludýrahaldi og draga úr árekstrum var að veita gæludýrum og eigendum þeirra almennilega og viðunandi þjónustu. Þetta gerðu Píratar og heitiri í dag DÝR eða Dýraþjónusta Reykjavíkur. Við viljum gera það sama hér og trúum ekki á boð og bönn heldur fræðslu og þjónustu og höfða til ábyrgðar. Við erum því fylgjandi lausagöngu katta og viljum fá að leiða það verkefni að koma á alvöru þjónustu við gæludýraeigendur en ekki bara hafa þá að féþúfu. Þá viljum við rýmri reglur um gæludýrahald í félagslegu húsnæði. 

Hver er ykkar stefna í skipulagsmálum á Akureyri?

Þegar kemur að skipulagsmálum viljum við Píratar að það sé horft til þeirrar staðreyndar að við erum ekki einsleitur hópur. Við erum fjölbreytt samfélag fólks með afar ólíkar þarfir og ólíka getu. Það er því langmikilvægast í skipulagsmálum að byggja fjölbreytt. Það er heldur ekki viðreisnar von ef öll skipulagsmál og ferli þeirra litist af þeirri kapítalísku staðreynd að allir þurfi að græða á öllum stigum skipulagsins. Frá fyrsta pennastriki til hins síðasta og sá borgar sem setur síðasta punktinn. Oddeyri er ekki háhýsabyggð. Tónatröð er spilling. 

Hver er stefna ykkar í uppbyggingu íþróttamannvirkja á Akureyri?

Akureyri státar af því að eiga frábær íþróttafélög með öfluga starfsemi. En það væri lítið til að státa af ef ekki væri fyrir þrælduglegt fólk með hugsjón og áhuga. Þannig er það með nánast allt í samfélögum. Við þrífumst best ef fjölbreytni er til staðar og þó við viðurkennum það ekki alltaf, þá vegur það hvert annað upp. Því verðum við að átta okkur á að blómlegt íþróttalíf er okkur langflestum mikilvægt í þessu samfélagi. Það auðgar okkur og eflir.
Ég tel að nú sé komið að því að standa við gefin loforð og fylgja eftir þeim áætlunum sem komnar eru fram um uppbyggingu íþróttamannvirkja öllum til heilla. Byggja upp hugvitsamlega, enga plástra og bætur, bara raunverulega framtíðarsýn og byrja.

Hver er stefna ykkar í umhverfismálum á Akureyri?

Píratar hafa nú í yfir 10 ár státað af bestu og framkvæmanlegustu umhverfisstefnu í íslenskri pólitík. Við höldum að sjálfsögðu áfram á þeirri braut og Píratar á Akureyri eru þar engir eftirbátar. Við viljum að náttúran njóti vafans, draga úr mengandi iðnaði, efla tækifæri til samgangna án einkabíls, tryggja heilbrigði sjávar í firðinum og setja af stað eflandi markmið til að hvetja fólkið allt til að huga að hreinna og betra umhverfi. 

Hver er stefna ykkar þegar að kemur að göngugötunni í miðbænum?

Göngugatan, eins og svo margt annað, er gott dæmi um eitthvað sem ætti að heyra undir íbúalýðræðið. Með verkefnum eins og Betri Akureyri þar sem fólk fær tækifæri til að velja hvaða málefni skal taka fyrir, kjósa um þau og að slíkt sé bindandi. Valdið til fólksins! 

Hver er stefna ykkar þegar kemur að sölu áfengis í Hlíðarfjalli?

Aftur, hér á fólkið að fá að ráða. Það má nefnilega vel skilja báðar hliðar og það er hægt að færa góð rök fyrir þeim báðum. En hvað á svo að verða ofan á? Hvað er líklegast til að koma á sátt um málið? Kjósið Pírata og fáið tækifæri til að taka svona ákvarðanir. 

Af hverju ættu Akureyringar að kjósa flokkinn?

Akureyringar ættu að prófa að veðja á Pírata því við erum það stjórnmálaafl sem ekkert hefur að fela, vanda sig og berjast gegn spillingu en ekki með henni. Einfaldlega vegna þess að við stöndum fyrir heiðarlegri stjórnsýslu og ábyrgð. Það þarf ekki að færa til nein siðferðismörk eða líta undan þegar það er sett X við Pírata. Það er heiðarlegt að setja x við P

Sambíó

UMMÆLI

Sambíó