Akureyri Handboltafélag endurheimti toppsæti Grill 66-deildarinnar með afar öruggum 18 marka sigri á Mílan en liðin áttust við í íþróttahúsinu við Vallaskóla á Selfossi í dag í 12.umferð deildarinnar. Leiknum hafði áður verið frestað í gær sökum veðurs.
Aldrei var spurning hvoru megin sigurinn myndi lenda í dag þar sem Akureyri tóku fljótlega öll völd og höfðu frumkvæðið frá upphafi til enda. Heimamenn skoruðu aðeins sex mörk í fyrri hálfleik og var staðan 6-18 í leikhléi.
Akureyri hélt áfram að auka við forystuna í síðari hálfleik og lauk leiknum með átján marka sigri Akureyrar, 15-33.
Akureyri er því eitt á toppi deildarinnar að tólf umferðum loknum, með einu stigi meira en KA sem laut í lægra haldi fyrir Haukum U fyrr í dag 24-19. Næsti leikur liðanna er einmitt toppslagur þar sem KA-menn koma í heimsókn í Íþróttahöllina þann 13.febrúar næstkomandi.
Markaskorarar Akureyrar: Brynjar Hólm Grétarsson 6, Garðar Már Jónsson 6, Arnór Þorri Þorsteinsson 4, Patrekur Stefánsson 3, Jóhann Geir Sævarsson 3, Karolis Stropus 3, Ihor Kopyshynskyi 3, Arnþór Gylfi Finnsson 1, Hafþór Már Vignisson 1, Friðrik Svavarsson 1, Hilmir Kristjánsson 1, Óðinn Freyr Heiðmarsson 1.
Markaskorarar Mílan: Páll Dagur Bergsson 6, Magnús Már Magnússon 3, Árni Geir Hilmarsson 1, Rúnar Hjálmarsson 1, Trausti Elvar Magnússon 1, Sigurður Már Guðmundsson 1, Jóhannes Snær Eiríksson 1, Ari Sverrir Magnússon 1.
Staðan
UMMÆLI