Akureyri – Næsta borg Íslands

Akureyri – Næsta borg Íslands

Áhrifasvæði Akureyrar er stórt en það nær um allan Eyjafjörð og að einhverju marki austur til Húsavíkur og Mývatnssveitar. Svæðið hefur vaxið hratt á síðustu árum og nú búa þar um 8% þjóðarinnar. Vöxturinn hefur verið með svipuðum hætti og á höfuðborgarsvæðinu enda hafa sveitarfélögin í nágrenni Akureyrar einnig verið í miklum vexti og mikilvægi sterkra byggða í nágrenninu er gífurlegt, því þær styrkja Akureyri og hlutverk hennar enn frekar.

Akureyri státar af sterku og fjölbreyttu atvinnulífi og mikilli þekkingarstarfsemi og er það ekki síst þeim mannauði sem þarna býr að þakka. Mikil gróska hefur einnig verið í menningartengdri starfsemi á svæðinu og sér ekki fyrir endann á þeim vexti, sem er vel. Við finnum það vel sem búum á svæðinu hversu mikið fjölbreytt menningarstarfsemi styrkir samfélagið og eflir lífsgæði.

Akureyri og nærsvæði hennar býr einnig við öflugar alþjóðlegar tengingar sem greiða bæði fyrir fólks- og vöruflutningum. Enn frekari tengingum hefur verið komið á undanförnum tveimur árum, bæði með tilkomu Niceair sem var og hét og svo með auknum samningum við stærri erlend flugfélög svo sem EasyJet sem hefur tvímælalaust eflt ferðaþjónustu á öllu svæðinu sem heldur enn áfram að styrkjast.

Nýr tónn í umræðu um byggðamál

Í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar frá árinu 2021 kom fram að mótuð yrði stefna um að skilgreina frekar svæðisbundið hlutverk Akureyrar sem stærsta þéttbýliskjarnans á landsbyggðinni. Nú er búið að skila svokallaðri Borgarstefnu og sem íbúi á Akureyri og 1. þingmaður Norðausturkjördæmis fagna ég tillögunum sem þar koma fram, en í stefnunni leggur starfshópurinn til að Akureyri verði næsta borg á Íslandi. Þannig verði Akureyri sérstakt byggðastig milli höfuðborgar og stærri þéttbýliskjarna á landsbyggðunum og fái þar af leiðandi aukið vægi í samskiptum við ríkisvaldið og hvað varðar almenna þjónustu við landshlutann í heild.  Með öðru borgarsvæði er möguleiki á dreifðari byggð í landinu, þar sem búseta á áhrifasvæði borga eflist, rétt eins og þekkist frá höfuðborgarsvæðinu.

Eitt af áherslumálum í sóknaráætlun Norðurlands eystra fyrir árin 2020-2024 var, að mótuð yrði Borgarstefna fyrir Akureyri og að svæðisbundið hlutverk bæjarins yrði skilgreint betur, sem stærsta þéttbýlisins utan stórhöfuðborgarsvæðisins. Þessi umræða er því ekki ný af nálinni og hefur skotið upp kollinum nokkrum sinnum á síðustu árum. Mikill metnaður hefur verið lagður í að bærinn okkar verði gerður að borg og því afar jákvætt að þau markmið séu þarna komin í ákveðinn farveg. Með þessum tillögum er verið að slá nýjan tón í umræðunni um byggðamál og því ber að fagna.

Svæðisborgin Akureyri

Samhliða vinnu við mótun Akureyrar sem svæðisborgar þarf áhrifasvæðið að þróast í takt sem mun skila sér í öflugra og stærra atvinnu-, búsetu- og þjónustusvæðis. Í dag er mikið um að íbúar í sveitarfélögum utan Akureyrar sæki atvinnu eða aðra þjónustu til Akureyrar og hefur sá fjöldi vaxið mikið á síðustu árum. Þá þarf einnig að líta sérstaklega til stöðu samgangna í landshlutanum og frekari uppbyggingu vega. Sér í lagi þeirra sem spila sérstakt hlutverk í styttingu vegalengda á milli atvinnu- og skólasvæða en það er mikilvægur hlekkur í keðjuna hvað varðar áframhaldandi vöxt svæðisins í heild.

Við þurfum áfram að vinna ötulum höndum að eflingu og stækkun áhrifasvæðisins í góðri samvinnu milli ríkis, Akureyris og nærliggjandi sveitarfélaga.

Því þetta er jú sannkallað samvinnuverkefni.

Höfundur er þingflokksformaður Framsóknar og 1. þingmaður Norðausturkjördæmis

Sambíó

UMMÆLI

Sambíó