Sannkallaður grannaslagur fór fram í Íþróttahöllinni á Akureyri í kvöld þegar Akureyri Handboltafélag tók á móti KA. Leikurinn sem var í Grill 66 deildinni var seinni leikur liðanna en fyrri leikurinn endaði 19-19 en var síðar dæmdur KA mönnum í vil 10-0 eftir að Akureyri hafði notast við ólöglegan leikmann.
Leikurinn í kvöld var mikil skemmtun og myndaðist góð stemning í Höllinni en áhofendur voru rúmlega 1100.
Akureyrarliðið hafði yfirhöndina í leiknum frá upphafi til enda og var m.a. með þriggja marka forskot í hálfleik, 11:8, eftir að KA hafði skorað tvö síðustu mörk hálfleiksins.
KA-liðinu tókst aldrei að minnka muninn verulega í síðari hálfleik og munaði þar mestu um stórleik Arnars Þórs Fylkissonar í marki Akureyrar. Arnar varði afar vel, ekki síst í opnum færum, og var kosinn maður leiksins. Lokatölur á Akureyri í kvöld 24-20.
Hafþór Vignisson skoraði sjö mörk fyrir Akureyri og var markahæstur. Brynjar Þór Grétarsson og Igor Kopyshyrnsyi skoruðu fimm mörk hvor. Heimir Örn Árnason var markahæstur hjá KA með fimm mörk og Ólafur Jóhann Magnússon var næstur með fjögur mörk.
Þar með hefur Akureyri þriggja stiga forskot á KA í efsta sæti deildarinnar eftir 13 umferðir.
Næsti leikur KA manna er á föstudaginn þegar Þróttur kemur í heimsókn í KA heimilið. Næsti leikur Akureyrar er útileikur gegn Haukum U á laugardaginn.
UMMÆLI