NTC

Akureyri fyrir alla

Akureyrarbær er til fyrirmyndar á mörgum sviðum og við getum verið stolt af þeirri velferðarþjónustu sem er í boði.  Mikil fagmennska í gangi og allt kapp lagt á að gera hlutina eins vel og hægt er. En það á ávallt að vera keppikefli að gera betur.

Við hjá L-listanum viljum að allir geti notið þess að búa á Akureyri. Við viljum tryggja að á Akureyri séu fjölbreytt stuðningsúrræði í boði sem leiða til aukinna lífsgæða fyrir fólk með fötlun og fjölskyldur þeirra. Upplýsingar um úrræði sem eru í boði séu aðgengilegar og auðskiljanlegar. Það eru mjög mörg úrræði boði í dag, margar leiðir sem hægt er að fara og getur verið erfitt að henda reiður á hvað á við um hvern og einn og hvert skuli leita.

Við viljum sporna við einmanaleika og félagslegri einangrun einstaklinga. Meðal annars með því að efla íþrótta- og tómstundastarf, auka fjölbreytni í atvinnumálum og auka sjálfstæði fólks með fötlun og frelsi þeirra til að ferðast. Við hjá L-listanum viljum skoða þörf á tæknilausnum til notkunar innan félagsþjónustunnar og kanna hvaða möguleikar og tækifæri felast í aukinni notkun á velferðartækni.

Við teljum að til þess að geta gert enn betur í framtíðinni, sé nauðsynlegt að eiga mikið og gott samtal og samstarf við notendur þjónustunnar í gegnum notendaráð fólks með fötlun og vonandi samtök Átaks.

Ein af áherslum L-listans er að tryggja fólki með fötlun fjölbreytt búsetuúrræði. Nú er verið að úthluta lóðum í Hagahverfinu og búið að setja af stað vinnu við nýjan búsetukjarna í Klettaborgum. Við viljum að í hverju deiliskipulagi nýrra íbúðahverfa verði gert ráð fyrir lóðum fyrir sérhæfða þjónustu- og íbúðakjarna. Gera þarf ráð fyrir að slíkum kjörnum fjölgi að lágmarki í jöfnu hlutfalli við fjölgun íbúa Akureyrar. Það er mun erfiðara að breyta skipulagi eftir á en að gera ráð fyrir þessu í upphafi.

Við í L-listanum fögnum því að búið er að lögfesta Notendastýrða Persónulega Aðstoð. Þetta úrræði hefur reynst gríðarlega vel. Akureyrarbær hefur í tilraunaskyni verið með fimm slíka samninga  í nokkur ár og hafa bæði starfsmenn Akureyrarbæjar og notendur lýst ánægju sinni með þá. Með þessari nýlegu samþykkt NPA-frumvarpsins opnast möguleikar á að stórefla þessa þjónustu og í stuttu máli þá viljum við hjá L-listanum hafa eins marga samninga í gangi og hægt er og vilji er fyrir hjá notendum.

Höldum áfram að bæta lífsgæði á Akureyri saman. Mætum á kjörstað og setjum X við L.

Róbert Freyr Jónsson skipar 13. sæti L-listans fyrir bæjarstjórnarkosningar á Akureyri. 

Sambíó

UMMÆLI