„Akureyri finnst mér vera frábær staður til að stunda háskólanám“

„Akureyri finnst mér vera frábær staður til að stunda háskólanám“

Margrét Unnur Ólafsdóttir stundar nám í hjúkrunarfræði við Háskólann á Akureyri. Hún er viðmælandi vikunnar í samstarfi Kaffið.is og Háskólans á Akureyri þar sem við fáum að kynnast mannlífinu í Háskólanum.


  • Af hverju valdir þú þetta nám? 

Það voru eiginlega frekar handahófskenndar beygjur í mínu lífi sem leiddu mig í hjúkrunarfræðina. Ég útskrifaðist af félagsgreinabraut í menntaskóla með það í huga að ég færi út í meiri félagsvísindi og þá var uppeldisfræði eða kennslufræði mér efst í huga. Þar sem ég hafði fengið nóg af skóla í bili tók ég mér tvö ár til vinnu. Ég komst þá að því að mig langaði að taka einhverja stærri U-beygju í lífinu, breyta aðeins til og fara út fyrir þægindarammann þannig að ég sótti um í hjúkrunarfræðinni og er það ein besta U-beygja sem ég hef tekið. Ég komst nefnilega að því að hjúkrunin er fullkomin blanda af krefjandi bóklegu námi og áhugaverðu og spennandi verklegu og klínísku námi.

  • Hvers vegna valdir þú HA? 

Ég er frá Akureyri og hér finnst mér gott að vera þannig að þegar ég ákvað að fara í nám sem meðal annars er kennt hér, þá hikaði ég ekki við að sækjast í það. Það var þó ekki aðeins staðsetningin sem heillaði svona mikið, heldur sá möguleiki að vera ekki bundin einum ákveðnum stað öll þau fjögur ár sem grunnnámið er. Ég er mikill flakkari og finnst tilhugsunin um að geta farið þangað sem ég vil þegar ég vil, en samt sinnt náminu vel, afar góð tilhugsun. 

  • Hvernig finnst þér háskólalífið á Akureyri? 

Akureyri finnst mér vera frábær staður til að stunda háskólanám og námssamfélagið er metnaðarfullt, persónulegt og litríkt. Við staðnemarnir erum dugleg að hittast og læra saman og er það mér mikil hvatning að fara upp í skóla og hitta skólasystkini mín, jafnvel þegar engir fyrirlestrar eru á dagskrá þann daginn.

Háskólalífið verður auðvitað mun líflegra þegar öll við sem erum á sama ári hópumst norður í lotur en þá fáum við enn betri tækifæri til að kynnast hvert öðru betur. Loturnar hérna á Akureyri eru, að mínu mati, skemmtilegustu vikur misserisins. Yfir misserið heldur aðildarfélagið okkar á heilbrigðisvísindasviði líka viðburði fyrir nemendur í lotum og út frá þeim hafa sprottið falleg vinasambönd sem ég trúi innilega að muni endast mér út lífið. 

  • Hvað ber framtíðin í skauti sér að loknu námi? 

Þegar stórt er spurt! Eins og ég nefndi er ég mikill flakkari og á erfitt með að vera lengi á sama stað, þar sem ég ólst upp á ólíkum stöðum í ólíkum löndum. Því tel ég mjög líklegt að ferðinni sé heitið út fyrir landsteinana sama hvort ég safni mér reynslu í starfi sem hjúkrunarfræðingur eða skrái mig í framhaldsnám. Ég hef ekki mikið velt því fyrir mér á hvaða sviði mig myndi langa að dýpka kunnáttu mína í framhaldsnámi en ég hallast að lýðheilsutengdu eða alþjóðatengdu námi. Ég hef verið virk í sjálfboðaliðastarfi og ég efast ekki um að ég muni nýta mér hjúkrunarfræðikunnáttu mína í þágu alþjóðasamfélagsins á einn eða annan hátt í framtíðinni.

  • Hvað ætlar þú að verða þegar þú verður stór? 

Einn af fjölmörgum kostum sem ég sá við hjúkrunarfræði er einmitt sá að ég þarf ekki að ákveða það strax, af því að mér finnst ég ekki hafa lokað neinum dyrum með því að fara að læra hjúkrun. Þetta nám er mjög góður grunnur fyrir hvað sem ég mun vilja taka mér fyrir hendur í framtíðinni þar sem ég er hreinlega ekki viss hvað ég ætla að verða þegar ég verð stór. Það sem ég veit hins vegar er að ég mun alltaf vinna með fólki á einn eða annan hátt. Ég kann svo að meta alla þá flóru fólks sem gerir samfélagið okkar að því litríka og áhugaverða samfélagi sem við búum og hrærumst í.

  • Hvaða ráð myndir þú gefa nýnemum sem eru að hefja nám við háskólann?

Verið þið óhrædd við að spyrja og vera forvitin, bæði þegar kemur að náminu en líka þegar kemur að því að kynnast fólkinu í kringum ykkur. Takið líka þátt í eins miklu og þið getið sem tengist félagslífinu af því að þá verður tíminn í HA enn dýrmætari og eftirminnilegri. Síðan get ég nú ekki talað um ráð án þess að ráðleggja gott skipulag. Ég væri ekki á þeim stað sem ég er í þessu námi ef ekki væri fyrir skipulagsdagbækurnar mínar og skipulagið sem ég set upp. Háskólanám krefst aga og gott skipulag kemur manni langt ef maður fylgir því, trúðu mér!

  • Hvað gerir háskólann sérstakan að þínu mati? 

Ég verð enn og aftur að undirstrika sveigjanlega námið. Að vita að ég geti hoppað á milli landshluta og heimshluta, en samt sinnt náminu mínu vel, lætur mig horfa á námið sem hluta af mér en ekki hlut sem heldur aftur að mér á öðrum sviðum lífsins. 

  • Hvar er besti staðurinn til þess að læra? 

Ég geng alltaf rakleiðis inn á bókasafn þegar ég mæti í skólann en ég kýs helst að læra þar fram yfir aðra staði. Starfsfólk bókasafnsins er yndislegt og heilt yfir er gott lærdómsumhverfi þar. Ég er greinilega eitthvað hrifin af bókasöfnum af því að ef ég fer ekki á bókasafn háskólans fer ég á Amtsbókasafnið, þar finnst mér líka mjög gott að læra.

  • Hvernig er kaffið í HA?

Ég er mikill kaffiunnandi og finnst fátt betra en góður kaffibolli. Kaffið í HA getum við sagt að sé strangheiðarlegt og það er ekkert að þykjast vera neitt meira en það er. Þess vegna get ég sagt að kaffið í skólanum er gott, og er oft vinur í raun í dimmasta skammdeginu þegar maður er að drukkna í verkefnaskilum og próflestri.

Sambíó

UMMÆLI

Sambíó