Akureyri, Eyjafjörður og Vestmannaeyjar komu best út

Akureyri, Eyjafjörður og Vestmannaeyjar komu best út

Vestmannaeyjar, Akureyri og Eyjafjörður eru þau svæði sem best koma út í heildarstigagjöf í nýrri skoðanakönnun meðal íbúa landsins á búsetuskilyrðum, hamingju og viðhorfi til síns sveitarfélags.

Að könnuninni stóðu landshlutasamtök sveitarfélaga á landinu ásamt Byggðastofnun og var hún gerð á íslensku, ensku og pólsku í september og október síðastliðnum. Niðurstöðurnar byggja á svörum frá 10.253 þátttakendum. Þetta er í fyrsta sinn sem svo víðtæk könnun um þessi efni nær til allra svæða landsins og er markmiðið að hún verði eftirleiðis gerð á 2-3 ára fresti og geti verið sveitarfélögum og stjórnvöldum mikilvægt tæki í búsetu- og byggðaþróun.

Akureyringar ánægðastir með skóla og almenningssamgöngur meðal annars

Spurt var um 40 atriði sem snerta búsetuskilyrði. Sem dæmi um fjölbreytileika í efnisatriðum má nefna friðsæld, loftgæði, skólamál, atvinnuöryggi, launatekjur, húsnæðismál, nettengingar, vegakerfi, vöruverð, þjónustu við fatlaða og aldraða, rafmagn, ásýnd bæja og sveita, almenningssamgöngur og margt fleira. Efnisatriðin snúa því að samfélagsinnviðum sem og þjónustuþáttum á forræði ríkis og/eða sveitarfélaga.

Þó íbúar í Vestmannaeyjum, á Akureyri og við Eyjafjörð mælist með hæsta heildarstigagjöf í könnuninni þá er mismunandi hvaða þætti þeir eru ánægðir með. Í samanburði við önnur svæði gefa Vestmannaeyingar mannlífi, skipulagsmálum, umferð, umferðaröryggi, íbúðaframboði, framfærslu og viðhorfi til sveitarfélags góða umsögn. Akureyringar eru jákvæðastir gagnvart háskóla, framhaldsskóla, almenningssamgöngum, íbúða-framboði, vegakerfi, menningu, umhverfismálum og sorpmálum.

Nánar um niðurstöður könnunarinnar má nálgast hér.

Sambíó

UMMÆLI

Sambíó