Þetta segir svissneski loftslagsfræðingurinn og skíða- og fjallaleiðsögumaðurinn Dario Schwoerer. Hann var staddur í Akureyrarhöfn á dögunum ásamt fjölskyldu sinni í skútu sem þau hafa búið á þegar þau lentu í aftakaveðri. Í samtali við mbl.is segir hann hreint út sagt ótrúlegt hversu mikið af góðu fólki býr á Akureyri.
Dario og Sabine, kona hans, hafa siglt skútunni Pachamama í heil 17 ár og hefur á þeim tíma tekist að sigla 100.000 sjómílur og heimsótt 100 lönd. Þau eiga saman sex börn sem fæðst hafa á ferðalagi þeirra um heiminn ej yngsta barnið þeirra fæddist einmitt á sjúkrahúsinu á Akureyri fyrir tveimur mánuðum og þess vegna ákváðu þau að hafa vetursetu á Akureyri. Með fjölskyldunni í för er svo aðstoðarkonan Miriam.
Orðlaus yfir hjálparhönd Akureyringa
Björgunarsveit og lögreglu tókst að bjarga þeim á land þegar aftakaveðrið gerði vart við sig á sunnudaginn var en skútan varð fyrir töluverðum skemmdum. Pachamama var með landfestar við Torfunesbryggju og mjög illa varin fyrir suðaustanáttinni með þeim afleiðingum að festingar slitnuðu og skútan lamdist ítrekað við bryggjuna. Dario getur ekki þakkað öllu fólkinu nóg sem er búið að hjálpa þeim og kveðst hann vera steinhissa yfir hversu margir buðu fram aðstoð sína án þess að vilja neitt í staðinn, meira að segja fólk alla leið frá Ólafsfirði. Hvalaleiðsögumaðurinn Össur var fyrstur á staðinn og reyndi að komast út á bryggjuna til að hjálpa. Dario kýs að kalla Össur súperman eftir að honum tókst að koma fyrstu línunni í skútuna og kom þannig í veg fyrir að hún sykki.
Í frétt mbl.is er haft eftir Dario:
„Jóhannes Hjálmarsson hjá Eimskip bauð okkur gám sem dótið okkar hefur verið flutt yfir í. Sjómaðurinn Sverrir eyddi öllum gærdeginum í að hjálpa okkur að flytja dót úr skútunni og leita lekans. Annar sjómaður Siggi passaði svo yngsta barnið þeirra. Erlendur Guðmundsson kafari kom líka og hjálpaði. Hann var í ísköldum sjónum í einn og hálfan tíma að smyrja smjörlíki og smjör á kjölinn þar sem lekinn er.“ Dario segir hafa dregið það mikið úr lekanum við þennan gjörning að hann gat tekið sér hvíld frá því að dæla vatni úr skútunni og náði fyrir vikið fimm stunda svefni í nótt. „Nú er hins vegar vatnið tekið að koma inn aftur,“ segir hann.
„Síðan hefur eigandi hvalaskoðunarfyrirtækisins Eldingar leyft okkur að dvelja í húsi leiðsögumanna fyrirtækisins,“ segir Dario. Börnin hafi verið þar í gær að drekka heitt kakó og svo hafa þau geta sofið þar.
„Við elduðum svissneska máltíð í gær sem þakklætisvott fyrir allt fólkið sem er búið að vera að hjálpa okkur. Þetta fólk kom bara og hjálpaði og bað ekki um neitt í staðinn,“ segir Dario „og mér finnst það alveg frábært.“
Ólafur Jónsson hjá Slippnum á Akureyri ætlar að hitta Dario í dag og skoða skútuna til að sjá hvort að þeir geti gert eitthvað við hana.
Eiríkur Björn Björgvinsson, bæjarstjóri Akureyrar, er einnig búinn að koma við hjá þeim í skútunni til að skoða aðstæður og hafði nokkrar áhyggjur af framhaldinu. Finnur Aðalbjörnsson bauðst einnig til að útvega þeim krana til að lyfta skútunni í land. Dario segir í samtali við mbl.is að hann telji Finn vera svona mann sem lætur hlutina gerast.
Dario, Sabine og fjölskylda eru algjörlega orðlaus yfir allri hjálpinni sem þau hafa fengið og telja að ástæða þess sé að viðhorfið hér á landi sé gjörólíkt því sem þekkist annarsstaðar. Það eru allir að reyna að finna lausn á öllu í þeirra máli.
UMMÆLI