NTC

Akureyri beið lægri hlut fyrir Gróttu

Sverre Andreas Jakobsson, þjálfari Akureyrar. Mynd: akureyri-hand.is

Akureyri Handboltafélag tapaði með tveggja marka mun þegar liðið heimsótti Gróttu á Seltjarnarnes í 19.umferð Olís-deildar karla í handbolta í kvöld.

Leikurinn var afar jafn í fyrri hálfleik og staðan í leikhléi jöfn, 11-11. Akureyringar mættu hinsvegar seint til leiks í síðari hálfleik og heimamenn lögðu grunninn að sigrinum á fyrstu mínútum síðari hálfleiks.

Grótta náði mest fimm marka forystu, 23-18 en Akureyringar neituðu að gefast upp og minnkuðu muninn niður í tvö en nær komust þeir ekki. Lokatölur 25-23 fyrir Gróttu.

Kristján Orri Jóhannsson var markahæstur í liði Akureyrar með sex mörk en hvorugur markvarðanna náði sér á strik á meðan markvörður Gróttu, Lárus Gunnarsson, varði eins og berserkur.

Markaskorarar Akureyrar: Kristján Orri Jóhannsson 6, Mindaugas Dumcius 5, Andri Snær Stefánsson 4, Bergvin Gíslason 4, Arnór Þorsteinsson 2, Arnþór Finnsson 1.

Arnar Þór Fylkisson varði fjögur skot í marki Akureyrar og Tomas Olason þrjú.

Markaskorarar Gróttu: Júlíus Stefánsson 5, Aron Dagur Pálsson 5, Finnur Ingi Stefánsson 4, Leonharð Harðarson 3, Nökkvi Dan Elliðason 2, Þráinn Orri Jónsson 2, Elvar Friðriksson 2, Lárus Gunnarsson 1.

Lárus Gunnarsson varði átján skot í marki Gróttu.

Hægt er að horfa á leikinn í heild sinni með því að smella hér.

Sambíó

UMMÆLI