Akureyrarbær vill að ríkið tryggi mögulegar skaðabætur vegna Blöndulínu þrjú verði hún lögð sem loftlína nærri íbúabyggð bæjarins en áætlað er að línan verði innan við sjö hundruð metra frá nýju hverfi á Akureyri. Fjallað var um málið í kvöldfréttum RÚV í gær.
Línan er skipulögð í næsta nágrenni við Giljahverfi og nýtt Móahverfi. Línan færi 6-700 metra frá næstu íbúðarhúsum. Í umfjöllun RÚV segir að húseigendur hafi lýst yfir áhyggjum af mögulegu verðfalli eigna og jafnvel heilsufarstjóni.
„Við höfum verið í ágætis samtali við Landsnet um ýmsar lausnir á málinu og meðal annars þetta verið rætt. En við höfum ekki komist að neinu samkomulagi eða þeir gert okkur einhver tilboð sem eru ásættanleg fyrir okkur sem sveitarfélag eða íbúana sem þarna búa næst línunni,“ segir Halla Björk Reynisdóttir, forseti bæjarstjórnar, í fréttum RÚV.