Akureyrarbær kaupir þrjá nýja metanknúna strætisvagna

Eiríkur Björn og Bjarni undirrita samninginn á metanstöðinni við Súluveg. Mynd: Ragnar Hólm.

Eiríkur Björn og Bjarni undirrita samninginn á metanstöðinni við Súluveg. Mynd: Ragnar Hólm.

Í gær, þriðjudaginn 10. janúar, undirrituðu bæjarstjórinn á Akureyri, Eiríkur Björn Björgvinsson, og Bjarni Arason sölustjóri hjá „Kletti sölu og þjónustu“, samning um kaup Akureyrarbæjar á þremur nýjum metanknúnum strætisvögnum.

Fyrsti vagninn verður afhentur í mars nk. Bærinn leigir hann til eins árs meðan reynsla af notkun metanstrætó í bænum er metin en að ári liðnu verður gengið frá kaupunum ef allt gengur að óskum. Næsti vagn verður keyptur níu mánuðum eftir afhendingu þess fyrsta og sá þriðji eigi síðar en í maí 2018.

Kaupin á metanvögnunum er einn af mörgum þáttum í að ná því markmiði bæjarstjórnar Akureyrar að gera Akureyri að kolefnishlutlausu samfélagi innan fárra ára. Hleðslustöð fyrir metanbíla hefur verið komið upp við Súluveg og hleðslustöðvar fyrir rafbíla eru nú á þremur stöðum á Akureyri.

Bærinn leggur á það áherslu að bílafloti hans verði smám saman allur knúinn endurnýtanlegum eða umhverfisvænum orkugjöfum. Nú þegar eru tveir ferlibílar knúnir metani. Þeir hafa reynst vel og búið er að festa kaup á tveimur nýjum metanferlibílum sem koma til landsins fyrri hluta ársins. Einnig má nefna að í smábílaflota Akureyrarbæjar og Norðurorku eru nú þegar átta metanbílar og tveir rafmagnsbílar.

Sambíó

UMMÆLI

Sambíó