Embætti héraðssaksóknara hefur gefið út ákæru í þremur liðum á hendur 25 ára konu búsettrar á Akureyri. Þetta kemur fram á Mbl.is. Konan er ákærð fyrir tvö ofbeldisbrot og eitt fíkniefnalagabrot.
Í fyrsta lagi er konan ákærð vegna hættulegrar líkamsárásar þann 29. ágúst 2015 á skemmtistaðnum Café Amour í miðbæ Akureyrar. Í ákærunni er hún sögð hafa ráðist á aðra konu, togað hana niður í gólf með því að rífa í hár hennar, setjast ofan á hana þar sem hún lá á gólfinu og haldið henni niðri. Hún á svo að hafa sparkað að minnsta kosti fimm sinnum í höfuð konunnar og einu sinni ofarlega í bringu þar sem hún lá í gólfinu og þegar hún reyndi að reisa sig við. Konan hlaut af líkamsárásinni tognun í hálsi, mar og yfirborðsáverka á höfði, hálsi og bringu.
Í öðru lagi er hún ákærð fyrir hættubrot og hótanir en þann 5. september 2016 sló hún til manns með sprautu með þeim afleiðingum að sprautunálin stakkst í handarbak mannsins þegar hann setti hendur fyrir andlitið í varnarskyni. Í framhaldinu er konan sögð hafa að minnsta kostir þrisvar sinnum hlaupið að manninum með sprautuna á lofti og sagst ætla drepa hann. Konan var smituð af lifrabólgu C. Einnig hefur verið gefin út einkaréttarkrafa vegna þessa liðs, þar sem konunni er gert að greiða manninum rúmlega tvær milljónir í skaða- og miskabætur með vöxtum.
Í þriðja lagi er hún ákærð fyrir brot gegn lögum um ávana- og fíkniefni fyrir að hafa haft í fórum sínum 0,85 grömm af marijúana. Þetta átti sér einnig stað 5.september 2016.
UMMÆLI