Gæludýr.is

,,Áhuginn fyrir körfunni á Akureyri að taka kipp“

,,Áhuginn fyrir körfunni á Akureyri að taka kipp“

Körfuboltalið Þórs hefur blómstrað að undanförnu og unnið þrjá deildarleiki í röð. Þá sló liðið Tindastól úr leik í Maltbikarnum á dögunum. Liðið getur haldið sigurgöngunni áfram í kvöld þegar Keflvíkingar koma í heimsókn í Íþróttahöllina. Hefjast herlegheitin klukkan 19:15.

Þórsarar eru nýliðar í deild þeirra bestu og er óhætt að segja að liðið hafi ekki byrjað vel því Þór tapaði þrem fyrstu leikjum sínum. Nú kveður hins vegar við annan tón og situr liðið í fimmta sæti deildarinnar eftir níu leiki.

Kaffið settist niður með Þresti Leó Jóhannssyni en þessi stóri og stæðilegi kraftframherji er fyrirliði Þórs. Hvernig útskýrir hann viðsnúning liðsins að undanförnu?

,,Liðið er búið að leggja á sig mikla vinnu, og það er að skila bættri frammistöðu á vellinum. Áhuginn fyrir körfunni hérna á Akureyri er líka að taka kipp og stuðningurinn úr stúkunni er búinn að reynast okkur vel á ögurstundum þegar þetta litla auka þarf til að klára leiki,“ segir Þröstur Leó.

Benedikt Guðmundsson, þjálfari Þórs, gaf það út í viðtali við Kaffið fyrr í vetur að markmið liðsins væru skýr. Liðið ætlar sér í úrslitakeppnina, en til þess þarf að enda í einu af átta efstu sætunum. Telur fyrirliðinn það vera raunhæft markmið?

Sjá einnig: ,,Markmiðið að komast í úrslitakeppnina“

,,Það er raunhæft markmið hjá okkur sem nýliðar í deildinni. Það þýðir ekki að það komi að sjálfu sér en með frammistöðu og fókus eins og við höfum sýnt upp á síðkastið er úrslitakeppnin raunhæfur möguleiki, hiklaust. Þetta er jöfn deild og því aðalatriðið að halda fókus og jafnvægi í leik liðsins til að geta náð þeim markmiðum sem við settum okkur í byrjun tímabilsins.“

Þakklátur fyrir að hafa alist upp hjá andstæðing kvöldsins

Andstæðingar Þórs í kvöld eru Keflvíkingar, svo sannarlega þekkt stærð í íslenskum körfubolta en Suðurnesjamönnum hefur gengið afar illa að undanförnu. Hvað þurfa Þórsarar að gera til að vinna í kvöld?

,,Við lítum á Keflavík sem verðugan andstæðing sem að hefur ekki verið upp á sitt besta. Þeirra leikmannhópur er ekki af verri gerðinni og að mínu mati einungis tímaspursmál hvenær þeir hrökkva í gang og þá verða þeir illviðráðanlegir. En eins og fyrr segir þá erum við með fókusinn á okkar leik og að við höldum jafnvægi í uppbyggingu okkar leiks. Við þurfum helst að ná að pússla saman góðri varnarvinnu og flæði í sókninni. Okkur hefur tekist annað hvort í síðustu leikjum en það vantar ennþá að við skilum heilum leik ef svo má segja. Þannig frammistaða gerir okkur samkeppnishæfa við hvern sem er en það er eitthvað sem við erum enn að vinna í,“ segir Þröstur Leó.

Þröstur Leó treður í leik með Keflavík fyrir nokkrum árum.

Þröstur Leó treður í leik með Keflavík fyrir nokkrum árum.

Leikurinn verður sérstakur fyrir Þröst enda er hann Keflvíkingur í húð og hár og lék með liðinu upp alla yngri flokka auk þess sem hann á fjöldann allan af leikjum að baki fyrir meistaraflokk Keflavíkur. Hvernig leggst í hann að mæta uppeldisfélaginu?

,,Það er alltaf sérstök tilfinning, og þá meira þegar spilað er í Keflavík. Tilfinningin er yfirleitt góð en án þess að hafa tekið það saman þá eru líklegast ekkert sérstaklega margir sigrar í þessum leikjum hingað til. Það er rosalega erfitt að lýsa því. Í raun finnur maður hvað það hjálpar að hafa alist upp í svona virku og nánu körfuboltasamfélagi og maður þakkar fyrir það,“ segir Þröstur Leó að lokum.

Svona lítur staðan í deildinni út fyrir leik kvöldsins.

Svona lítur staðan í deildinni út fyrir leik kvöldsins.

 

Sambíó

UMMÆLI