Áfram stelpur!

Haraldur Ingólfsson

Opið bréf til allra sem málið varðar, sérstaklega þeirra sem vilja veg Þórs/KA sem mestan og svo hinna sem vilja leggja og hafa lagt stein í götuna.

 „Ég ætla að taka peningana þína og láta þig svo vinna fyrir þeim áður en þú færð þá til baka.“

Þetta er ekki tilvitnun í neinn, heldur hughrif sem ég hef orðið fyrir undanfarna mánuði eftir það sem hefur viðgengist varðandi fjárframlög EUFA/KSÍ vegna Þórs/KA. Ég neita því ekki að orðið „mansal“ kemur upp í hugann.

Á leikmannakynningu Þórs/KA hvatti Donni þjálfari stuðningsmenn til að standa með liðinu og styðja það á jákvæðan hátt, tala liðið upp og standa vel við bakið á stelpunum. Ég tek heilshugar undir það og vil taka af allan vafa áður en lengra er haldið: Þessi grein er skrifuð til stuðnings knattspyrnuliðum Þórs/KA. Þessi grein er skrifuð til stuðnings stelpunum og fólkinu sem leggur sál sína í að tryggja að liðið nái árangri. Ég get ekki orða bundist lengur vegna þess að mér finnst að á þessu fólki hafi verið brotið, mjög gróflega.

Ég styð lið Þórs/KA í knattspyrnu. Ég hef sem félagsmaður í Þór og sjálfboðaliði lagt eitthvað af mörkum undanfarin ár til að styðja við liðið, umgjörðina í kringum leikina og fleira, og hyggst auka það framlag í sumar af ýmsum ástæðum. Ég hlakka til að vera í kringum þessa meistara, ferðast með liðinu, aðstoða þar sem þarf og leggja eitthvað af mörkum í baráttunni um titla. Já, ég sagði það: Í baráttunni um titla.

Leikmannahópurinn, hæfileikarnir, getan, viljinn í liðinu og þjálfarateyminu, umgjörðin í kringum liðið – allt þetta segir mér að Þór/KA verði áfram í toppbaráttu eins og liðið hefur verið í nær áratug. Ég á von á skemmtilegu sumri inni á vellinum og í kringum liðið, en það er því miður dökkt ský á himni og af því stafar stórum skugga. Ég vona innilega að það verði bjart á vellinum og yfir liðinu, en það eru blikur á lofti sem ekki auka bjartsýni mína. Niðurrifsöflin eru ekki langt undan og hvatirnar hafa mögulega ekkert með knattspyrnu að gera, gætu átt sér rætur í særðu stolti eða óeðlilegri löngun til að koma öðrum á kné. Mögulega bara græðgi.

Ég verð að viðurkenna að ég skil ekki til fulls þann hugsunarhátt og þær hvatir sem búa að baki atburðarásinni sem átt hefur sér stað undanfarna mánuði, illviljann í fléttunni sem ofin var. Ég er með sterk orð á vörum, en ætla ekki að nota þau öll. Sumt á ekki að þurfa að útskýra fyrir heiðvirðu fólki.

En hvaðan kemur þessi skuggi?

 

Tvær milljónir og níu þúsund – ógreiddar!

Árangur karlalandsliðsins á Evrópumótinu í fyrrasumar skilaði KSÍ verulegum fjárhagslegum ávinningi. Stjórn KSÍ ákvað að úthluta fjórðungi framlagsins frá EUFA til aðildarfélaga sinna til að efla starf þeirra öllum til góðs.

Aðeins til útskýringar á þessu framlagi. Í frétt á vef KSÍ þann 16. ágúst 2016 kemur meðal annars fram að á ársþingi KSÍ í febrúar það ár hafi verið tilkynnt um að 300 milljónum króna yrði úthlutað á árinu til aðildarfélaga KSÍ sem sérstöku EM framlagi, eða um 25% af greiðslunni frá EUFA. Síðan hafi í samræmi við auknar greiðslur frá EUFA verið ákveðið að hækka framlagið í 453 milljónir króna, sem er um 25% af heildargreiðslu EUFA. Þá segir í fréttinni að stjórn KSÍ hafi ákveðið hvernig greiðslurnar skiptast á milli aðildarfélaga. Samkvæmt lista í fréttinni er heildarframlag sem fór til Þórs, að meðtöldu því sem reiknað var vegna Þórs/KA, 12.797.000 krónur, en heildarframlag til K.A. er 11.051.000 krónur, einnig að meðtöldu því sem reiknað var vegna Þórs/KA. Mismunurinn skýrist af því að reiknuð eru út stig á hvert félag út frá stöðu og árangri liða þau þrjú ár sem undankeppnin og lokamótið fóru fram, þ.e. 2014-2016. Þór átti lið í Pepsi-deild karla 2014, en K.A. var í 1. deild öll þrjú árin.

Ef fólk er ósátt við forsendurnar sem þessar upphæðir eru reiknaðar út frá ætti það að beina kvörtunum til stjórnar KSÍ, en það er ekki málið hér. Forsendurnar liggja fyrir, útreikningarnir eru klárir, upphæðirnar eru þekktar og það þarf auðvitað engin geimvísindi til að sýna fram á að hluti af þeim fjármunum sem Þór og K.A. fengu inn á sína reikninga frá KSÍ var ætlaður Þór/KA og því eðlilegt að ætlast til þess að félögin millifærðu þá upphæð áfram inn á reikning á vegum liðsins.

Fjárframlag KSÍ byggir á stigaútreikningi eins og ég nefndi hér að framan og átti Þór/KA sem lið (rekstrareining) þrjú stig af þeim stigum sem reiknuð voru á K.A. Hvert stig samsvaraði 503.000 krónum þannig að þar fóru 1.509.000 krónur í rangan vasa og þeim hefur ekki verið skilað áfram til rétts viðtakanda.

Hluta af EM framlaginu, 82 milljónum króna, var úthlutað til aðildarfélaganna „vegna markaðsáhrifa Evrópumótsins,“ eins og segir í fréttinni sem áður var vitnað til. Þar kemur fram að félög í Pepsi-deild karla hafi fengið fjórar milljónir, félög í Inkasso-deild karla tvær milljónir og félög í Pepsi-deild kvenna eina milljón.

Milljónin sem þannig var reiknuð á Þór/KA fór að hálfu inn á reikning hjá Þór og að hálfu hjá K.A. Með því að halda þessum hluta EM framlagsins fyrir sig er knattspyrnudeild K.A. þar með komin með 1,5 milljónir á meðan önnur félög í Inkasso-deildinni eru með eina milljón, þar á meðal Þór, sem hélt sinni einu milljón en kom hálfri milljón áfram til Þórs/KA. Það er algjörlega galið að halda því fram að þetta sé eðlilegt og í lagi eins og gert hefur verið.

Í daglegu tali er rætt um þetta sérstaka framlag „vegna markaðsáhrifa“ sem framlag vegna fækkunar áhorfenda. Markaðsáhrif Evrópumótsins eru misjöfn eftir félögum, en með þátttöku Íslands í lokamótinu urðu þau auðvitað meiri en ella. Það er beinlínis ákvörðun stjórnar KSÍ að þetta framlag sé föst upphæð eftir deildum í stað þess að leggjast í útreikninga og fara yfir tölur um fjölda áhorfenda á leikjum ár frá ári. Ein milljón er þannig ákveðin sem framlag til Þórs/KA.

Þau rök hafa heyrst að áhorfendum á leikjum Þórs/KA hafi ekki fækkað vegna EM. Ef við ætlum að taka þau rök góð og gild inn í þessa umræðu er niðurstaðan auðvitað einföld: Þór og K.A. hljóta þá að skila milljóninni sem ætluð var Þór/KA aftur til KSÍ. Ég ítreka bara að stjórn KSÍ ákvað að þetta markaðsframlag yrði föst upphæð á félög/lið og mismunandi eftir deildum en ekki mismunandi eftir því hvort eða hve mikið áhorfendum fækkaði hjá hverju liði. Félög með lið í Inkasso-deild karla fengu tvær milljónir. Af hverju ætti K.A. að fá tvær og hálfa? Félög með lið í Pepsi-deild kvenna fengu eina milljón. Af hverju ætti Þór/KA bara að fá hálfa eða ekki neitt?

Það er algjörlega óskiljanlegt hvernig hægt er að halda því fram að þessar áðurnefndu 500.000 krónur sem fóru inn á reikning knattspyrnudeildar K.A. hafi ekki átt að renna óskiptar til Þórs/KA. Þarf ég að endurtaka þetta? Framlagið er vegna Þórs/KA í Pepsi-deild kvenna. Einnig hinar krónurnar sem ég nefndi áður, 1.509.000 krónur.

Hér hef ég gert grein fyrir hvernig upphæðin sem rann í rangan vasa, 2.009.000 krónur, er til komin. Samsvarandi upphæð sem fór til Þórs vegna Þórs/KA er 2.243.000 krónur. Það þarf eitthvað annað en rökhugsun til að halda því fram að félögin tvö eigi rétt á að nýta þessa fjármuni fyrir sig í gæluverkefni og geðþóttaákvarðanir.

Mig grunar því miður að eftir þá undarlegu umræðu sem átti sér stað í kringum áramótin í tengslum við umfjöllun fjölmiðla um málið að fólk sem ekki er inni í þessum málum hafi látið glepjast og telji jafnvel að allt sé í réttum farvegi, allir þeir fjármunir sem komu frá KSÍ hafi runnið í réttan vasa og/eða hafi verið ráðstafað af þeim sem rétt höfðu til að ráðstafa þeim. Svo er þó ekki. Nýr samstarfssamningur um framtíð liðsins og búninga þess getur ekki breytt neinu þar um. Tveir aðilar geta ekki samið um að annar þeirra megi taka fé frá þeim þriðja.

 

Ber KSÍ enga ábyrgð?

Útreikningur á þessum fjárframlögum til Þórs og K.A. liggur algjörlega ljós fyrir frá KSÍ og það hljóta einfaldlega að vera mistök hjá forsvarsmönnum KSÍ að reikna framlagið til Þórs/KA inn í þær upphæðir sem félögin fengu hvort fyrir sig. Stigaútreikningurinn er gerður út frá ákveðnum forsendum sem stjórn KSÍ ákvað. Upphæðirnar sem tilheyrðu liði Þórs/KA lágu ljósar fyrir, en samt millifærði KSÍ upphæðina inn á reikning félaganna. Mögulega var það gert með trú á hið góða í fólki, ekki skal ég fullyrða um það.

Forsvarsmenn Þórs/KA vöktu strax máls á því óréttlæti sem virtist í uppsiglingu þegar peningarnir sem fóru inn á reikning K.A. skiluðu sér ekki áfram í samræmi við útreikninga KSÍ. Fulltrúar Þórs/KA komu einfaldlega að lokuðum dyrum hjá knattspyrnudeild K.A. – eða sem verra er, því var í raun sýndur fingurinn. Fulltrúar KSÍ komu meira að segja á fund norður þar sem ég geri ráð fyrir að reynt hafi verið að útskýra þessi fjárframlög fyrir forsvarsmönnum knattspyrnudeildar K.A. og þá útreikninga sem liggja að baki (sem átti ekki að þurfa, málið er ekkert flókið). En brotaviljinn virðist einlægur. Þessir peningar hafa að minnsta kosti ekki skilað sér áfram til Þórs/KA eftir því sem ég best veit.

Ég átta mig ekki á því í fyrsta lagi hvað væri svona flókið við það fyrir KSÍ að fá reikningsnúmer Þórs/KA og millifæra beint inn á reikning þess þá fjármuni sem því ber, ásamt því að senda tilkynningu til félaganna um þá ráðstöfun þessara fjármuna, í stað þess að setja fjárvana stjórnir og framkvæmdastjóra knattspyrnudeilda í þann freistnivanda að nýta þá að eigin vild í annað. Ég átta mig heldur ekki á því hvað er svona flókið við það að viðurkenna að þessir fjármunir eiga að renna til liðsins, ekki í gæluverkefni og geðþóttaákvarðanir.

Þegar á allt er litið liggur ábyrgðin á því að þessir fjármunir skili sér til Þórs/KA bæði hjá KSÍ og knattspyrnudeildum Þórs og K.A. KSÍ hlýtur að gera eitthvað í málinu úr því það er enn óleyst. Sambandið hlýtur að hafa margar leiðir til að klára þetta mál ef stjórn knattspyrnudeildar K.A. hunskast ekki til að gera það af sjálfsdáðum. Ég gæti vel komið með nokkrar hugmyndir.

 

Misjafnt siðferði að baki?

Það segir kannski eitthvað um mismunandi viðhorf til liðsins, metnað og siðferði að þegar framlagið kom inn á reikning hjá Þór kom aldrei annað til greina en að millifæra 2.243.000 krónur áfram inn á bankareikning Þórs/KA og það var gert. Ég veit ekki hvort það var gert samdægurs. Kannski hefur framkvæmdastjóri Þórs gerst sekur um glæp og fengið vexti í einhverja daga út á þessar krónur áður en þær fóru í réttan vasa.

Á sama tíma upphófst einhver skrípaleikur við að rökstyðja það af hverju knattspyrnudeild K.A. ætti rétt á að ráðstafa þessu fé og ætlaði að halda því í stað þess að skila í réttan vasa. Í þeirri herferð hefur meðal annars verið bent á að ætlunin sé að bæta aðstöðu sem muni koma Þór/KA til góða jafnt og öðrum. Jafnvel þótt rétt væri þá skiptir það bara engu máli í þessu sambandi. Að láta sér detta það í hug að nýta framlag vegna kvennaliða Þórs/KA til einhvers konar byggingaframkvæmda á félagssvæði K.A. er algjörlega fráleitt. Það myndi reyndar ekki skipta máli þótt ákveðið yrði að gefa þessa peninga til mæðrastyrksnefndar eða móður Theresu – ráðstöfunin í upphafi er röng, þessir fjármunir eiga að skila sér áfram til Þórs/KA og það er ekki knattspyrnudeildar K.A. að ákveða neitt annað. Fjárframlagið frá KSÍ er til komið vegna Þórs/KA og það á enginn annar en kvennaráðið (sem sér um rekstur liðsins) rétt á að ákveða ráðstöfun fjárins. Það þarf ekkert að rökræða það frekar.

Þessi framganga hjá ráðandi öflum í knattspyrnudeild K.A. ber ekki vott um umhyggju fyrir knattspyrnu kvenna. Þarna búa einhverjar aðrar hvatir að baki.

Nú styttist óðum í að keppni í Pepsi-deild kvenna hefjist, óvenju snemma þetta árið vegna þátttöku kvennalandsliðsins í lokakeppni EM. En fólkið sem starfar í kringum liðið fer inn í mótið með þennan skugga yfir sér. Fjárframlag EUFA/KSÍ hefur ekki skilað sér til liðsins nema að hluta. Það er svo mikil svívirða að knattspyrnudeild K.A. skuli taka þetta fé til eigin nota að ég get bara ekki þagað lengur. Bæjarbúar verða að fá að vita hvernig í pottinn er búið. Samstaða með liðinu innan vallar sem utan er mikilvæg fyrir átök sumarsins, því mögulega verður þetta Íslandsmót það mest spennandi í mörg ár. Ein leið til stuðnings í verki er að fólkið í félögunum snúi bökum saman og nái þessum fjármunum aftur með öllum tiltækum ráðum.

 

Sjaldan er ein báran stök

En þetta er ekki öll sagan. Ef þetta „fyrirkomulag“ sem knattspyrnudeild K.A. hefur kosið er ekki nóg til að sannfæra fólk um einlægan brotavilja þá er rétt að vekja athygli á stórundarlegu fyrirkomulagi sem hefur viðgengist í allmörg ár varðandi framlög frá UEFA og KSÍ til barna- og unglingastarfs aðildarfélaga KSÍ. Í greinargerðum KSÍ kemur skýrt fram að greiðsla til félaganna skuli renna „til eflingar knattspyrnu barna og unglinga frá yngstu iðkendum til og með 2. aldursflokki karla og kvenna.“ (Leturbreyting mín.) Annar aldursflokkur kvenna hefur í mörg ár verið undir hatti Þórs/KA, en ekki félaganna hvors fyrir sig. Það liggur því í augum uppi að hluti af framlaginu frá UEFA og KSÍ ár hvert sem fer til Þórs og K.A. á með réttu að fara áfram inn í starfið hjá Þór/KA, nánar tiltekið í 2. flokk kvenna.

Ég hef ekki nákvæmar upplýsingar um upphæðir eða árafjölda, en það er alveg ljóst að þetta eru verulegar upphæðir. Mér vitanlega hefur knattspyrnudeild K.A. aldrei áframsent þennan hluta inn í starfið hjá 2. flokki Þórs/KA. Bara svona sem dæmi þá kemur fram í frétt á vef KSÍ 30. nóvember 2015 að knattspyrnudeild K.A. hafi verið úthlutað 1.600.000 krónum það árið og með réttu hefði hluti þess átt að nýtast 2. flokki kvenna sem var og er undir hatti Þórs/KA. Þessar tölur eru allar til mörg ár aftur í tímann ásamt tölum um fjölda iðkenda og/eða öðrum upplýsingum sem þarf til að reikna út hver heildarupphæðin er sem þannig hefur runnið í rangan vasa.

Hvernig er í alvöru hægt að rökstyðja að hluti framlagsins renni ekki til 2. flokks kvenna? Þetta er eins og að vera á atvinnuleysisbótum og vinna svart með, eða ef maður ætti tvö börn en tæki þegjandi við barnabótum fyrir þrjú.

Ég get ekki með nokkru móti skilgreint það nema á einn hátt þegar fjármunir renna viljandi og ítrekað í rangan vasa. Ef lesendur skilja íslensku ætti ekki að þurfa að útskýra það frekar. Nú eru liðnir margir mánuðir frá því að inn á reikning knattspyrnudeildar K.A. komu fjármunir sem hefðu með réttu átt að fara beinustu leið inn í rekstur knattspyrnuliðs Þórs/KA og í mörg ár hefur 2. flokkur kvenna „gleymst“ þegar KSÍ hefur styrkt barna- og unglingastarf. Enn eru ógreiddar 2.009.000 krónur af EM framlaginu frá 2016 úr röngum vasa í réttan. Þar að auki verulegar upphæðir vegna 2. flokks kvenna mörg ár aftur í tímann.

 

Mansal?

Það heyrðist í umræðunni í upphafi ársins að framlag K.A. til Þórs/KA væri verulegt í því formi að Þór/KA fengi (upp á þeirra náð) verkefni sem gæfu vel af sér og var þar vísað í veitingasölu á Akureyrarvelli annars vegar og þrif á skólum eftir N1 mótið hins vegar. En misskilningurinn liggur í því að það er ekki það sama að, a) útvega mér verkefni sem ég þarf að vinna að baki brotnu til að fá greitt fyrir það og b) að greiða mér inn á minn reikning það fjárframlag sem mér ber samkvæmt ákvörðun og úthlutun frá KSÍ.

Ég vil bara í þessu sambandi ítreka inngangsorð þessarar greinar. Ég get ekki að því gert að „mansal“ kemur upp í hugann.

 

Hnífur í bakið á eigin fólki – og mörgum öðrum

Umræðan í framhaldi af umfjöllun mbl.is í lok árs 2016 var í senn áhugaverð og stórundarleg. Mörgum blöskraði þessi framkoma forráðamanna knattspyrnudeildar K.A., enda er svona háttalag ekkert annað en hnífsstunga í bak þeirra sem síst skyldi, knattspyrnukvennanna sjálfra.

Hnífurinn kom reyndar í bak margra; knattspyrnukvennanna, samstarfsfélagsins, þess fólks sem starfar í kvennaráðinu og kringum það og leggur sál sína í að vinna liðinu brautargengi. Í þessum hópi eru leikmenn sem koma úr unglingastarfi K.A. Í kvennaráðinu starfar fólk sem er félagsmenn í K.A. og hefur starfað fyrir félagið í áraraðir. Hnífurinn frá knattspyrnudeild K.A. stendur jafnt í baki samherja sem annarra – mögulega þó með meiri sársauka fyrir samherjana. Er einhver stoltur af svona starfsaðferðum?

Þetta var samt ekki nóg. Hnífnum var snúið í sárinu með hinni stórkostlegu fléttu og framtíðaryfirlýsingu frá aðalstjórn K.A. sem hent var í loftið í skyndi skömmu áður en frestur til að tilkynna lið (nafn) til þátttöku á Íslandsmótinu rann út. Framtíðaryfirlýsingin kom öllum á óvart, einkum og sér í lagi liðinu sjálfu, leikmönnunum og kvennaráðinu. Hvað bjó að baki þessari fléttu er ekki gott að segja, en að minnsta kosti er tilfinningin ekki sú að þar hafi umhyggja fyrir knattspyrnu kvenna verið aðalatriðið.

 

Búningamálið leyst, áfram veginn!

Það hefur verið baráttumál margra að lið Þórs/KA spili í svokölluðum „hlutlausum búningum“. Um þau mál mætti skrifa aðra og langa grein, en ég ætla ekki að dvelja við það mál. Niðurstaðan liggur fyrir. Nýir búningar eru á leiðinni og liðið mun spila í þeim. Ég ætla að styðja liðið áfram og styrkja það með því vinnuframlagi sem ég get þó þeir litir sem urðu fyrir valinu séu ekkert endilega ofarlega á lista yfir uppáhalds litina mína. Fyrir mér er þetta lið og leikmennirnir aðalatriðið og þær væru jafn stórkostlegar þó svo treyjan væri ljósbrún, buxurnar lillabláar og sokkarnir neongrænir. Þegar allt kemur til alls er það fólkið sem skiptir máli, ekki fötin.

Búningamálin hafa verið leyst og allir ættu að geta unað við niðurstöðuna. Það hefur að minnsta kosti engan tilgang að berja hausnum við steininn ef einhverjir eru ósáttir við búningamálin. Nýir búningar, nýir litir, sama frábæra liðið, málið afgreitt. Áfram veginn.

Næsta mál: Skila þeim fjármunum sem runnið hafa í rangan vasa.

 

Veit enginn lengur muninn á réttu og röngu?

Um leið og yfirlýsingin fræga frá aðalstjórn K.A. fór í loftið í janúar spyrntu margir við fótum, meðal annars knattspyrnukonurnar sjálfar. Þær voru ósáttar við þessi vinnubrögð. Á þær var hlustað og þrátt fyrir dólgslæti sumra sem hefðu átt og voru hvattir til að gæta hófs í umræðunni og almennt þá undarlegu umræðu sem fór í gang eftir framtíðaryfirlýsinguna náðu félögin saman um nýjan samstarfssamning eftir nokkurra vikna óvissu.

En þegar nýr samningur hafði verið undirritaður og kynntur birtist frétt og tilvitnun í formann ÍBA sem ég er enn að reyna að skilja. Ég ætla að gefa mér þann fyrirvara að annað hvort hafi blaðamanninum eða viðmælandanum orðið á í messunni. En þessi frétt stendur samt enn óhrakin.

Hér er klausa úr viðtali við formann ÍBA í frétt á mbl.is þann 15. mars 2017:

Geir Kristinn segir að samningurinn kveði skýrt á um hvernig fara á með fjármuni sem úthlutað verður til Þórs/KA. Þar sem Þór/KA er ekki sjálfstætt félag er það undir Þór og KA komið að úthluta fé til rekstursins. „Upphæðin er misjöfn eftir því í hvaða deild Þór og KA eru í karlaboltanum og það verður föst upphæð sem fer inn í kvennaboltann, eftir því hvar karlaliðin standa,“ sagði Geir Kristinn. Eftir því sem hann kemst næst er sú klausa ekki afturvirk, og því mun ákvörðun KA um ráðstöfun fjármagnsins því að öllum líkindum standa.

Lokasetningin í þessari tilvitnun í frétt mbl.is er svo stórfurðuleg að ég veit ekki hvort ég á að hlæja eða gráta. Getur bara hver sem er úti í bæ ákveðið veita þér sakaruppgjöf með einni undirskrift og allt það vonda sem þú gerðir í fortíðinni er þar með gleymt og grafið, sakavottorðið hreint og framtíðin björt, allir bara í „slow motion“ á ströndinni eins og í sjampóauglýsingu?

Get ég rænt banka, sagt síðan upp viðskiptum mínum við bankann, tekið allar mínar innistæður út úr bankanum af því að ég ætla að vera minn eiginn banki og samið svo um að koma í viðskipti aftur, dagsett samninginn mánuði eftir bankaránið og verið laus allra mála, haldið peningunum sem ég rændi af bankanum og sloppið við ákæru og refsingu?

Hér koma þrjár skýringar til greina. Mögulega hefur fjölmiðlum mistekist að koma réttum upplýsingum á framfæri, Geir veit ekki um hvað málið snýst eða að við erum bara komin á það stig að flétturnar frá því í haust og vetur hafa ruglað fólk svo í ríminu að enginn veit lengur muninn á réttu og röngu. Ég segi bara: Það er rangt að stela! Um það er ekki hægt að semja.

 

„Jöfn aðkoma“

Ef ég gef mér það að rétt sé farið með í áðurnefndri frétt og rétt skilið þá hefur verið samið um það að „föst upphæð“ fari inn í kvennaboltann eftir því hvar karlaliðin standa. Af hverju að semja um einhverja fasta upphæð ef það liggur ljóst fyrir í útreikningum KSÍ hver hlutur Þórs/KA er út frá forsendum og stigareikningi KSÍ? Eina ástæðan gæti verið sú að framlög frá félögunum verði þá hærri en það sem KSÍ reiknar út. Því ef þau eru lægri eru hlutirnir komnir í sama farið og þegar 2.009.000 krónur runnu í rangan vasa í vetur. Og jafnvel þótt samningar um framtíðina væru skynsamlegir og réttlátir þá er ekkert sem réttlætir það að ýta þessum 2.009.000 krónum bara út af borðinu (og gleyma líka framlaginu vegna 2. flokks kvenna). Þeim ber skilyrðislaust að skila í réttan vasa – og með í umslaginu skal fylgja afsökunarbeiðni til leikmanna og kvennaráðs Þórs/KA því knattspyrnudeild K.A. hefur fyrst og fremst brotið á þessu fólki. Ég vil taka fram að ég hef ekki séð umræddan samstarfssamning og set því fyrirvara við skilning og útskýringu mbl.is og formanns ÍBA á málinu. Þessar síðustu vangaveltur eru út frá túlkun Geirs og blaðamanns.

 

Gríðarleg sjálfboðavinna að baki

Ég veit ekki hvort þið gerið ykkur grein fyrir hve mikið leikmenn og aðstandendur liðsins leggja á sig til að fjármagna reksturinn og halda toppumgjörð og fagmennsku í starfinu. Það er aðdáunarvert að fylgjast með því hvað þetta fólk leggur á sig vegna ástríðunnar fyrir knattspyrnu og til að tryggja að stelpurnar geti sinnt henni af fullri alvöru og fagmennsku. Það væri reyndar gaman að sjá samantekt yfir heilt rekstrarár um það hve mörgum vinnustundum þetta fólk ver í sjálfboðavinnu til að fjármagna rekstur liðsins; vörutalningar, þrif, veisluþjónustu, sjoppuvinnu, önnur söluverkefni og margt fleira. Það er lítilsvirðing við þetta góða fólk að knattspyrnudeild K.A. skuli ekki skila umræddu fé áfram til Þórs/KA.

Ég veit ekki hvort það er grátlegt eða hlægilegt í ljósi þess hvar þessar rúmu tvær milljónir eru í dag að lesa síðan í fréttatilkynningu um nýjan samstarfssamning að hann tryggi „jafna aðkomu félaganna“. Það verður aldrei neitt jafnt í þessu tilliti fyrr en í fyrsta lagi þegar þessum krónum hefur verið skilað í réttan vasa. Og þegar þessum krónum hefur verið skilað í réttan vasa (og það skal verða) hafa þær legið í röngum vasa (á vöxtum) í marga mánuði. Og það að þær runnu í rangan vasa og tók svona langan tíma að skila þeim í réttan vasa (ef þeim verður þá skilað) hefur: a) Sáð fræjum tortryggni innan félaganna og á milli þeirra, b) sýnt rétt andlit einhverra, c) skaðað orðspor Þórs/KA út á við og d) síðast en ekki síst stórskaðað orðspor K.A. innan frá. – Ég missi þó ekki svefn yfir þessu síðastnefnda.

Ég veit ekki hvort gerendur gera sér grein fyrir því hvernig þeir hafa skemmt út frá sér eins og ormar í epli. Það er vissulega ekki mitt mál hvernig innviðir K.A. eru hverju sinni, en framganga þeirra sem hafa hannað og ráðið fléttunni og atburðarásinni hlýtur að hafa fengið einhverja félagsmenn til að velta fyrir sér hvað í ósköpunum þeirra eigið félag er að gera. Ég finn til með grandalausu fólki sem fylgir sínu félagi þegar ráðandi öfl haga sér svona.

 

Hver réði þessu og hvers vegna?

Það er þekkt í félagsstörfum að frekir og ráðríkir einstaklingar geta haft alla þræði í hendi sér og ráðið öllu sem þeir vilja ráða þrátt fyrir að formlega sé til stjórn í viðkomandi deild eða félagi. Ég veit ekki hvort sú er raunin í þeim tilvikum sem hér koma við sögu, en þegar litið er á lista yfir stjórnarfólk í knattspyrnudeild og aðalstjórn K.A. læðist óneitanlega að mér sá grunur að ákveðnir einstaklingar beri meiri ábyrgð en aðrir á þessum voðaverkum. Ég ætla að láta fólk njóta vafans og trúi því að það illa sem gert hefur verið stafi mögulega frá mjög fámennum en háværum og frekum minnihluta, en nógu háværum til að einhverjir leggja við hlustir, einhverjir trúa röksemdunum. Þetta er sannarlega ekki í fyrsta skipti og ekki heldur það síðasta í félagsstarfi sem einstaklingar telja sig stærri en félagið sem þeir tilheyra og starfa fyrir. En það er misskilningur, þeir eru nefnilega miklu smærri en þeir halda.

Mér finnst ótrúlegt ef einhugur er í stjórn K.A. og stjórn knattspyrnudeildar félagsins um þær aðferðir sem viðhafðar hafa verið. Ég spyr því: Hver réði þessu og hvers vegna? Hver ber ábyrgð á því að ógreiddar eru 2.009.000 krónur vegna liðins árs og einhverjar uppsafnaðar upphæðir undanfarinna ára vegna 2. flokks kvenna? Hver réði atburðarásinni í kringum slita- og framtíðaryfirlýsinguna í janúar?

Hér finnst mér rétt að halda því til haga hvaða fólk starfar í viðkomandi stjórnum. Ég ábyrgist ekki að hér séu réttar eða nýjustu upplýsingar, en bara til fróðleiks, samkvæmt heimasíðu félagsins er aðalstjórn K.A. þannig skipuð (2015-2016): Hrefna G. Torfadóttir, Ingvar Már Gíslason, Sigríður Jóhannsdóttir, Helga Þyrí Bragadóttir og Gunnar Níelsson meðstjórnandi. Ásamt þeim, meðstjórnendur deilda: Eiríkur Jóhannsson knattspyrnudeild, Hjalti Hreinsson handknattleiksdeild, Karl Matthías Valtýsson blakdeild og Guðmundur Haukur Sigurðarson spaðadeild.

Samkvæmt sömu heimildum er stjórn knattspyrnudeildar K.A. þannig skipuð (og hefur verið frá tímabilinu 2014-2015): Eiríkur Jóhannsson formaður, Hjörvar Maronsson, Gunnlaugur Eiðsson, Davíð Búi Halldórsson, Anna Birna Sæmundsdóttir og Róbert M. Kristinsson.

Ég þekki sumt af þessu fólki sem hér hefur verið talið upp af góðu einu og hreinlega trúi ekki að allir þessir einstaklingar séu: a) Sammála því að taka fé af Þór/KA og setja í allt annan vasa, b) sátt við það hvernig félagið traðkar á knattspyrnukonum, jafnt þeim sem eiga uppruna sinn annars staðar og þeim sem koma úr unglingastarfi K.A., og c) sé sátt við þau vinnubrögð sem viðhöfð voru þegar aðalstjórn félagsins sendi frá sér yfirlýsingu um slit á samstarfi og framtíðardrauma núna í janúar.

Ég ætla að láta þá einstaklinga sem taldir voru upp hér að ofan njóta vafans, en sem stjórnarfólk í knattspyrnudeild og aðalstjórn K.A. þarf þetta fólk, ásamt framkvæmdastjóra, að gera hreint fyrir sínum dyrum. Annað hvort taka á sig ábyrgðina á þessum voðaverkum og leiðrétta rangindin eða sverja þau af sér ef svo ber undir. Einhver ber ábyrgðina, svo mikið er víst. Undan þeirri ábyrgð verður ekki vikist.

Raunar er eina svarið sem ég er að kalla eftir það að framkvæmdastjórinn setjist við tölvuna, skrái sig inn í netbankann og skili þessum peningum, fyrst 2.009.000 krónum, og fari síðan yfir það hve mikið hefur runnið til K.A. fyrir flokk sem er rekinn af Þór/KA og komi þeim peningum einnig áfram til Þórs/KA. Það er reyndar ekki mitt að ákveða, en ég yrði jafnvel sáttur við það að ekki kæmu vextir eða verðbætur á þessar upphæðir aftur í tímann. Réttlátast væri þó að reikna vexti og verðbætur því umtalsverðir fjármunir hafa verið notaðir af röngum aðila í stað þess að þeim sé skilað til þess sem réttilega átti að fá í upphafi.

 

Ekki á ykkar vakt!

Yfirskriftin á greininni er: „Áfram, stelpur!“ Það er ekki að ástæðulausu. Konur í knattspyrnu þurfa nú þegar að yfirstíga of margar hindranir til að geta sinnt þessari ástríðu sinni og þurfa alls ekki á því að halda að þeirra eigin félög leggi stein í götuna og bæti við hindrunum.

Það sem almenningur á Akureyri þarf að átta sig á er hve mikil lítilsvirðing þetta framferði er við leikmenn og það fólk sem starfar í kringum liðin hjá Þór/KA. Forysta knattspyrnuhreyfingarinnar þarf að setja hnefann í borðið. Það þarf einhver að slá einhvern utan undir til að vekja menn!

Ég skora því á stjórn og framkvæmdastjóra knattspyrnudeildar K.A. og aðalstjórn K.A. að sjá til þess að áðurnefndum peningum verði skilað á réttan stað! Ég skora á formann, framkvæmdastjóra og stjórn KSÍ, landshlutafulltrúa KSÍ á Norðurlandi og hinn almenna félagsmann í K.A. að beita sér fyrir því að þessi rangindi verði leiðrétt. Ég skora á bæjarbúa að sætta sig ekki við svona lágkúru. Ég skora á kjörna fulltrúa hjá Akureyrarbæ að taka í taumana því þessi háttsemi er höfð uppi af félagi sem að hluta er rekið með styrkjum af almannafé, framlagi frá bæjarbúum.

Ég biðla til knattspyrnuhreyfingarinnar. Guðni, hvar ert þú? Klara, Vignir… þið öll? Þið getið ekki látið þetta viðgangast á ykkar vakt!

Eitt í lokin: Ég mun ekki taka þátt í umræðum í athugasemdakerfum um þetta málefni. Staðreyndirnar liggja ljósar fyrir: Fjármunir fóru viljandi í rangan vasa og þeim ber að skila. Núna.

Ég skora á stuðningsfólk Þórs/KA að flykkja sér að baki liðinu, mæta á völlinn í sumar og sýna stuðninginn í verki.

Saman sigrum við! Together, we will win! ¡Juntos triunfaremos! Ensemble, Nous allons gagne!

 

Þessi pistill er aðsend grein.

Sambíó

UMMÆLI

Sambíó