NTC

Áfram Akureyri

Áfram Akureyri

Það var ánægjulegt að sækja Akureyringa heim í vikunni en mikil gróska og jákvæðni mætti okkur hvar sem við komum. Áskoranir eru þó margar og sem landsbyggðarþingmaður er ég mjög meðvituð um þá ábyrgð sem á mér hvílir, að halda þétt utan um þá málaflokka sem snúa að þjónustu við alla landsmenn.

Sjúkrahúsið á Akureyri gegnir gríðarlega mikilvægu hlutverki og hefur því ekki alltaf verið haldið nægjanlega á lofti hve starfsemi þess spilar stóra rullu í heilbrigðiskerfinu. Ný legudeild hefur tafist úr hófi og mikilvægt er að koma þeirri framkvæmd af stað strax. Með stuðningi við sjúkrahúsið og eflingu þess má ekki aðeins létta verulega á álagi heilbrigðiskerfisins heldur mun einnig felast í því hagkvæmni og skilvirkari þjónusta fyrir landið allt.

Nýr skólameistari tók við í Menntaskólanum á Akureyri í haust og var sérlega ánægjulegt að heimsækja skólann og upplifa stemninguna á þessum fyrstu skóladögum Menntaskólans. Skólinn er rótgróinn og húsakostur kominn til ára sinna. Hlúa verður að hjarta skólans og halda í þá góðu menningu sem skapast hefur í áranna rás. Með nýju fólki koma nýjar áherslur og gaman er að sjá samspil gamla og nýja tímans mætast með góðum árangri. Það eru bjartir tímar fram undan í Menntaskólanum á Akureyri.

Ekki var síður ánægjulegt að heimsækja Verkmenntaskólann á Akureyri. Iðnnám hefur verið að eflast undanfarin ár en orð og athafnir verða að fylgjast að og tryggja verður að aðstaða skólans sé með þeim hætti að starfsfólk og nemendur njóti sín í öflugu umhverfi. Aðferðir eru í stöðugri þróun og tækninni fleygir fram. Því er svo mikilvægt að iðnnámið nái að takast á við hraðar breytingar og til þess þarf stöðugleika og fyrirsjáanleika í rekstri skólans.

Nýsköpun og atvinnuþróun eru drifkraftur öflugra samfélaga. Í heimsókn okkar til starfsfólks Eims fengum við innsýn í þá flottu og miklu vinnu sem er í gangi varðandi stuðning við frumkvöðla. Orkumál, samgöngur, loftslagsmál ásamt ótal öðrum málaflokkum þurfa á nýrri hugsun og nálgun að halda og því er hverju samfélagi svo mikilvægt standa vel að nýsköpunarmálum og veita frumkvöðlum stuðning.

Að því sögðu þakka ég fyrir góðar móttökur í höfuðstað Norðurlands og hlakka til komandi þingvetrar hvar ég mun standa með þeim brýnu málum sem munu auðga og efla samfélagið um allt land.

Jódís Skúladóttir, höfundur er þingmaður VG í Norðausturkjördæmi

Sambíó

UMMÆLI

Sambíó