NTC

Áform um ný og stærri Fjöruböð á Hauganesi

Áform um ný og stærri Fjöruböð á Hauganesi

Ný og stærri Fjöruböð verða byggð vestan við núverandi potta þar sem andi þeirra heldur sér með sterkri tengingu við hafið, fjöruna, sjósókn og siglingamenningu. Þetta kemur fram á vef Fjörubaðanna.

Í tilkynningu á Facebook-síðu Fjörubaðanna segir að áform séu um að bæta svæðið og byggja upp betri aðstöðu með góðri þjónustu. Svæðið hefur fengið nafnið Fjöruböðin og mun bætast í flóru frábærra baðstaða á Norðurlandi, með þá sérstöðu að vera alveg ofan í Norður-Atlantshafinu. Samhliða böðunum verður komið upp frístundabyggð með um 30 húsum ásamt 40 herbergja hóteli. Undirbúningur framkvæmda fer fram í sumar en áætlað er að megnið af fyrirhuguðum byggingum verði komið upp árið 2028.

Fjöruböðin eru baðaðstaða fyrir alla þar sem gestir baða sig í pottum sem líkjast bátum fyrri tíða. Pottarnir hafa misheitt hitastig og eru annaðhvort ferskvatns- eða saltvatnspottar. Aðstaðan við Fjöruböðin er hönnuð með tilvísun til eldri verbúða og íslensku burstabæjanna og hefur sex burstir. Þar má finna gufubað alveg niðri í fjöruborðinu með útsýni inn Eyjafjörð, búningsherbergi og sturtur fyrir öll, heilsulind og veitingasvæði þar sem bæði má njóta veitinga innan dyra eða í sérstakri laug með útibar framan við veitingaaðstöðuna. Timburbryggja úr harðvið myndar svo gólfið á milli lauganna og skapar notalegt íverurými fyrir gesti Fjörubaðanna.

Alls staðar verður lögð áhersla á umhverfisvænar lausnir og heilsusamlega lifnaðarhætti og möguleika á ræktun huga í því einstaka umhverfi sem Sandvíkin og Hauganes hafa upp á að bjóða.

Við Fjöruböðin má gera ráð fyrir bátahúsi sem sem hægt er að starfrækja útleigu á t.d. kajökum, sæþotum og öðrum vatnaíþrótta- og leiktækjum. Austan við bátahúsið er síðan gert ráð fyrir smábátahöfn þar sem gamla bryggjan gæti nýst við gerð varnargarðs til að skýla nýju bryggjunni.

Áform eru um að bróðurpartur þess sem á að byggja verði kominn upp árið 2028.

Nánari upplýsingar um uppbygginguna og fleiri myndir má finna á https://fjorubodin.is/framtidaraform/

Sambíó

UMMÆLI