NTC

Afmæli Akureyrarbæjar: Dagskrá helgarinnar

Afmæli Akureyrarbæjar: Dagskrá helgarinnar

Akureyrarbær fagnar 159 ára afmæli sínu sunnudaginn 29. ágúst og verður því fagnað með ýmsu móti um helgina. Venjan hefur verið að halda Akureyrarvöku sem næst afmælinu en vegna COVID-19 hefur henni verið aflýst. Þeir viðburðir sem verða á dagskrá helgina 27.-29. ágúst í tilefni afmælis sveitarfélagsins lúta ströngum samkomutakmörkunum og verður sóttvarna að sjálfsögðu gætt í hvívetna.

Myndlist, tónlist og ljósasýningar skipa háan sess um helgina og má þar nefna að efnt verður til sönglagatónleika með þátttöku sundlaugargesta í Sundlaug Akureyrar á föstudeginum og þrennir tónleikar verða haldnir á veitingastaðnum Barr í Hofi þar sem koma fram Andrea Gylfadóttir, Pálmi Gunnarsson, Ösp og Örn Eldjárn, Tríó Akureyrar og fleira tónlistarfólk.

Á sunnudag kl. 13 verður hátíðardagskrá í Hofi þar sem 10+1 árs afmæli menningarhússins verður fagnað. Ávörp flytja meðal annars Ásthildur Sturludóttir bæjarstjóri og Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra, Sinfóníuhljómsveit Norðurlands leikur tónlist úr kvikmyndinni Eurovision Song Contest og flutt verður tónlistaratriði úr fjölskyldusöngleiknum Benedikt búálfi. Hægt er að nálgast miða hér en sætafjöldi er takmarkaður.

Tvær nýjar sýningar verða opnaðar í Listasafninu á Akureyri laugardaginn 28. ágúst. Þar er annars vegar um að ræða sýningu Heklu Bjartar Helgadóttur og hins vegar sýningu á útilistaverki eftir Ragnar Kjartansson.

Ekki má heldur gleyma „Ljósunum í bænum“ þar sem valin hús verða lýst á litríkan, listrænan og skemmtilegan hátt. Vídeólistaverk Heimis Hlöðverssonar, sem var unnið sérstaklega fyrir Menningarhúsið Hof í tilefni 10+1 árs afmælis þess, verður frumsýnt og einnig verður vídeólistaverkum varpað á Listasafnið á Akureyri. Önnur hús sem verða upplýst með ýmsu móti eru Akureyrarkirkja, Glerárkirkja og aðstöðuhús siglingaklúbbsins Nökkva, auk þess sem ljósadýrð verður í Lystigarðinum og víðar um bæinn.

Dagskrá helgarinnar er birt á halloakureyri.is.

Sambíó

UMMÆLI