Áfangastaðir framtíðarinnar

Áfangastaðir framtíðarinnar

Gauti Jóhannesson skrifar:

Undanfarin ár hefur vægi ferðaþjónustunnar í efnahagslífi landsins aukist til mikilla muna. Þetta er öllum ljóst og blasir við nú þegar heimsfaraldur kórónuveiru hefur orðið þess valdandi að þjónusta við erlent ferðafólk hefur tímabundið svo gott sem lagst af með tilheyrandi tekjufalli. Miklu skiptir að nýta það andrými sem skapast hefur við þessar aðstæður, huga að mögulegum sóknarfærum í greininni í framtíðinni, þeirri verðmætasköpun og viðspyrnu sem þau geta veitt ef vel er á málum haldið.

Gangi fyrirætlanir stjórnvalda eftir varðandi aukna dreifingu erlendra gesta sem sækja landið heim er ljóst að fjöldi áfangastaða bíða þess að verða uppgötvaðir vítt og breitt.

Fram til þessa hefur það oft verið handahófskennt og jafnvel undir erlendum stórstjörnum og samfélagsmiðlum komið hvaða staðir njóta mestra vinsælda hverju sinni. Má af því tilefni nefna t.d. flugvélaflakið á Sólheimasandi, Fjaðrárgljúfur og nú síðast Stuðlagil sem öllum að óvörum og án formlegrar markaðssetningar hefur fest sig í sessi sem áfangastaðurinn sem allir verða að heimsækja.

Stuðlagil er á margan hátt dæmigert fyrir náttúruperlur víða um land. Það er úr alfaraleið, landeigendur eru fleiri en einn, samgöngur geta verið erfiðar, aðstaða fyrir ferðafólk af skornum skammti og áfram mætti telja. 

Með það að markmiði að búa til ferli fyrir uppbyggingu á áfangastaðnum Stuðlagili sótti sveitarfélagið Múlaþing, í samstarfi við Austurbrú og landeigendur, um styrk til sértækra verkefna á sóknaráætlunarsvæðum, í samræmi við stefnumótandi byggðaáætlun fyrir árin 2018-2024. Markmið verkefnisins var að samþætta hagsmunaðila, opinbera stefnumótun, staðbundna stefnumótun, sjálfbærni og ábyrga nýtingu og gæði og fagurfræði í hönnun innviða. Þriggja manna valnefnd fór yfir umsóknir og gerði tillögur til samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra sem ákvað að styrkja verkefnið ekki.

Í framhaldinu leituðu Múlaþing og Austurbrú eftir samstarfi við atvinnu- og nýsköpunarráðherra sem brást vel við og hefur nú verið gengið frá samningi vegna verkefnisins. Líkt og fram hefur komið er Stuðlagil lýsandi dæmi um sjálfsprottinn áfangastað sem nýtur mikilla vinsælda. En þótt gilið sé einstakt þá er það ekkert einsdæmi. Víða um land eru náttúruperlur sem enn hafa ekki fengið þá athygli sem þeim ber. Þegar og ef það gerist skiptir máli að hægt sé að bregðast hratt við með það fyrir augum að varna skemmdum á viðkvæmu náttúrufari, tryggja öryggi ferðamanna og atvinnu- og verðmætasköpun í heimabyggð. Stuðningur ráðuneytisins nú gerir okkur kleift að ganga skipulega til verks. Með þessum hópi öflugra samstarfsaðila verður til reynsla og þekking sem vonandi mun nýtast um land allt í framtíðinni og leggja þannig grunninn að verklagi við uppbyggingu nýrra áfangastaða sem sómi er að.

Höfundur er Forseti sveitarstjórnar Múlaþings

Sambíó

UMMÆLI

Sambíó