Af hversdagsleika og kosningum

Af hversdagsleika og kosningum

Föstudagur.  Frídagur hjá mér, dagur til að letipúkast með malandi útvarpið í bakgrunninum, þrífa ögn á náttfötunum, horfa út um gluggann, rölta út með hundinn og njóta þess að eiga helgina framundan. Helgi án viðburða, helgi til að hugsa, plana, hvíla og prísa mig almennt sæla.

Úti má sjá í bláan himinn eftir snjókomu morgunsins og sólin gægist niður á þennan nóvemberdag. Hún fær hvíld frá okkar litla heimshorni fljótlega en það er alltaf jafn gott að sjá hana í smástund og muna að hún er þarna ennþá.  Hún sól fer ekki í manngreinarálit, skín jafnt á vonda og góða, fégráðuga og hógværa, sjálfstæðismenn og sósíalista. 

Það nálgast nefnilega ekki bara jól með birtu og gleði, -það nálgast líka kosningar. Og kosningabaráttan, þar sem fólk hikstar ekkert á því að slá um sig með allskyns óhroða og söguburði, -þar sem valdasýkin virðist þurrka út mennskuna, hún lekur inn um hlustirnar, inn um bréfalúgurnar og í gegnum snjalltækin okkar. Það er sko engin undankomuleið og það er ekkert alltaf mikið um birtu og gleði í þeirri baráttu.

Vissulega eru einstaka hugsjónafólk í baráttunni, fólk sem glóir eins og gimsteinar í mannsorpinu og fær mig oft til að trúa á gott fólk í góðu samfélagi. En því miður eru hin alltof mörg sem fara fram með offorsi eða trúðslátum, tala niður á fólk í fullkominni sannfæringu um forréttindi sín og yfirburði. En svona er lýðræðið og sumum finnst þetta skemmtilegur tími,  kosningaslagurinn.

Það finnst mér ekki, mér finnst ekki gaman að sjá gott fólk og frambærilegt skotið á færi, eða að horfa upp á  aðra sem sjá ekkert rangt við eigin skítlegu hegðun, sitja bísperrta á þingi kjörtímabil eftir kjörtímabil. Mér finnst hagsmunapot og spilling í pólitík ógeðslegt fyrirbæri.  Mér finnst ekki gaman að fylgjast með frambjóðendum sem kunna ekki að sýna kurteisi eða virðingu og mér finnst ekki gaman að stjórnmálaflokkar skuli enn auglýsa konukvöld. Hugtakið konukvöld í stjórnmálabaráttu er tímaskekkja, skekkja sem niðurlægir öll kyn, með þvi að gera því skóna að það sé einhvernvegin kynbundið hvernig við upplifum stjórnmál. Eða kannski fer eitthvað sérstaklega „kvenlegt“ fram á svona konukvöldum, eitthvað sem önnur kyn geta ekki skilið eða notið. Ég fæ ekki í þetta botn, hvorki nú né áður. Frekar en svo margt annað.

En aftur að föstudeginum og hversdagsleikanum. Það er undir einhverjum þessara frambjóðenda komið hvernig föstudagar næstu ára verða okkur öllum. Hvort við fáum að horfa á snjóinn falla úti, með ró í huga, vitandi það að við náum að borga næstu afborganir af lánunum. Vitandi að börnin okkar fái góða menntun og að um okkur sé hugsað þegar við verðum veik eða gömul.  Að samfélagið okkar setji manngildi, virðingu og góðmennsku ofar peningum.

 Til þess að svo geti orðið þurfum við að velja og velja vel. Ég ætla að að vanda mig þann 30.nóvember og muna  ábyrgðina mína  þegar ég vel hvert mitt atkvæði fer. Lýðræði er ekki sjálfsagt.

Góða helgi.

Bestu kveðjur​​
Inga Dagný

Sambíó

UMMÆLI