NTC

Af hverju kýs ég Samfylkinguna?

Í bæjarstjórnarkosningunum 26. maí nk. bjóða fram sjö flokkar og framboð hér á Akureyri. Á þessum listum má finna hið ágætasta fólk sem vill vinna bænum sínum allt hið besta. Sumt af þessu fólki þekki ég vel, sumir eru vinnufélagar mínir og jafnvel náfrændi minn einn er þarna. Nú, ef þetta er svona mikið einvalalið í öllum flokkum, skiptir þá einhverju máli hvað maður kýs? Jú, það skiptir máli finnst mér. Við erum öll í flokkum eða hreyfingum sem byggja á ákveðnum prinsippum, eða grunngildum sem við aðhyllumst og viljum hafa að leiðarljósi.

Samfylkingin er, eins og nafnið gefur til kynna, hreyfing fólks sem vill vinna saman, fylkja sér saman um mál sem varða allan almenning. Það þýðir að almannahagsmunir verði ætíð teknir fram fyrir sérhagsmuni. Samfylkingin hefur alltaf haft þetta að leiðarljósi frá því að félagshyggjufólk úr fjórum flokkum sameinaðist í einn flokk fyrir bráðum tveimur áratugum til að almannahagur mætti verða meira ofan á í íslenskum stjórnmálum en verið hafði og líka til að hnekkja ofurvaldi sérhagsmunaflokkanna.

Stundum er sagt að hefðbundin vinstri/hægri pólitík eigi ekki við í sveitarstjórnarmálum, það skipti ekki öllu máli hverjir stjórni, þetta séu alltaf sömu málefnin sem fari ekki eftir lögmálum landspólitíkur. Þessu er ég hjartanlega ósammála. Félagshyggja, almannahagsmunir, réttlæti, jöfnuður, mannréttindi minnihlutahópa, stuðningur við þá sem höllum fæti standa í samfélaginu, allt eru þetta mál sem varða bæjarfélagið okkar og eru sannarlega mál kjörinna bæjarfulltrúa.

Það skiptir miklu máli hverjir stjórna. Samfylkingin á Akureyri hefur stefnu í þessum málum og hún byggist á þessum sömu grunngildum sem ég nefndi hér að ofan.

Í stefnu Samfylkingarinnar er áberandi hvað almannhagsmunum er gert hátt undir höfði, áhersla er á jöfnuð og mannréttindi, málefni barnafjölskyldna en líka mikil áhersla á öflugt atvinnulíf, sem og málefni eldri borgara og blómlegt menningarlíf, aukið íbúalýðræði svo nokkuð sé nefnt. Stefnuna má finna í heild sinni á vefsíðunni xsakureyri.is og ég skora á sem flesta á kynna sér hana vel.

Nú held ég að ég hafi svarað spurningunni sem er yfirskrift þessa greinarkorns og mun sannarlega setja x-ið við S 26. maí, enda á listanum, skárra væri það nú!

Þorsteinn Krüger, framhaldsskólakennari skipar 12. sæti á lista Samfylkingarinnar.

Sambíó

UMMÆLI

Sambíó