Ævarr Freyr Birgisson hefur verið valinn blakmaður ársins 2024 af Blaksambandi Íslands. Ævarr er uppalinn í KA á Akureyri en hefur spilað fyrir Odense Volleyball í dönsku blakdeildinni undanfarin sjö tímabil.
Í vor varð Ævarr bæði Bikar- og Danmerkurmeistari með Odense annað árið í röð en hann á að baki hátt í 200 leiki í deildinni sem gerir hann einn af reynslumestu leikmönnum liðsins. Ævarr hefur leikið í stöðu kantsmassara síðustu tímabil en spreytir sig í stöðu frelsingja þetta tímabil og stendur liðið í öðru sæti deildarinnar á þessum tímapunkti.
Ævarr Freyr hefur leikið 48 leiki með Blaklandsliði íslands en þetta er í 4. sinn sem Ævarr hlýtur nafnbótina blakmaður árins.
„Þó að Ævarr sé sjaldnast hávaxnasti leikmaðurinn á vellinum þá er það tæknileg frammistaða og taktískt innsæi sem gerir hann að lykilleikmanni íslenska landsliðsins. Frammistaða hans í móttöku, leikfærni og leiðtogahæfileikar á vellinum hafa gert gæfumuninn síðustu ár í stígandi uppleið íslenska karlalandsliðsins. Ævarr er mikil fyrirmynd liðsfélaga sinna, er skuldbundinn liðinu og viljugur í að miðla reynslu sinni áfram,“ segir í tilkynningu Blaksambands Íslands.
UMMÆLI