Þórsarinn Óskar Jónasson hefur náð góðum árangri í pílu undanfarið. Óskar hefur einungis æft og spilað í rúmt ár en á þeim tíma hefur hann engu að síður landað bæði Akureyrar- og Íslandsmeistaratitlum. Óskar segir í samtali við Vikublaðið að hann ætli sér að verða bestur á landinu í pílu og finna sér pláss á stóra sviðinu.
Sjá einnig: Þórsarinn Óskar Jónasson Íslandsmeistari í pílu
Óskar stefnir á að keppa utan landsteinanna á næstu mánuðum en hann hefur þegar tekið í tveimur mótum erlendis. Hann byrjaði að spila pílu í vinnunni hjá Kjarnafæði Norðlenska á Svalbarðseyri þegar einn vinnufélaginn þar splæsti í píluspjald til að leika sér aðeins í matar- og kaffitímum á covid tímum þegar fyrirtækið var allt hólfað niður.
Óskar spilar nú fyrir hönd Píludeildar Þórs en mikill áhugi er fyrir pílu á Akureyri í dag og félagið er það næst stærsta hér á landi með rúmlega 100 félaga.
„Mér þótti þetta skemmtilegt og hitti ágætlega sem varð til þess að áhuginn jókst. Einn vinnufélagi minn var í félaginu og hvatti mig til að mæta og það varð úr að ég ákvað að prófa eina æfingu hjá píludeildinni,“ segir hann. Þetta var í lok ársins 2021 og skráði hann sig í félagið fyrir rúmu ári, í febrúar 2022. Óskar varð Akureyrarmeistari í byrjun október 2022 og Íslandsmeistari fáum dögum síðar.
UMMÆLI