Ætla að opna nýjan veitingastað – Bautinn og La Vita è Bella formlega með nýja eigendurBautinn er með eldri veitingastöðum Akureyrar og er nú með nýja eigendur, hjónin Einar Geirsson og Heiðdísi Fjólu Pétursdóttur, sem eiga einnig veitingastaðinn Rub23.

Ætla að opna nýjan veitingastað – Bautinn og La Vita è Bella formlega með nýja eigendur

Nú hafa eigendaskipti formlega gengið í gegn hjá Bautanum á Akureyri en skiptin áttu sér stað fyrsta júlí. Hjónin Guðmundur Karl Tryggvason og Helga Árnadóttir seldu veitingahúsið eftir tæplega 37 ár en þau kynntust þar á námsárum sínum og störfuðu lengi á staðnum áður en þau keyptu staðinn fyrir mörgum árum. Það er veitingamaðurinn Einar Geirsson, og kona hans Heiðdís Fjóla Pétursdóttir, eigendur Rub23, sem eru nú nýir eigendur Bautans.

Stór áform og breytingar fyrir staðina tvo
Í þessu helsta kennileiti Akureyrar hafa verið reknir tveir veitingastaðir síðustu áratugi, Bautinn og ítalski staðurinn La vita e Bella, sem í daglegu tali heimamanna er kölluð Bellan. Í samtali við Kaffið.is segir Einar Geirsson að það komi ekki til með að breytast að tveir staðir verði í húsinu en hins vegar verði Bellunni breytt verulega og Bautinn fái tímabæra andlitslyftingu.
„Bautinn fær smá andlitslyftingu og nýjan matseðil á næstu vikum en við verðum áfram í steikum, samlokum, pasta og pizzum, svona fjölskylduvænum matseðli. Þetta verður áfram staður sem allir geta farið á og notið,“ segir Einar.

Bellunni lokað í haust
Aðspurður hvernig kaupin komu til segir Einar að þetta hafi passað vel inn í framtíðaráform þeirra hjóna. Þá hafi þeim lengi langað til að bæta við sig veisluþjónustu en Bautinn rekur stærstu veitingaþjónustu Norðurlands og heldur m.a. stærstu veislur norðan heiða í íþróttahöllinni.
„Þetta passaði vel í það sem við erum að hugsa til framtíðar, veisluþjónustan og svo vantaði okkur líka húsnæði fyrir nýjan stað. Það er enginn ákveðin dagsetning ennþá en við ætlum að loka Bellunni með haustinu og opna þar annan veitingastað,“ segir Einar en þau stefna á að breyta öllu þar inni og opna sérstakan pizzustað.
„Við ætlum að taka inn eldofn og gera alveg nýtt pizza“concept,“ segir hann en vill þó ekki gefa of mikið upp að sinni.

Bautinn er Bautinn!
Aðspurður segir Einar að Bautinn haldi að sjálfsögðu nafninu þó svo að Bellunni verði alveg breytt. „Bautinn er náttúrlega Bautinn, við förum ekkert að breyta nafninu! Við ætlum fyrst og fremst að skipta um matseðil og svo fríska upp á umhverfið með tíð og tíma. Þetta tekur allt smá tíma enda ekki hægt að ráðast í allt svona á miðju sumri,“ segir Einar en Bellan er fyrsta stóra framkvæmdin sem verður ráðist í með haustinu.

Veisluþjónusta Bautans og Rub23
Veisluþjónustan mun einnig koma til með að breytast að miklu leyti þar sem báðir staðir munu nú hjálpast að við að bjóða upp á fjölbreytta valkosti í veislum. „Báðir staðir munu vinna þetta saman og bjóða upp á meiri fjölbreytni í veislunum. Við tökum út það sem er í gangi núna og sameinum þetta við það sem við erum að gera á Rub23 líka.“

Einar segir að lokum að þetta stóra verkefni gengi að sjálfsögðu ekki upp nema að hafa gott fólk með sér í liði sem hann hefur þegar á Rub23 og núverandi starfsmönnum Bautans. Benedikt Hjaltason, matreiðslumeistari og kokkur á Rub23, mun færa sig yfir á Bautann og taka við hönskunum þar meðan Þuríður Margrét Thorlacius, framreiðslumeistari og yfirþjónn Rub23, verður veitingastjóri beggja staða.
„Við erum með alveg frábært fólk sem vinnur hjá okkur og komum með þetta sterka fólk inn í þetta verkefni með okkur. Svo reynum við bara að opna fleiri veitingastaði til að halda öllu þessu góða fólki í vinnu hjá okkur!“ segir Einar að lokum.

Ágætt að sjá eitthvað annað af lífinu en Bautann
Eins og áður kom fram hafa hjónin Guðmundur Karl Tryggvason og Helga Árnadóttir, nú fyrrum eigendur Bautans, rekið og starfað á Bautanum í áratugi. Guðmundur segir í samtali við Kaffið að breytingin sé tímabær og að þau hjónin taki því fagnandi að breyta til og segja skilið við veitingabransann
„Við erum búin að vera þarna í nær 37 ár, alveg frá því að maður byrjaði í bransanum fyrst. Það er svo sem ágætt að sjá eitthvað annað af lífinu en Bautann. Nú er bara að átta sig aðeins á lífinu utan Bautans og gera eitthvað skemmtilegt. Við byrjum á því allavega! Ég hugsa að við eigum nú inni smá orlof eftir vaktina,“ segir Guðmundur léttur.

Treystir Einari fullkomlega fyrir framhaldinu
Guðmundur segir að salan hafi komið þannig til að Einar hafi bankað upp á spurst fyrir. Þetta hafi verið hárréttur tími fyrir þau hjónin og þau því ákveðið að slá til.
„Þetta kom nú bara þannig til að þessi góði maður bankaði upp á hjá okkur og spurði eftir því hvort það væri falt og við ákváðum bara að slá til. Við búin að vera þarna í mörg ár og gott að komast í eitthvað annað,“ segir Guðmundur og hyggst spenntur fyrir þeim hugmyndum sem Einar hefur í huga fyrir staðina tvo.

„Nýjum mönnum fylgja ferskir lundar og ég held að það sé bara alveg ágætt á þessum tímapunkti að aðeins fríska upp á þetta og alveg kominn tími á það í rauninni. Þetta er búið að vera rekið lengi alveg með sama sniði og litlum breytingum, svo breytist tíðarandinn auðvitað líka og ég held það sé bara flott að poppa þetta upp. Ég treysti Einari alveg fyrir því að skreyta þetta eitthvað fyrir okkur,“ segir Guðmundur að lokum.

Sambíó

UMMÆLI

Sambíó