NTC

Æskuvinkonurnar Freyja og Jónína opna saman myndlistasýningu

Æskuvinkonurnar Freyja og Jónína opna saman myndlistasýningu

Freyja Reynisdóttir og Jónína Björg Helgadóttir opna saman myndlistasýninguna Uppljómandi í Gallery Porti á Laugarvegi, þann 21. ágúst. Freyja og Jónína eru hér að sýna tvær saman í fyrsta skipti, en leiðir þeirra í listinni hafa oft legið saman, m.a. í myndlistanámi, sem verkefnisstjórar í listaverkefninu RÓT og sem stofnmeðlimir listasamsteypunnar Kaktus. Fyrir utan það eru þær svo æskuvinkonur frá Akureyri.

Þær vinna hvor sín verkin inn í sýninguna, sem í þessu tilviki eru fígúratív málverk og grafíkverk.

Sýningin ,,Uppljómandi” fjallar um samtal. Bæði þetta innra samtal sem fólk á við sjálft sig en líka samskonar náið samtal sem sumir eru svo heppnir að geta átt við örfáa aðra. Fólk sem er þeim nægilega náið til að engin ritskoðun eigi sér stað og skilningur þeirra á milli svo góður að hægt sé að ræða saman næstum eins og maður væri að eiga samtal við annað persónuleika-brot sjálf síns.

Opnun er í Gallery Porti laugardaginn 21. ágúst kl. 16-18. Allir velkomnir.

Jónína Björg Helgadóttir er fædd 1989 og býr og starfar á Akureyri. Eftir útskrift úr fagurlistadeild Myndlistaskólans á Akureyri árið 2015 hefur hún unnið að eigin myndlist og stýrt listaverkefninu RÓT. Hún hefur haldið sex einkasýningar og sýnt á fjölda samsýninga, hérlendis sem og erlendis. Hún fæst að miklu leyti við málverk og grafík en fígúratív myndverk hennar hafa oft konuna í forgrunni. Birta og hreinir litir eru áberandi í verkum hennar og ákveðin þreyta í mannskapnum er gegnumgangandi þema.

Freyja Reynisdóttir, fædd 1989, býr nú í Reykjavík og stundar meistaranám í frjálsri myndlist við Listaháskóla Íslands. Hún notar verk sín til þess að framkvæma tilraunir í leit að persónulegum sannleikum. Hún telur ferli túlkunar og skynjunar ákjósanlega leið til að eiga í samskiptum um það óyrðanlega en áþreyfanlega í skilningi okkar á sjálfinu og veruleika okkar. Freyja lauk námi frá Myndlistarskólanum á Akureyri árið 2014 og hefur starfað sem myndlistarmaður bæði hér- og erlendis frá þeirri útskrift. Auk fjölda sýninga hér á landi hefur hún sýnt verk sín, bæði á einka- og samsýningum, í Danmörku, Bandaríkjunum, Þýskalandi, Frakklandi og á Spáni.

Verk eftir Jónínu
Verk eftir Freyju

Sambíó

UMMÆLI