NTC

Aðventublús

Inga Dagný Eydal er Norðlendingur á besta aldri sem starfað hefur m.a. við hjúkrun, kennslu og tónlist. Hún býr í Eyjafjarðarsveit ásamt eiginmanni og hundi og sinnir eigin endurhæfingu og sköpun s.s. í ljósmyndun og skrifum, matargerð og listmálun. Veltir gjarnan vöngum yfir tilverunni, mannlífinu og vitleysunni í sjálfri sér og skrifar niður í pistla. Þetta er fjórði pistill hennar fyrir Kaffið.is. 

Inga Dagný Eydal skrifar:

Nú fer aðventan að hefjast, þessi undarlegi tími flókinna tilfinninga og hjá mörgum tími kvíða og depurðar. Sem er kannski undarlegt, þar sem hún er undanfari jólahátíðarinnar með öllum sínum ljósum, gjöfum, tónlist og samveru,- hjá flestum. Boðskapurinn er dásamlegur hvort sem fólk er trúað eða ekki- endurfæðingin, birtan, -lífið sem kviknar og birtist að vori. En aðventan er líka dimmasti tími ársins hér á norðurhjara veraldar og tíminn sem Íslendingar ganga gjörsamlega af göflunum í neyslu, of stórum væntingum, kaupgleði og almennum vitleysisgangi .

Ég hef dvalið erlendis yfir jólin og oft á aðventunni sjálfri og samanburðurinn er okkur ekki í hag. Ekki misskilja mig, ég er algjört jólabarn og ég elska aðventuna. En ég er líka kvíðabolti og í hvert skipti sem einhver útvarpsauglýsingin gargar á mig að jólin hefjist í einhverri verslun langar mig að henda tækinu mínu út um gluggann. Það að einhver kona á facebook hafi baka ð sjö sortir einhvern daginn veldur mér kvíða og samviskubiti yfir því að hafa enga sort bakað enn og seríur og skreytingar eru mér einhvernveginn um megn núorðið.

Mig langar að baka margar sortir, gera piparkökuhús, halda Þorláksmessuboð með girnilegum heimagerðum smáréttum, skera laufabrauð með fjölskyldunni, finna hinar fullkomnu jólagjafir og pakka þeim óaðfinnanlega inn, senda falleg heimagerð og handskrifuð jólakort, skreyta undurfallega í vandlega hreingerðri íbúð, búa til konfekt……kannast einhver við þetta?

Og af því að ég hef líka fullkomnunaráráttu þá dugar mér ekki sumt heldur þrái ég ákaft að geta þetta alltsaman. En fæst af þessu er ég fær um. Orkan leyfir alls ekki sjö sortir og fjárhagurinn leyfir ekki fullkomnu jólagjafirnar, kortin verða líklega skrifuð út í tölvunni og það verður skreytt ofan í skítinn eins og einhver orðaði það svo snilldarlega.

Í staðinn mun ég hugsanlega skoða hvað bragðast vel á veitingahúsum bæjarins, fara og heimsækja soninn minn fyrir jólin, hlusta á margt fallegt á Spotify og gera jólabréf í tölvunni minni. Hamingjuhrólfurinn ég hef það þroskaverkefni að búa mér til mína eigin tegund af aðventu, aðventu sem hentar mér en er ekki sniðin að gömlum hefðum, eigin væntingum um fullkomna húsmóður eða auglýsingum verslanna . Ég ætla að leyfa mér að gráta yfir fallegum barnasöng og hornaflokkum og sakna þeirra sem eru farnir, en líka að finna týruna inni í sjálfri mér og njóta alls sem er gott og skemmtilegt.

Ég er bara búin að lesa ótrúlega marga svona pistla í gegnum árin og fundist þeir alltaf jafn skynsamlegir en jafn oft hef ég fallið í sama pyttinn og fyrri ár og gert meira en mér þykir gott. Og ef ég hef ekki gert það þá hef ég haft hið nagandi samviskubit sem konur hafa eytt öldum í að þróa með sér.

En hingað og ekki lengra! Jólin hefjast í hjartanu á hverjum og einum en hvorki í Ikea eða i Rúmfatalagernum. Þetta verður mantran mín og hvert skipti sem ég missi sjónar á þessu mun ég refsa sjálfri mér með 10 armbeygjum, já eða allavega fimm-, ókei einni armbeygju upp við vegg. Það ætti að halda mér á réttu róli.

Og þá er ég að spá í að hlusta á nokkur jólalög og sletta svo í sort, bara eina sort en hún verður líka fullkomin!

Eina leiðin til að vera besta útgáfan af sjálfum sér er að gangast við sjálfum sér.

Greinin birtist upphaflega á  raedaogrit.wordpress.com/

Sambíó

UMMÆLI