Advania tekur í notkun gagnaver atNorth á Akureyri

Advania tekur í notkun gagnaver atNorth á Akureyri

Með tilkomu gagnavers atNorth á Akureyri getur Advania boðið viðskiptavinum sínum aukið öryggi og tryggt landfræðilegan aðskilnað við vistun gagna.

Gagnavers- og ofurtölvufyrirtækið atNorth og upplýsingatækniþjónustufyrirtækið Advania hafa útvíkkað samstarf fyrirtækjanna í kjölfar opnunar gagnavers atNorth á Akureyri á síðasta ári.

Advania hefur um langa hríð notið þjónustu atNorth í gagnveri fyrirtækisins í Hafnarfirði, auk vistunar í gagnaverum fyrirtækisins í Svíþjóð og Finnlandi. Stækkun gagnaversins á Akureyri eykur möguleika á landfræðilegum aðskilnaði í þjónustu atNorth innan Íslands og undirstrikar áherslu fyrirtækisins á gagnaöryggi auk hagræðingar sem fæst við dreifingu álags og með auknum afköstum.

„Nýtt gagnaver atNorth á Akureyri undirbyggir enn frekar öryggi gagna hjá okkur,“ segir Hafsteinn Guðmundsson, framkvæmdastjóri rekstrarlausna hjá Advania. Hann nefnir sem dæmi að regluumhverfi sumra fyrirtækja sem vinna með viðkvæma gagnagrunna kalli á landfræðilegan aðskilnað við vistun gagna. „Núna náum við slíkum aðskilnaði og speglun gagna innanlands í gagnaverum atNorth.“

Eyjólfur Magnús Kristinsson, forstjóri atNorth segir ánægjulegt að Advania kjósi að útvíkka langt viðskiptasamband fyrirtækjanna með því að nýta sér þjónustu gagnavers atNorth á Akureyri. „Við erum stolt af auknu þjónustuframboði fyrirtækisins með áherslu á öryggi og tryggar tengingar og eins lítið kolefnisfótspor og kostur er.“

Nýjasta gagnaver atNorth á Íslandi nýtur góðs af bæði köldu loftslagi og endurnýjanlegum orkugjöfum landsins. Um leið eykst geta Akureyrarbæjar til að laða að sér fjárfestingu sem tæknimiðstöð með traustari gagnatengingum.

Starfsemi atNorth er í vexti en fyrirtækið hefur nýlega tilkynnt um smíði þriggja nýrra gagnavera, tvö í Finnlandi og eitt í Danmörku. Aukið þjónustuframboð fyrirtækisins er til að bregðast við sífellt aukinni eftirspurn eftir þeirri sjálfbæru þjónustu og innviðum sem fyrirtækið hefur að bjóða.

Sambíó

UMMÆLI

Sambíó