Gæludýr.is

Aðhald eða meðvirkni?

Einar Brynjólfsson skrifar:

Nokkur orð um þægilegan starfsanda í bæjarstjórn Akureyrar

Matthías Rögnvaldsson, bæjarfulltrúi L-listans og forseti bæjarstjórnar Akureyrarkaupstaðar, hafði mörg orð um góðan starfsanda í bæjarstjórn í sjónvarpsviðtali á N4 í febrúar sl. Sóley Björk Stefánsdóttir, bæjarfulltrúi VG tók í sama streng í aðsendri grein á vefmiðlinum kaffið.is fyrir skemmstu. Þessar yfirlýsingar bæjarfulltrúanna ríma vel við upplifun bæjarbúa sem fylgst hafa með bæjarmálum undanfarin misseri. Svo virðist sem öll dýrin í skóginum séu vinir. En er það gott?

Góður starfsandi á vinnustað er óneitanlega mikils virði, um það þarf ekki að deila, en bæjarstjórn Akureyrarkaupstaðar er enginn venjulegur vinnustaður. Þar sitja kjörnir fulltrúar almennings sem móta framtíð bæjarfélagsins, sjá um rekstur þess og síðast en ekki sízt, sýsla með fjármuni almennings. En vandi fylgir vegsemd hverri. Ábyrgðin sem hvílir á þessum kjörnu fulltrúum er mikil og gildir einu hvort þeir tilheyra meirihluta eða minnihluta bæjarstjórnar.

Hlutverk minnihluta á hverjum tíma er að veita meirihlutanum aðhald, ekki hvað sízt í fjármálum, og þar stendur hnífurinn í kúnni, a.m.k. hvað bæjarstjórn Akureyrarkaupstaðar varðar. Hvers vegna var litlum mótbárum hreyft þegar leikskólaplássum var fækkað, þegar hlutur bæjarins í Tækifæri hf. var seldur á hrakvirði, þegar kostnaður við framkvæmdir á vegum bæjarins fór fram úr áætlunum um tugi og jafnvel hundruð milljóna króna o.s.frv.?

Svo virðizt sem bæjarfulltrúar minnihlutans, þ.e. Sjálfstæðisflokks, VG og Bjartrar framtíðar hafi ekki viljað stefna þægilegum starfsanda í hættu með óþægilegum spurningum og harðri gagnrýni. Það er grafalvarlegt mál. Í stað aðhalds kemur meðvirkni. Í skjóli meðvirkni þrífst fúsk og flumbrugangur.

Ef Píratar hljóta brautargengi í næstu kosningum munu þeir, með gagnsæið að vopni, stuðla að auknu aðhaldi í bæjarstjórn, hvort sem þeir tilheyra minnihluta eða meirihluta.

Einar Brynjólfsson
Höfundur skipar 13. sæti á framboðslista Pírata.

Sambíó

UMMÆLI