Adam Ásgeir Óskarsson er fyrrum kennari og kerfisstjóri fyrir bæði Verkmenntaskólann á Akureyri og Háskólann á Akureyri. Hann nýtir nú kunnáttu sína til þess að láta gott af sér leiða, en síðastliðin tvö ár hefur hann unnið hjálparstarf í þágu góðgerðarsamtakanna ABC Barnahjálp. Adam fer reglulega í ferðir til Búrkína Fasó þar sem hann aðstoðar við tölvumál við skóla sem ABC Barnahjálp rekur þar í landi. Skólinn er staðsettur í fátækasta hluta borgarinnar Bobo-Dioulasso.
Kaffið tók Adam tali og ræddi við hann um hjálparstarfið. Hann sagði frá því hvernig þetta ævintýri hans fór fyrst af stað, en hann bauð upprunalega fram aðstoð sína í hálfgerðu gríni, sem varð svo fljótt að alvöru:
„Nú er að nálgast tvö ár síðan ég fór mína fyrstu ferð hingað til Burkína Fasó. Þrjú ár síðan ég hætti að vinna sem kennari og kerfisstjóri í VMA og HA. Tengdaforeldrar sonar míns eru búin að stunda hjálparstarf hér síðan 2015 og ég spurði þau meira í gríni en alvöru hvort þau gætu ekki notað gamlan kennara og kerfisstjóra við einhver verkefni. Þeim fannst hugmyndin góð og það varð úr að ég fór með þeim.“
Sonur Adams heitir Ásgeir Andri Adamsson. Umræddir tengdaforeldrar Ásgeirs, sem fengu Adam í lið með sér í hjálparstarfinu, eru hjónin Jóhanna Sólrún Norðfjörð og Haraldur Pálsson, eigendur pípulagningafyrirtækisins Áveitunnar hér á Akureyri.
„Þetta er gjöf sem er fólki sem á ekkert mjög mikils virði.“
Adam sagði svo frá starfinu sem hann hefur verið að vinna fyrir ABC-barnahjálp. Sú vinna hefur falið í sér ferðir til Búrkína Fasó, en hann hefur einnig útvegað skólanum þar í landi tölvur í samstarfi við fyrirtæki og skóla hér heima.
„Ég sá strax að hér var aldeilis hægt að taka til hendinni. Tölvustofa er við skólann og þar voru 20 ára gamlar tölvur og allt úr sér gengið. Þegar ég kom heim vissi ég að verið var að fartölvuvæða VMA og ég bauðst til að gefa tölvunum sem verið var að leggja þar framhaldslíf í Afríku. Skólastjórnendur í VMA samþykktu að gefa mér gömlu tölvurnar sem ég tók og fór með út í verbúð, setti þær upp og sendi hingað niður eftir. Í síðustu ferð setti ég síðan upp, ásamt Magnúsi Kristinssyni hjá Nýherja, tölvustofu með 63 tölvum og nettengdum við þær með búnaði sem Nýherji styrkti verkefnið með.“
„Ég frétti einnig af því að Vodafone var að endurnýja fartölvur hjá starfsfólki og bauð þeim upp á það sama. Þeir þáðu boðið eins og VMA og eru búnir að skaffa okkur fjöldan allan af fartölvum sem ég hef sett upp með Linux stýrikerfi. Tölvurnar erum við að gefa nemendum sem útskrifast úr framhaldsskóla og eru á leið í háskóla. Þetta er gjöf sem er fólki sem á ekkert mjög mikils virði.“
Skólahald hefst í næstu viku
Þessa stundina er Adam einmitt staddur í Búrkína Fasó, þar sem hann og fleiri leggja nú lokahönd á undirbúning fyrir skólasetningu í næstu viku. Adam greindi einnig frá heimsókn sinni í háskólann í Bobo, Aube Nouvelle í gær. Adam heimsótti háskólann með góðum hóp sem hann segir vera að byggja upp alls kyns tengingar á staðnum.
„Annars erum við að vinna að skólastarfi hér á breiðum grunni því ABC-barnahjálp rekur hér skóla þar sem nemendur verða 1160 í vetur. Skólinn spannar allt frá leikskóla til framhaldsskóla. Síðan við vorum hér síðast hefur verið reist 1200 fermetra bygging við framhaldsskólann til viðbóðar við það sem fyrir var. Skólinn fer í gang í næstu viku en við erum búin að vera hér í viku að undirbúa skólabyrjun.“ segir Adam.
Aðspurður hvað Norðlendingar og aðrir lesendur geti gert til þess að hjálpa til segir Adam: „Svarið við því er einfalt. Mesti styrkurinn er að styðja við barn til skólagöngu. Skólinn er rekinn í fátækast hluta borgarinnar Bobo-Dioulasso og aðeins eitt barn úr fjölskyldu fær að koma í skólann. Að styrkja barn kostar 3800 kr. á mánuði og sú upphæð dugar fyrir bókum, kennslu, mat og skólabúningi.“
Adam segir það mjög einfalt að styrkja barn í gegnum vefsíðu ABC Barnahjálpar (smella hér). „Þessi upphæð er svipuð og ein meðalpizza kostar hjá Jóni Sprett,“ segir Adam að lokum.
UMMÆLI