NTC

Að segja „seytt rúgbrauð”!

Inga Dagný Eydal skrifar:

Ég hef lifað undanfarin ár í þeirri fullvissu að ég sé ekki gömul og ekki einu sinni miðaldra. Að vísu yrði ég 108 ára ef aldur minn núna yrði tvöfaldaður en miðað við það að orðið miðaldra lýsi fremur ástandi en árafjölda þá er ég alls ekki miðaldra. Ömmur okkar og langömmur urðu kannski miðaldra og fóru í hagkaupssloppinn upp úr fimmtugu en mín kynslóð, enn sofandi hjá, kunnum á espresso, rauðvín og erlendar stórborgir -við verðum sko ekki miðaldra líkt því strax og munum varla ná að lifa þau vafasömu tímamót ef svo fer sem horfir. .

Að vísu má ef mjög grannt er skoðað sjá nokkur ummerki þess að seinni hluti ævinnar sé svona að búa um sig í mjög grunnum startholum, -maður sefur jú í ullarsokkum, hlustar á rás eitt og fer óguðlega snemma á fætur, sjónin aðeins byrjuð að dala og djammið orðið skemmtileg minning en þessi atriði blikna sambanborið við unglega hlutann. Hugarfarið, orðfærið, frjór hugur, skörp viðbrögð, -allt er þetta á pari við miklu yngra fólk.

En það kom að því að ég færi að efast um þessa ljómandi góðu sannfæringu mína og það var eiginlega bara syni mínum að kenna og hans fáránlegu hugmynd um að kaupa plokkfisk í Reykjavík. Hver gerir það? En hann blessaður kúturinn kom í helgarferð til Íslands og mamma hans þessi unglega og hressa kona skrapp suður að hitta afkomandann. Og hann sumsé vildi borða plokkfisk eftir langa fjarveru frá Íslandinu góða og við mæðginin fórum saman í fiskbúð.

Ungi maðurinn sem afgreiddi okkur setti þennan fína plokkfisk í bakka og spurði hvort mætti bjóða okkur eitthvað fleira. „já takk”, sagði ég, „áttu ekki seytt rúgbrauð?” Ungi maðurinn horfði á mig tómum spurnaraugum. „Seytt rúgbrauð”, endurtók ég svona til öryggis ef hann hefði ekki heyrt til mín. Enn var þessi svipur á manninum eins og ég hefði sagt eitthvað á kínversku en svo kviknaði skilningsglampi og hann sagði vongóður, „við eigum til rúgbrauð”. „Já en það verður að vera seytt rúgbrauð með plokkfiski, eigið þið ekki svoleiðis”, spurði ég? Þá tók ég eftir því að sonur minn var farinn að gefa mér olnbogaskot og hvíslaði eða öllu heldur urraði út um annað munnvikið, „mamma hættu þessu, það segir enginn seytt rúgbrauð!” Ég skildi þetta nú ekki alveg, það er jú til venjulegt ljóst rúgbrauð og svo brauð sem búið er að baka lengi við lágan hita, en ég vildi ekki gera drenginn vandræðalegan þarna í fiskbúðinni og sættist því á að kaupa bara rúgbrauðskubb (seyddan).

Þegar við mæðginin vorum á leið út úr búðinni reyndi ég samt að útskýra muninn á þessu tvennu fyrir syni mínum en hann hló bara. „Seytt, hver heldurðu að segi seytt, af hverju væri þá bara ekki sagt soðið?”. „Jú” sagði ég, ákaflega þolinmóð, „ soðið brauð er bara allt annað”. “Hvernig þá?” „ Jú það er steikt” sagði ég hróðug. Og þá rann það upp fyrir mér að sonurinn minn sem er þó enginn táningur horfði á mig með vorkunsemi unga fólksins og ég var hreinlega að fá „æi þú ert nú líka orðin svo gömul” meðferðina

.Kannski læðist aldurinn jafn hljóðlega að minni kynslóð og öllum öðrum, já nema kannski meðlimum Rolling Stones og Röggu Gísla! Allt í einu er nætursvefn, gigtarverkir og bankavextir orðið alvöru umræðuefni og maður er hættur að lesa ljóð í baði og njóta þess að fara í taugarnar á kynslóðinni á undan. Ég er orðin kynslóðin á undan og það sem meira er að allar tilraunir fólks á mínum aldri til að vera ung, hipp og kúl,- verða bara svolítið vandræðalegar. Það er bara fínt að vera miðaldra með broshrukkur, gleraugu á nefinu og hökuhár.

Sumsé þið gömlu þarna úti sem talið um seytt rúgbrauð þá segir enginn það lengur allavega ekki í Reykjavík. Maður segir bara rúgbrauð, hitt er bæði gamaldags og hallærislegt.

Eina leiðin til að vera besta útgáfan af sjálfum sér er að gangast við sjálfum sér.

Inga Dagný Eydal er Norðlendingur á besta aldri sem starfað hefur m.a. við hjúkrun, kennslu og tónlist. Hún býr í Eyjafjarðarsveit ásamt eiginmanni og hundi og sinnir eigin endurhæfingu og sköpun s.s. í ljósmyndun og skrifum, matargerð og listmálun. Veltir gjarnan vöngum yfir tilverunni, mannlífinu og vitleysunni í sjálfri sér og skrifar niður í pistla. Pistillinn birtist upphaflega á  raedaogrit.wordpress.com/

Sambíó

UMMÆLI