Að rækta garðinn sinn

Að rækta garðinn sinn

Gauti Jóhannesson skrifar

Öflugt atvinnulíf er grundvöllur þeirra lífskjara sem við öll viljum búa við og forsenda þess að Norður- og Austurland haldi áfram að styrkjast og dafna. Sem betur fer er fjöldi öflugra aðila sem stundar ýmiskonar atvinnurekstur í fjölbreyttum greinum á svæðinu.

Mikil áhersla hefur undanfarið verið lögð á nýsköpun og frumkvöðlastarfsemi. Það er gott. Frumkvöðlum hafa staðið og standa enn til boða styrkir og stuðningur, hvort tveggja frá ríki og sveitarfélögum. Í áherslunni á stuðning við frumkvöðla og nýsköpun má hins vegar ekki missa sjónar á þeim sem árum og jafnvel áratugum saman hafa staðið vaktina og haldið uppi því atvinnulífi sem við allt of oft tökum sem gefnu. Gildir þá einu hvort um er að ræða snyrtistofur, bændur, bifvélavirkja, sjómenn, hárskera, trésmiði eða saumastofur – og áfram mætti telja.
Þetta fólk hefur lagt mikið á sig, margt hvert unnið myrkranna á milli og lagt allt undir til þess að skapa sér og sínum viðunandi lífskjör.

Allir eiga þessir einstaklingar það sameiginlegt að hafa lagt af stað með hugmynd sem þeir trúðu á, viljann til að hrinda henni í framkvæmd og kjarkinn til þess að láta til skarar skríða. Margir stigu fyrstu skrefin sem einyrkjar en hefur vaxið fiskur um hrygg og veita nú fleirum atvinnu.

Það er einmitt í þessu sem mikilvægi þess að treysta einstaklingnum til þess að skapa sér og sínum lífsviðurværi kristallast. Ekki má gleyma því að allt þetta fólk hefur lagt sitt af mörkum til þess að samfélag okkar sé eitthvað sem við getum, og eigum að vera, stolt af.
Hlutverk hins opinbera er plægja akurinn, gera öllu þessu fólki kleift að fullnýta tækifæri sín, án óþarfa afskipta.

Höfundur, er forseti sveitarstjórnar Múlaþings og býður sig fram í 1. sæti í prófkjöri Sjálfstæðisflokksins í Norðausturkjördæmi fyrir alþingiskosningar árið 2021.

Sambíó

UMMÆLI

Sambíó