NTC

Að púsla hamingjunni

Inga Dagný Eydal skrifar:

Það er langt síðan að ég sannfærðist um það að hamingjan er viðhorf. Viðhorf sem skapast af sátt við það sem er, var og verður. Það er sannarlega ekki alltaf auðvelt að tileinka sér slíka sátt, en þannig eru jú líka öll verkefni lífsins og þetta er kannski það allra mikilvægasta af þeim öllum. En hamingjan er margslungið fyrirbrigði og auðvitað eru gleðistundirnar allar, fólkið í lífi okkar, ástin og umhverfið líka hluti hamingjunnar. Allt eru þetta bútar í hamingjupúslið og þessir bitar kosta enga peninga, bara viðhorf og vinnu.

Þrátt fyrir allt eru líka bitar í púslinu sem teljast veraldlegri hlutir. Að minnsta kosti í mínu púsli. Á morgungöngunni duttu mér í hug nokkrir hlutir sem auka hamingju mína um þessar mundir og ég er sannarlega þakklát fyrir þá.

Hér koma nokkrir þeirra:

Kraftgallinn sem maðurinn minn gaf mér í jólagjöf í fyrra hefur fært mér ómælda hamingju í frosthörkum og vetri. Hann hlýjar mér (ásamt öllum húfunum mínum) þannig að ég get notið þess að vera úti, alla daga í öllum veðrum, fengið kraft úr fjöllum og fjöru og notið þess að upplifa öll veðurbrigði.

Síminn minn sem ég hringi reyndar sjaldan úr en nota þess meira til að taka myndir, hlusta á alla heimsins tónlist, iðka núvitund og fylgjast með börnum og barnabörnum í fjarlægð.

Málningartrönurnar sem minn ástkæri smíðaði handa mér og gera mér kleift að sinna nýju uppáhalds iðjunni minni og gleyma mér í litum og sköpun.

Hitapúðinn minn sem kostaði ekki mikið en heldur hita í nákvæmlega 90 mínútur þannig að ég get sofnað róleg við ylinn á bakinu og sofið miklu mun betur.

Nefni að lokum bílinn minn pínulitla en fjórhjóladrifna árgerð 2007. Á þessu trölltrygga farartæki tuffa ég um sveitina og rúlla rólega upp svellaða heimreiðina að vild og það er fyrir mér sannkallaður lúxus.

Allt þetta eru lífsgæði sem ég er ákaflega þakklát fyrir og því dettur mér ekki í hug að hamingjan sé ekki veraldleg líka. Hinsvegar er gott að hamingjupúslið sé nú kannski samansett fyrst og fremst af óáþreifanlegum hlutum sem hvorki möl né ryð geta grandað því þeir standast betur tímans tönn yfirleitt. Annars er gott að fara vel með dótið sitt og vera glaður með það sem maður á. Það er hollt fyrir okkur sjálf og fyrir umhverfið.

Eina leiðin til að vera besta útgáfan af sjálfum sér er að gangast við sjálfum sér.

Inga Dagný Eydal er Norðlendingur á besta aldri sem starfað hefur m.a. við hjúkrun, kennslu og tónlist. Hún býr í Eyjafjarðarsveit ásamt eiginmanni og hundi og sinnir eigin endurhæfingu og sköpun s.s. í ljósmyndun og skrifum, matargerð og listmálun. Veltir gjarnan vöngum yfir tilverunni, mannlífinu og vitleysunni í sjálfri sér og skrifar niður í pistla. Þetta er annar pistill hennar fyrir Kaffið.is. Pistillinn birtist upphaflega á  raedaogrit.wordpress.com/

Sjá einnig: 

Að segja „seytt rúgbrauð”!

 

Sambíó

UMMÆLI