Að hagræða staðreyndum

Alex Cambray Orrason skrifar

Sæl Silja

Við í KFA höfum síðustu 9 mánuði reynt að standa í málefnalegri umræðu við ykkur hjá Akureyrarbæ um framtíð félagsins. Alls staðar höfum við þó komið að lokuðum dyrum og aldrei fengið svör um eitt né neitt, né fengið að vita hvar málið stæði. Okkur hefur verið haldið utan við flest alla fundi sem haldnir hafa verið og sjónarmið okkar oft og tíðum ekki fengið að koma fram. Eða þau einfaldlega hundsuð.

Að okkur hafi ekki verið leyft að sitja seinustu þrjá fundi, þar sem málefni varðandi framtíð húsnæðismála félagsins voru tekin fyrir, sýnir vel að okkar sjónarmið eru einskis virði í huga “meirihluta frístundaráðs Akureyrarbæjar” eða ykkar Óskar Inga Sigurðssonar og Arnar Þórs Jóhannessonar sem atkvæði í meirahluta gegn tveimur öðrum sem sátu fundinn. Þið þjú lögðuð fram þvingandi tillögu og ekki annar möguleiki í stöðunni en að hún yrði samþykkt. (Sjá fundargerð:  https://www.akureyri.is/is/stjornkerfi/stjornsysla/fundargerdir/fristundarad/10609)

 Leigðum sjálf án styrkja

Það er rétt hjá þér að þetta mál á sér nokkuð langar forsögu, en til þess að auka nýliðun, sem og barna- og unglingastarf fluttum við úr áhaldageymslunni í íþróttahöllinni á sínum tíma og í kjallarann í Sunnuhlíðinni. Við leigðum hluta af aðstöðunni sjálf án styrkja en þó með annan fótinn í höllinni til öryggis. Síðar vorum við borin út úr höllinni og hluti af verðmætum okkar var eyðilagður. Við leigðum Sunnuhlíðina með Draupni, þar til árið 2016, þegar vinna hófst við að flytja bæði félögin í sameiningu í Laugargötuna. Áður en Draupnir flutti í Laugargötuna, var búið að gefa vilyrði fyrir því að farið yrði í framkvæmdir þar svo hægt væri að sinna því starfi sem fram fer í KFA. Það gekk þó ekki eftir og Akureyrarbær sá fram á að framkvæmdirnar myndu kosta of mikið og neitaði að greiða fyrir þær. Eðli máls samkvæmt gátum við ekki flutt þangað, því aðstaðan eins og hún var þá og er enn, er bæði alltof lítil fyrir félag af þessari stærð og í þessu ásjónkomulagi ekki örugg fyrir starfsemi okkar.

Mikilvægum staðreyndum sleppt

Umfjöllunin þín er þó ekki málefnalegri en það að þú sleppir mikilvægum staðreyndum málsins og fjallar ekki um hlutina í samhengi. Staðreyndir málsins eru þær að það eru í augnabliknu rúmlega 300 iðkendur í KFA, bæði afreksmenn, afreksefni, börn, unglingar og iðkendur úr öðrum félögum innan ÍBA, t.d. Knattspyrnudeild Þórs, frjálsíþróttamenn og skíðafólk. Núverandi aðstaða er um 900 fermetrar og er hver einasti fermetri fullnýttur, enda eru fimm deildir innan KFA, þ.e. við erum með Kraftlyftingardeild, ólímpískadeild, frjálsíþróttadeild, klifurdeild og almennadeild. Þar að auki sinnum við starfi með fötluðum og öðrum sem eiga við líkamleg og/eða andleg vandamál að etja.

Kostnaðurinn við að leigja núverandi aðstöðu er um 750 þúsund á mánuði, og þar er ekki meðtalinn rekstarkostnaður, t.d. hiti, rafmagn og hússjóður. Það er því alveg á hreinu að með því að bjóða félaginu 4 milljónir á ári þá mun ekki vera hægt að leigja núverandi aðstöðu.

Salur í Laugargötu hentar engan vegin

Á fundi okkar með bænum í febrúar sl. var lagður fram ársreikningur og fjárhagsáætlun og hafi hún verið skoðuð við ákvarðanatöku í máli þessu, þá er það alveg á hreinu að félagið getur ekki verið rekið í núverandi mynd með aðeins 4 milljónir á ári í styrk. Einnig er alveg ljóst að starfsemi félagsins getur ekki farið fram í 140 fm sal með fjaðrandi parketgólfi, enda er sú aðstæða um 5 sinnum minni er núverandi aðstaða. Slík aðstaða gæti gengið fyrir meistaraflokk í kraftlyftingum, sem hefur um 30 manns innanborðs, en iðkendur félagsins eru þó ríflega þrjúhundruð talsins. Slíkar breytingar yrðu til þess að engin nýliðun yrði innan félagsins sem og að barna- og unglingastarf myndi alveg falla niður. Félagið hefur um árin safnað heilmiklum búnaði, hann þyrftum við að selja, gefa eða jafnvel henda megninu af honum. Ljóst er að hann kemst engan vegin fyrir í 140 fermetra sal. (Salur af þeirri stærð myndi varla nýtast sem geymsla fyrir félagið). Meistaraflokkurinn þyrfti síðan að öllum líkindum að nýta sér almennar líkamsræktarstöðvar, til að stunda þær auka æfingar sem nauðsynlegar eru í kringum kraftlyftingar, en það er virkilega varhugavert. Íþróttafólk á að geta æft í vernduðu lyfjalausu umhverfi.

Því liggur fyrir að KFA, hefur og hafði aldrei möguleika á að flytja í Laugargötuna, enda myndi það þýða að draga yrði verulega úr starfsemi félagsins. Það er svo auðvitað mjög áhugavert og allt annað mál að þar sem það er fjaðrandi parketgólf í húsnæðinu, þá hefði félagið yfir höfuð ekki geta flutt starfsemi sína þangað, án þess að þurfa að fara í framkvæmdir, fjarlægja gólfið og leggja nýtt. Það væri auðvitað mjög dýrt og krefstfjárútláta sem KFA hefur ekki ráð á.

Hugsanleg kaup aldrei rædd

Það gleymist einnig í umfjöllun þinni að núverandi aðstaða KFA, var til sölu og bauðst Akureyararbæ að kaupa húsnæðið á mjög sanngjörnu verði. Ekki veit ég nákvæmlega hver fjárhæðin var, en heyrði útundan mér að töluna 45 milljónir. Það er auðvitað talsverð upphæð, en þó ekki sokkinn kostnaður, líkt og ef húsnæðið væri tekið í leigu, vegna mögulegrar sölu seinna meir. Þetta var þó ekki tekið til umræðu, því það hefði auðvitað komið illa út fyrir bókhaldið hjá núverandi bæjarstjórn.

Í samtali við ykkur í “meirihlutanum” vorum við og starfsemi okkar borin saman við fyrirtæki á borð við Tónræktina sem er fyrirtæki með starfsemi í gróðaskyni en KFA er félag sem rekið er með ófjárhagslegum markmiðum og nánast öll starfsemi unnin í sjálfboðaliða vinnu. Því eru þau rök sem þið gáfuð fyrir þeirri upphæð sem félaginu er boðið ómarktæk og í besta falli á misskilningi byggð.

Það eina sem ljóst er í þessu máli er að “lausn” ykkar í “meirihlutanum“ er engin lausn og mun þýða endalok félagsins í núverandi mynd. Þrátt fyrir að nefndin kæmi með tvær tillögur, þýðir það ekki að meirihlutinn hafi verið að reyna að leysa vanda okkur, heldur liggur fyrir að vilji hans er að knésetja KFA.

Viljum einungis sitja við sama borð og aðrir

KFA óskar einungis eftir því að sitja við sama borð og önnur íþróttafélög innan ÍBA, þ.e. að geta boðið iðkendum sínum upp á aðstöðu, bæði afreksmönnum og börnum og ungmennum. Það verður auðvitað enginn uppbyggingarsamningur gerður við okkur þar sem stefna meirihlutans er að félagið hætti nýliðun og hætti með barna og unglingastarf. Í samskiptum okkar við meirhlutann, sem raunar eru ekki mikil, höfum við komið með fjölmargar lausnir, m.a. að kaupa húsnæði, innrétta aðstöðu í íþróttahöllinni og fleira, en hugmyndir okkar hafa engan hljómgrunn hlotið.

Við viljum bara jafnrétti, þ.e. að eiga sömu möguleika og annað íþróttafólk í öðrum félögum til þess að stunda íþróttina okkar, ég trúi því ekki að það sé raunverulegur vilji meirihluta bæjarstjórnar að KFA hætti starfsemi sinni og að íþróttamaður Akureyrarbæjar og annað afreksfólks innan félagsins, neyðist til að flytja úr bænum til þess að geta æft íþróttina sína og verið bænum til sóma á alþjóðavísu.

Fyrir hönd Kraftlyftingafélags Akureyrar

Alex Cambray Orrason

Framkvæmdastjóri KFA

Sjá einnig:

KFA hefur val um að fara í Laugargötu endurgjaldslaust eða fá 4 milljónir á ári frá Akureyrarbæ

Sambíó

UMMÆLI

Sambíó