Að elska þig og mig

Að elska þig og mig

Jóhanna Ingólfsdóttir skrifar:

Ég gæti skrifað heila bók um það að elska. Ég elska hugmyndafræðina „að elska“, elska lífið, elska tilveruna, elska hluti, elska fólk og elska sjálfan sig.

Alveg frá því að ég man eftir mér hef ég átt mjög auðvelt með að elska. Hugmyndafræðin var kannski ekki mjög skýr á meðan ég var barn, en fyrir mér var þetta mjög einfalt samt, ég elskaði dúkkurnar mínar og þær elskuðu mig, ég elskaði mömmu mína og hún elskaði mig. Þannig í upphafi vaxtarferils míns var þetta mjög einfalt, ef ég elskaði eitthvað þá var ég elskuð til baka.

Þegar ég stækkaði aðeins þá varð þetta ekki alveg jafn einfalt, ég elskaði allskonar staði, hluti og fólk, en ástin sem ég fékk til baka varð ekki jafn skýr, hlutir urðu ónýtir, staðir breyttust og fólk kom ekki alltaf fram við mig eins og það elskaði mig, allavega fannst mér það ekki vera eins og ég kom fram við það, í þeirri skilgreiningu sem ég túlkaði sem ást. Ég tók þar af leiðandi mjög snemma ákvörðun um það að ef ég elskaði bara nógu heitt og mikið þá myndi ég geta túlkað það sem ég upplifði sem ást á mér til baka. Það að elska hugtakið mitt varð því mjög skakkt. Mótunar árin mín fóru svo í það að elska bara nógu mikið fyrir alla. Fyrir þrítugt var ég fyrir vikið komin þangað að ég var farin að fela mig á bakvið það að ég væri bara svo ofboðslega þolinmóð og fyrirgefningafús að ég gæti bara elskað allt og alla alveg sama hvað gerðist eða væri gert.

Ég týndi algjörlega sjálfri mér því ég gleymdi að taka með mér frá upphafi mikilvægustu ástina, það að elska sjálfa mig. Ég sá það bara ekki sem part af því að elska, sjálfsástin mín var ávalt miðuð við að einhver elskaði mig, og ég mældi hana útfrá því hversu mikið ég elskaði. Ef ég elskaði einhvern eða eitthvað nógu mikið, þá væri það ást sem ég fengi til baka, ástin sem myndi næra mig og gera mig betri á einhvern hátt. Þar af leiðandi var það mælistika mín á það hversu mikið ég mætti elska sjálfan mig, án þess að vera sjálfselsk, hvernig aðrir elskuðu mig og í rosalega langan tíma hélt ég að vegna þess að það var ekki komið fram við mig af þeirri ást og virðingu sem allir eiga skilið, þá kom ég ekki fram við sjálfa mig af þeirri ást sem ég átti skilið. Þar af leiðandi var ég sannfærð um að ef ég bara sýndi þolinmæði, fyrirgæfi og sýndi ást, þá myndi það koma til mín að ég yrði elskuð. Komst ég þá að þeirri niðurstöðu að ég í raun kunni ekkert að elska, ég kunni að lágmarki ekki að elska sjálfa mig.

Til að brjóta þennann vítahring þá þurfti ég að læra að hætta að segja ég elska þig við allt og alla, til þess að læra að geta sagt við sjálfa mig ég elska mig. Ég tók nokkur ár í þeirri vinnu að finna út, hvernig ég gæti elskað sjálfa mig og í framhaldi af því fann ég út að vera ég er að elska allt og alla, þar með talið sjálfa mig. Ég þurfti bara að finna út hvernig ég gæti ein og sér elskað sjálfa mig óháð afstöðu annara til mín, lífinu, tilverunni eða hlutum.

Það var vegferð, sem er reyndar enn í gangi, því ég er þeirrar skoðunnar að ég sé sífellt að uppgvöta og læra. Það voru margir partar af sjálfri mér sem mér líkaði ekki við, mér líkaði ekki ef ég var óþolinmóð, eða ef ég varð pirruð eða reið. En með því að taka alla parta af sjáfri mér í sátt, óháð því hvort mér líkar við þá eða ekki, þá lærði ég að elska sjálfa mig í öllum útgáfum og get þar af leiðandi með heilum hug elskað annað fólk óháð þeirra misbrestum.

Ég fann mér leiðir til að læra að segja ég, og ekki bara ég heldur ég um mig frá mér til mín.

Ég elska mig og öll sú ást sem ég á er frá mér til mín og þar sem ég elska mig þá get ég elskað þig. 

Höfundur er menntaður nlp-markþjálfi

Sambíó

UMMÆLI

Sambíó