NTC

Að elska skatta

Elís Orri Guðbjartsson skrifar

Elís Orri Guðbjartsson er meistaranemi í alþjóðastjórnmálum við London School of Economics and Political Science (LSE). Þetta er fjórði pistill hans sem birtist á Kaffið.is.

Kveikjan að þessum pistli var færsla Benónýs Harðarsonar, fyrrverandi formanns VG í Reykjavík*, á Twitter þar sem hann lýsti því yfir að hann elskaði skatta. Eins og sjá má í færslunni tvíundar hann hversu mikið hann greiddi í skatta á síðasta ári, annars vegar til ríkis og hins vegar til sveitarfélags — rúmlega tvær milljónir króna. Ég hef enga ástæðu til að ætla annars en að Benóný elski skatta — og álasi honum enginn fyrir — en þó finnst mér að skattgreiðendur eigi að gera mun meiri kröfur til bæði ríkis og sveitarfélaga þegar kemur að nýtingu fjármagns.

You’re either with us or against us

Þegar talað er um skatta finnst mér oft eins og að menn komi sér kyrfilega fyrir í skotgröfum og flokki fólk ýmist til hægri eða vinstri, sem er mjög þægileg en brengluð leið til flokkunar. Ef þú elskar skatta ertu gegnheill og góður vinstri maður — þú vilt þér og þínum vel og vilt reka hér öfluga grunn- og stoðþjónustu. Ef þú hatar skatta ertu illa innrættur hægri maður — eiginhagsmunaseggur af verstu sort sem hefur ekki snefil af samfélagslegri ábyrgð og hugsar einungis um rassgatið á sjálfum þér.

Þessi binary hugsunarháttur nær ekki nægilega vel að fanga litróf skattgreiðenda. Svo ég tali fyrir sjálfan mig hata ég hvorki né elska að greiða skatta. Ég er líklegast til í einhverju miðjumoði.

Ég veit að skattar eru nauðsynlegir til að reka samfélagið og ég myndi aldrei ekki vilja greiða þá, enda tel ég að það hefði drastísk áhrif til lengri tíma. Að sama skapi vil ég forðast eftir fremsta megni hina sósíalísku útópíu þar sem ríkið innheimtir enn stærri hluta launanna minna og veitti í staðinn enn meiri (og væntanlega, skv. þeim sem með þessa möntru fara, betri) þjónustu, enda finnst mér skattprósentan of há nú þegar.

Við eigum nefnilega að gera kröfur til ríkisins. Við eigum að gera þær kröfur að því fjármagni sem innheimt er, sé varið á sem hagkvæmastan hátt.

Agi og hagkvæmni

Það liggur í augum uppi að ef meiri agi og hagkvæmni væri til staðar hjá íslenska ríkinu væri hægt að ráðstafa fjármagni betur sem aftur eykur forsendurnar fyrir því að lækka skatta — öllum til góðs. Það ætti ekki að koma neinum á óvart að skattféð er ekki nýtt á sem hagkvæmastan máta, og því fer því miður fjarri.

Það er ekki að ástæðulausu að forstjóri Ríkiskaupa, stofnunar sem veitir þjónustu og ráðgjöf við útboð og gerð rammasamninga, sagði í Kastljósi að hér á landi væri „víða pottur brotinn“ í þessum efnum enda „væri akkúrat ekkert eftirlit“ með innkaupum hins opinbera. Við það bætti hann að það væri „dýrt að vera með 200 innkaupastjóra“ í stað þess að nýta sér stærðarhagkvæmni ríkisins, og tekur formaður starfshóps fyrrum fjármálaráðherra sem greina átti innkaup hins opinbera heilshugar undir þá gagnrýni sem telur að ríkið hafi „enga yfirsýn yfir innkaup sín“.

Hagkvæmni forsendan fyrir lækkun skatta

Ég mun seint eiga í eldheitu ástarsambandi við skatta. Mér þætti þó virkilega vænt um það ef ríkið myndi hysja upp um sig buxurnar, losa sig við þennan smákónga hugsunarhátt sem virðist ríkjandi innan fjölmargra stofnana og koma upp almennilegu eftirlitskerfi hvað nýtingu á skattfé varðar. Bara það að nýta þjónustu Ríkiskaupa sparaði tvo milljarða árið 2015, og því borðliggjandi að slíkt eykur hagkvæmni stofnana til muna. En þrátt fyrir það er ekkert eftirlit með því að stofnanir fylgi lögum og reglum og nýti slíka þjónustu, sem leiðir til óþarfrar peningasóunar. Það að útboð á bæði vörum og þjónustu virðist ekki vera í hávegum höfð hjá mörgum stofnunum er auðvitað fásinna — og það rándýr.

Nýtum skattféð betur og lækkum skatta í kjölfarið. Það er svo mikið win-win, hvort heldur sem þú ert gegnheill og góður eða eiginhagsmunaseggur.

Sambíó

UMMÆLI