„Að búa og læra á Akureyri bætir upplifunina“

„Að búa og læra á Akureyri bætir upplifunina“

Þessa vikuna fáum við að heyra frá Cristinu Cretu, stúdent í Lagadeild, um manlífið í Háskólanum á Akureyri.


Í hvaða námi ert þú?  

Ég er í framhaldsnámi í lögfræði við Háskólann á Akureyri. 

Af hverju valdir þú þetta nám? 

Ég valdi lögfræði vegna þess að ég hef lengi haft áhuga á réttlæti og hvernig lög geta mótað samfélög og haft áhrif á líf einstaklinga. Í náminu áttaði ég mig svo betur á því hvernig mismunandi lagakerfi virka og hvernig þau geta bæði eflt og takmarkað réttindi fólks. Laganámið við HA býður upp á fjölbreytt tækifæri til að rannsaka samfélagsleg málefni í lagalegu samhengi, eins og ég gerði í BA-ritgerðinni minni, „War Crimes Against Children in International Law: An Analysis of the Six Grave Violations,“ þar sem ég fjallaði um hvort alþjóðalög geti tryggt vernd barna á átakasvæðum.

Hvers vegna valdir þú HA?

Ég valdi HA vegna þess að lögfræðinámið hér býður upp á einstaka áherslu á því sem ég hef mestan áhuga á. Einnig fannst mér heillandi að vera hluti af háskóla sem leggur áherslu á persónulega nálgun og náið samstarf stúdenta og kennara.

Hvernig finnst þér háskólalífið á Akureyri?  

Ég hef notið þess að taka þátt í fjölbreyttum verkefnum og viðburðum á vegum stúdentafélagsins SHA, þar sem bæði félagsleg og fræðileg málefni fá sitt pláss. Að sitja í stjórn Þemis og SHA hefur gefið mér einstakt tækifæri til að hafa áhrif á háskólasamfélagið, skipuleggja viðburði og efla umræðu um mikilvæg samfélagsleg málefni.

Hvað ber framtíðin í skauti sér að loknu námi?  

Að loknu framhaldsnámi stefni ég að því að vinna á sviði mannréttinda og alþjóðaréttar, hvort sem er hjá íslenskum ráðuneytum, alþjóðastofnunum eins og Sameinuðu þjóðunum eða Mannréttindadómstól Evrópu, eða í samstarfi við félagasamtök. Markmið mitt er að stuðla að lagalegum úrbótum og stefnumótun sem styður við réttindi og vernd þeirra sem standa höllum fæti, bæði á Íslandi og á alþjóðavettvangi.

Hvað ætlar þú að verða þegar þú verður stór?  

Ég stefni að því að verða lögfræðingur.

Hvaða ráð myndir þú gefa nýnemum sem eru að hefja nám við háskólann? 

Ég myndi ráðleggja nýnemum að nýta tækifærin sem fylgja því að vera hluti af háskólasamfélaginu. Það er mikilvægt að taka þátt í verkefnum og viðburðum, bæði til að læra meira um áhugasvið sitt og til að mynda tengsl. Til dæmis hef ég sjálf fengið að taka þátt í málstofu um mannréttindi í Færeyjum, kynna BA-ritgerðina mína á lögfræðitorgi, og verið virk í félögum eins og Þemis og SHA.   

Að lokum er gott að skipuleggja tímann vel og finna jafnvægi milli náms og félagslífs, því bæði stuðla að árangri og tengslamyndun.

Hvað gerir háskólann sérstakan að þínu mati?  

Háskólalífið sjálft er mjög líflegt, með öflugu félagsstarfi þar sem stúdentafélög skipuleggja skemmtilega viðburði – en að búa og læra á Akureyri bætir upplifunina, þar sem bærinn býður upp á rólegt umhverfi sem hentar vel til náms.

Hvar er besti staðurinn til þess að læra?  

Mér finnst best að læra á bókasafninu, þar sem aðstaðan er til fyrirmyndar. Þar er til dæmis hægt að tengja fartölvuna við annan skjá! Líkurnar eru þó ansi miklar á því að þú hafir séð mig í hljóðeinangruðu næðisrýmunum, því ég eyði líklega meiri tíma þar en ég kæri mig um að viðurkenna J 

Hvernig er kaffið í HA?

Kaffið í HA er alveg ágætt, en það verður alltaf betra þegar það er drukkið í góðum félagsskap í mötuneytinu.

Sambíó
Sambíó